IHM, eða Innheimtumiðstöð rétthafa, hefur þann tilgangi að móttaka og úthluta bótum úr ríkissjóði, til að bæta rétthafa (höfundum) það tjón sem verður af eintakagerð af verkum höfunda til einkanota, eins og nánar er lýst í 11. gr. höfundalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, er einstaklingum heimilt að gera til einkanota afrit af verkum og efni sem nýtur höfundaréttarverndar, að því tilskildu að eintakagerðin fari ekki fram í fjárhagslegum tilgangi. Heimildin til eintakagerðar til einkanota hefur verið skýrð svo að hún feli í sér heimild til eintakagerðar í eigin þágu og fyrir aðra einstaklinga sem eftirgerðarmaðurinn er í persónulegu sambandi við, þ.e. fyrir fjölskyldu, vini, kunningja og jafnvel nána starfsfélaga. Líta verður þó til þess að því veikari sem hin persónulegu tengsl eru á milli aðila, því meiri líkur eru á því að eintakagerðin teljist vera í fjárhagslegum tilgangi.

Eintakagerð til einkanota gerir notanda kleift að afrita þegar birt (lögmætt) höfundavarið efni,  fremur en að fjárfsta í frumriti hverju sinni. Slík not orsaka tjón fyrir rétthafa og minnkun mögulegra tekna, sem ella hefðu innheimst í gegnum beina sölu eða dreifingu á efninu.

Í ofangreindu ákvæði er fjallað nánar um framkvæmd innheimtu. Þar segir að höfundar verka sem hafa verið birt, gerð aðgengileg eða gefin út eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna framangreindrar eintakagerðar. Bæturnar skulu greiðast árlega til samtaka höfundaréttarfélaga með fjárveitingu samkvæmt fjárheimild í fjárlögum, og skal miða við tollverð af tækjum og búnaði sem einkum eru ætlaður til slíkrar upptöku eða afritsgerðar.

Búnaður notenda við slíka afritsgerð, tæki og miðlar, hafa breyst mikið á síðast liðnum árum.  Hefur þróun orðið slík að sala á búnaði ætluðum til upptöku (svo sem CD, DVD, flakkarar, usb kubbar ofl) sem og tækjum þess efnis hefur dregist saman. Streymi hefur einnig fest sig í sess hérlendis. Í stað eintaka sem notendur eiga af tónlist og kvikmyndum hafa notendur í auknum mæli aðgang að efninu í gegnum áskriftarþjónustu í streymi. Aukið framboð tónlistar og kvikmynda í streymi mun þannig draga úr þörfinni fyrir að „eiga eintak“ til að njóta tónlistar og kvikmynda.

Eintakagerð stafrænna verka til einkanota fer nú í meira mæli fram í vélbúnaðinum sjálfum, þ.e. í tölvum og hvers konar tækjum sem hafa að geyma harða diska eða minniskort, svo sem flökkurum, símum, úrum og myndavélum.

Ákvæði höfundalaga um eintakagerð til einkanota var breytt með lögum 109/2016, sjá hér: https://www.althingi.is/altext/stjt/2016.109.html og var þar mætt kröfum rétthafa um bætur fyrir eintakagerð af vernduðum verkum til einkanota, þrátt fyrir breytt landslag eftigerðar. Styðst krafa rétthafa við heimild í b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB  um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Eintakagerð myndverka hefur aukist samhliða þessari þróun, þar sem auðveldara að er nálgast myndverk, sem og hvers konar sjónlist á stafrænu formi. Notkun myndmáls í lífi og starfi, og þörfin til þess að „eiga stafrænt eintak“ af myndverkum, annað hvort beint inn á vélabúnaði eða innan smáforrita eða samskiptasíðna, hefur aukist. Streymi myndverka hefur enn ekki fest sig í sessi í miðlun og nýtingu sjónlistar. Afrit af myndverkum eru að mestu gerð í gegnum ýmis konar forrit, smáforrit eða samskiptamiðla (facebook, pinterest, snapchat, twitter osfrv). Þeim er dreift innan veggja heimilis, fjölskyldu og vina til fræðslu og til innblásturs, til hugmyndaaukningar, sem og til að efla ímynd og útlit.

Er því um mikilvæg réttindi myndhöfunda að ræða, og innheimtir IHM bætur til myndhöfunda fyrir ofangreind not. Myndstef hefur sæti í stjórn IHM og tekur við úthlutun ofangreindra bóta og úthlutar til rétthafa í formi styrkja ár hvert.

Aðrir aðilar að IHM eru STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), RSÍ (Rithöfundasamband Íslands), Hagþenkir, (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna), (Blaðamannafélag Íslands) SKL (Samtök kvikmyndaleikstjóra) SÍK (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda), FÍL (Félag íslenskra leikara) FK (Félag kvikmyndagerðamanna) og Félag leikstjóra á Íslandi.

Heimasíða IHM má finna hér.

Ágreiningur hefur verið innan IHM, Innheimtumiðstöðvar rétthafa, um skiptingu fjármuna milli aðildarfélaganna tólf frá árinu 2017. Nú er það í formlegri sáttarmeðferð skv samþykktum IHM og er lokaskref þess gerðardómur, sem mun skera úr um ágreininginn árið 2022. Myndstef hefur tekið saman upplýsingar um söguna, sáttarmeðferðina ofl. Þessar upplýsingar má finna hér.