Þann 1. janúar 2020 tóku í gildi breytt lög um tekjuskatt og lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum). Með þeim breyttist skattlagning höfundaréttartekna (vegna seinni afnota verka) og eru þær ekki lengur tekjuskattskyldar (31,45% – 46,25% á árinu 2022) heldur eru þær nú fjármagnstekjuskattskyldar (22%).

Lögin í heild sinni má finna hér og reglugerð má finna hér.

Greiðslur frá Myndstef til höfunda/rétthafa

Með breytingunum er nú skylda á höfundaréttarsamtök eins og Myndstef að halda eftir fjármagnstekjuskatti við útborgun höfundarétta-og fylgiréttagjalda til höfunda/rétthafa og er slíkt gert við allar úthlutanir Myndstefs ársfjórðungslega. Skatturinn er greiddur til ríkissjóðs og eiga því höfundar og rétthafar ekki að þurfa að greiða tekjuskatt af þessum tekjum við álagningu næsta árs.
Undantekning frá þessari reglu eru greiðslur til samtaka/fyrirtækja, ekki verður tekinn skattur af þeim greiðslum hjá Myndstefi og viðkomandi aðilar sjá sjálfir um að greiða skattinn.

Skattakynning – okt 2021

Þann 21. okt 2021 stóð Myndstef fyrir kynningu á þessum lögum og reglum, þar sem ýmsum spurningum var svarað. Tilgangur kynningarinnar var að kynna lögin fyrir félagsmönnum, meðal annars til þess að auðvelda höfundum framkvæmd við útgáfu reikninga, útreiknings skattstofns og skil á skatti og staðgreiðslu. Kynningin var almenns eðlis þar sem fjallað var um tildrög breytinganna og almenn framkvæmd í ljósi skattlagningar höfundaréttartekna.

Guðbjörg Þorsteinsdóttir, skattalögfræðingur og meðeigandi hjá Deloitte, kynnti lögin og fjallaði um skilyrði skattlagningarinnar og framkvæmdina. Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, lögfræðingur Myndstefs og Aðalheiður Dögg Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs, stilltu upp nokkrum raunhæfum dæmum og álitamálum í samræmi við lögin ásamt því að svara spurningum úr sal.

Kynningin í heild sinni var tekin upp og skipt upp í tvö myndbönd. Í öðru myndbandinu má finna kynningu Guðbjargar Þorsteinsdóttur og í hinu myndbandinu eru raunhæf dæmi og álitamál dregin fram ásamt umræðu og svörum við spurningum úr sal.

 

Skattakynning – Guðbjörg Þorsteinsdóttir fjallar um skilyrði skattlagningarinnar og framkvæmdina.

 

Skattakynning – Guðbjörg, Aðalheiður og Harpa Fönn stilla upp raunhæfum dæmum og álitamálum og svara spurningum úr sal.