Úthlutun

Myndstef innheimtir höfundaréttargjöld vegna endurbirtinga, sameiginlegrar umsýslu heildarsamninga á grundvelli samningskvaðar og fylgiréttargjöld vegna endursölu verka og uppboða.

Við endurbirtingar á verkum er miðað við gjaldskrá Myndstefs. Við samningskvaðir er miðað við umsamda þóknun. Við endursölu reiknast hlutfall höfundarétthafa út frá 25. gr. b. höfundalaga 1972 nr. 73

 

Úthlutun Myndstefs er einkum þrenns konar:

  1. Einstaklingsbundin úthlutun
  2. Rétthafasjóður Myndstefs
  3. Erfingjar

 

  1. Einstaklingsbundin úthlutun

Höfundaréttargjöld vegna endurbirtinga og vegna endursölu verka og uppboða (fylgiréttur), er úthlutað einstaklinssbundið. Öðrum höfundaréttargjöldum sem eðli máls samkvæmt verður ekki úthlutað einstaklingsbundið, þ.e.a.s, þau gjöld sem innheimt eru vegna sameiginlegrar umsýslu heildarsamninga á grundvelli samningskvaða, skal úthlutað í gegnum rétthafasjóð Myndstefs.

Gjöldin sem Myndstef innheimtir eru greidd út til höfunda og höfundarétthafa einstaklingsbundið tvisvar á ári (í lok júní og lok des). Við endurbirtingar á verkum er miðað við gjaldskrá Myndstefs. Við endursölu reiknast hlutfall höfundarétthafa út frá 25. gr. b. höfundalaga 1972 nr. 73. Myndstef heldur eftir 20% af greiðslum vegna umsýslu og innheimtu höfundaréttar og 25% vegna umsýslu fylgiréttar. Rétthafi þarf að hafa safnað 10.000 kr eða meira til þess að greitt sé út.

Höfundaréttartekjur eru skattlagðar. Þann 2. september 2019 samþykkti Alþingi breytingar á lögum og hafði þær í för með sér að höfundaréttartekjur hættu að vera skattlagðar sem tekjuskattur en urðu skattlagðar sem fjármagnstekjuskattur (22%). Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2020 og kom til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2020 og við álagningu á árinu 2021. Með þessum lögum var einnig innleidd skylda á höfundaréttarsamtök eins og Myndstef að halda eftir skatti af höfundaréttartekjum og greiða í ríkissjóð. Myndstef hefur gert það frá upphafi árs 2020. Nánar um fjármagnstekjuskatt af höfundaréttargreiðslum má finna hér:

Athugið að styrkir eru skattlagðir með öðrum hætti, og er ekki dreginn fjármagnstekjuskattur af slíkum úthlutunum.

Svo hægt sé að koma höfundaréttargreiðslum til skila þarf Myndstef m.a. að hafa upplýsingar um kennitölu, heimilisfang og bankareikning rétthafa. Vinsamlegast sendið slíkar upplýsingar á myndstef@myndstef.is

 

  1. Rétthafasjóður Myndstefs

Úthlutun á grundvelli sameiginlegrar umsýslu fer fram í gegnum rétthafasjóð Myndstefs, í samræmi við 1. mgr. 26. gr. b. höfundalaga, þar sem þeim greiðslum er eðli málsins samkvæmt ekki unnt að úthluta einstaklingsbundið. Við innheimtu höfundaréttargjalda vegna samningskvaða er miðað við umsamda þóknun.

Utanfélagsmenn geta þó gert kröfu til þess að fá einstaklingsbundna þóknun fyrir not á grundvelli samningskvaðaleyfisins. Kröfu um slíka þóknun verður einungis beint að samtökunum og skal hún vera skrifleg, í samræmi við 2. mgr. 26. gr. b. höfundalaga.

Myndstef úthlutar bæði verkefnastyrki og ferða-og menntunarstyrki úr réttahafasjóði Myndstefs einu sinni á ári. Rétthafar sækja um úthlutun í formi umsóknareyðublaðs. Opnað er fyrir umsóknir í júní ár hvert, umsóknafrestur er a.m.k. tveir mánuðir og úthlutun að jafnaði veitt í október (nákvæmar tímasetningar geta verið breytilegar eftir árum). Opnun umsókna er auglýst á heimasíðu og Facebook síðu samtakanna, og fá skráðir félagsmenn einnig sendan tölvupóst.

Allir sjónhöfundar geta sótt um úthlutun, jafnt félagsmenn sem utanfélagsmenn. Sérstök úthlutunarnefnd sér um afgreiðslu og ákvörðun úthlutunar. Úthlutunarnefnd er tilnefnd af aðildarfélögum Myndstefs og skulu aðilar vera tilnefndir skv. eftirfarandi; einn af sviði myndlistar, einn af sviði ljósmyndunnar og einn af sviði hönnunar og arkitektúrs. Sömu fulltrúar skulu ekki sitja lengur í úthlutunarnefnd en tvö ár í senn.

Úthlutunarreglur, umsóknareyðublöð, skilagreinar o.fl. má nálgast hér á síðunni. Allar nánari upplýsingar veita starfsfólk Myndstefs á opnunartíma skrifstofunnar, en einnig er hægt að senda tölvupóst á myndstef (hjá) myndstef.is.

 

  1. Erfingjar

Höfundaréttur erfist og gildir í 70 ár eftir andlát höfundar. Til þess að geta greitt út til erfingja þarf Myndstef að fá staðfestan umboðsmann allra erfingja, sem er málsvari allra erfingja í höfundaréttarmálum og móttekur greiðslur frá Myndstef. Fjármagnstekjuskattur er einnig frádreginn af greiðslum til erfingja.

Frekari upplýsingar og eyðublöð er hægt að fá á skrifstofu samtakanna. Hægt er að fá eyðublöð send rafrænt með tölvupósti.