- Fréttir

Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður safnsins, og Ragnar Th. Sigurðsson, stjórnarformaður Myndstefs, undirrita

Í gær, 27. september, undirrituðu Myndstef og Hljóðbókasafn Íslands undir samninga, annars vegar vegna eintakagerðar og til að gera aðgengilegan myndrænan safnkost safnsins í samræmi við 12. gr. b. höfundalaga, þá einkum bókakápa á opnu vefsvæði safnsins, og hins vegar vegna útlána innan þjónustuveitu safnsins, og þá einkum vegna þeirra myndverka sem þar birtast, í samræmi við 19. gr. höfundalaga.

Um er að ræða tímamótasamninga þar sem Myndstef gerir samning í fyrsta sinn vegna réttinda til útlána (enska: public lending rights). Í nágrannalöndum okkar hafa slíkir samningar verið gerðir í einhver ár, og nú loksins á Íslandi. Að auki er um að ræða ellefta samninginn sem Myndstef gerir vegna 12. gr. b. höfundalaga.

Fjármunir sem innheimtast vegna þessa og annar álíka samninga eru ekki bundnir ákveðnum höfundum og greiddir til viðkomandi aðila, heldur er um að ræða heildargreiðslu árlega sem rennur í sjóð Myndstefs. Úr þessum sjóði eru svo greiddir styrkir til starfandi myndhöfunda á hverju ári. Hér er hægt að lesa meira um samninga sem þessa og hér er hægt að lesa meira um styrki Myndstefs.

Myndstef þakkar safninu fyrir samstarfið á meðan gerð samninganna stóð og efast ekki um áframhaldandi farsælt samstarf.

Marín og Ragnar ásamt starfsmönnum Myndstefs

Nýlegar fréttir