- Fréttir

Í gær, fimmtudaginn 6. okt, veitti Myndstef styrki til starfandi myndhöfunda, samtals 17 milljónum. Þessar styrkveitingar eru árlegur viðburður og er þetta í tuttugasta skipti sem þessir styrkir eru veittir, en á þeim tíma hefur verið úthlutað um 152 milljónum til myndhöfunda. Fjármunir sem Myndstef úthlutar með þessum hætti eru greiðslur til samtakanna vegna notkunar á vernduðum myndverkum en eitt af hlutverkum samtakanna er að koma þeim greiðslum til myndhöfundanna, meðal annars í formi styrkja.

Árið 2020 ákvað stjórn Myndstefs að hækka heildarfjárhæð styrkja úr rúmlega 10 milljónum í 15 milljónir. Hækkunin var gerð í ljósi aðstæðna í heiminum sökum heimsfaraldursins og að fordæmi annarra styrktarsjóða sem hækkaðir voru það árið. Sama fjárhæð var aftur veitt í fyrra þar sem áhrif heimsfaraldursins voru enn talsverð, sérstaklega í menningargeiranum.

Heildarfjárhæðin var svo aftur hækkuð núna í ár, í 17 milljónir, og hafa styrkir Myndstefs aldrei verið hærri.

Sérstök úthlutunarnefnd sem skipuð er af þremur aðilum úr aðildarfélögum Myndstefs velur úr umsóknum og úthlutar styrkjunum. Í úthlutunarnefnd í ár sátu:
Elín Hrund Þorgeirsdóttir, tilnefnd af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
Ingvar Högni Ragnarsson, tilnefndur af Félagi íslenskra samtímaljósmyndara (FÍSL)
Sigrún Hrólfsdóttir, tilnefnd af Samtökum íslenskra myndlistarmanna (SÍM)

Styrkveitingin fór fram í Grósku í Vatnsmýrinni þar sem styrkþegar, stjórn og starfsmenn Myndstefs komu saman og fögnuðu. Ragnar Th. Sigurðsson, stjórnarformaður hélt stutta tölu og veitti styrkina með formlegum hætti, en ræða hans er í sérstöku skjali.

Veittir voru bæði ferða-og menntunarstyrkir og verkefnastyrkir, en ekki hafa jafn margar umsóknir borist síðan árið 2018.
Alls bárust 156 umsóknir um verkefnastyrk og hlutu 39 umsækjendur styrk frá 200.000 kr og upp í 400.000 kr.
Alls bárust 73 umsóknir um ferða-og menntunarstyrk og hlutu 21 umsækjendur styrk frá 100.000 kr og upp í 150.000 kr.

Styrkirnir eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Styrkir eru m.a. veittir vegna sýninga, bæði hérlendis og erlendis, vegna myndlýsinga bóka, gerð og uppsetningar listaverka og innsetninga, þátttöku í lista-og menningarhátíðum, útgáfu tímarits, námskeiða erlendis, þátttöku í ráðstefnum og ýmissa annarra verkefna.

Heildarlisti yfir styrkþega og verkefni má finna hér.

Nýlegar fréttir