Fjölís er hagsmunafélag sjö höfundaréttarsamtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun, skönnun, rafrænni eftirgerð eða annarri hliðstæðri eftirgerð.

Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu, sbr. 1 – 3. gr. höfundalaga. Þröng undantekning er á þessum einkarétti í 1. mgr. 11. gr. þar sem segir að heimilt sé að gera eintak/afrita verk, en sú heimild nær eingöngu til einkanota sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi. Heimildin nær því ekki til eintakagerðar eða afritunar höfundaréttarvarins efnis sem nota á í atvinnuskyni. Hins vegar er unnt að gera heildarsamning með samningskvöð við viðurkennd samtök höfundaréttarfélaga eins og Fjölís, í þeim tilvikum þegar afritað er höfundaréttarvarið efni til notkunar í skólum, stofnunum, á vinnustöðum o.þ.h.

Fjölís hefur gert slíkan heildarsamning byggðan á samningskvöð og annast hagsmunagæslu fyrir meirihluta íslenskra höfunda og útgefenda skv. 26. gr. höfundalaga. Fjölís hefur einnig gert samninga við 30 erlend systursamtök í 28 þjóðríkjum um hagsmunagæslu vegna eftirgerðar erlendra verka. Fjölís gerir því leyfissamninga við innlenda notendur um slíka eftirgerð og úthlutar rétthöfum verkanna tekjunum. Fjölís hefur hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að fara með sameiginlegar heimildir til innheimtu tekna vegna slíkrar hagnýtingar og nær hún bæði til innlendra og erlendra rétthafa.

Heildarsamningurinn veitir leyfishafa lögmæta heimild til afritunar og dreifingar nánast alls höfundaréttarvarins efnis í starfsemi hans. Með því er veitt lögmætt aðgengi að afritun ýmis konar ítarefnis, viðbóta, efnis sem erfitt er að útvega, lítilla hluta af stærri verkum o.s.frv. Leyfið er þó háð takmörkunum og það er ekki hugsað til að koma í stað námsefniskaupa. Skólar á öllum skólastigum, stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga, Þjóðkirkjan og kórar eru meðal þeirra sem nýtt hafa sér hagræði heildarleyfa og greiða fyrir það sanngjarnt endurgjald.

Heimildina má finna í 15. gr. a höfundalaga nr. 73/1972samþykktum fyrir Fjölís nr. 494/1985 auk reglna nr. 420/2012. Stjórn félagsins skipa fulltrúar allra aðildarsamtaka. Fjólís úthlutar tekjum til aðildarsamtaka, sem úthluta tekjum áfram. Myndstef úthlutar höfundaréttartekjum frá Fjölís í formi styrkja ár hvert.

Heimasíða Fjölís má finna hér, en textinn hér að ofan er að miklu leiti til fenginn af heimasíðu Fjölís.