Samkvæmt lögum um verslunaratvinnu nr. 28/1998, með síðari breytingum, höfundalögum nr. 73/1972, einnig með síðari breytingum, og reglugerð 486/2001, getur höfundur átt svokallaðan fylgirétt, en söluaðilum listaverka og listmuna ber að innheimta fylgiréttargjald í tvenns konar tilvikum: 

  • við endursölu listaverka í atvinnuskyni. 
  • við sölu listaverka á uppboðum, hvort sem um ræðir fyrstu sölu eða endursölu. 

Við slíka endursölu eða við framkvæmd uppboðs ber uppboðshaldara/endursöluaðila að reikna fylgiréttargjald ofan á kaupverð og innheimta, sem rennur svo til höfundar eða erfingja höfundar listaverksins. Fylgiréttargjald er allt að 10% af andvirði hins selda verks. Réttur höfundar helst meðan höfundaréttur hans er í gildi og er óframseljanlegur (sem þýður að ekki er mögulegt að falla frá gjaldi eða selja eða gefa réttinn frá sér). Myndstef annast innheimtu þessara gjalda og sér um að koma þeim í hendur viðeigandi höfunda og/eða erfingja.

Tildrög fylgiréttar og ástæður 
Tildrög fylgiréttar og ástæður er þær að óeðlilegt þykir að myndlistarmiðlarar séu þeir einu sem hagnast vegna hækkandi verðgildi myndlistarverka á markaði. Við upptöku fylgiréttargjalds á sínum tíma var felldur niður 24,5% söluskattur á myndlistarverkum, en síðar var einnig felldur niður 22% virðisaukaskattur vegna sölu á listmunauppboðum. Hefur verð til kaupandans þannig lækkað til muna þótt til fylgiréttargjaldsins hafi komið. 

Fjárhæð gjaldsins 
Í 3. Mgr. 25.gr.b. höfundalaga er tilgreint um fjárhæð gjaldsins:  

„Gjaldið skal vera í íslenskum krónum og reiknast miðað við sölugengi evru á söludegi þannig:
1. 10% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar að hámarki 3.000 evrum,
2. 5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 3.000,01 evru upp í 50.000 evrur,
3. 3% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 50.000,01 evru upp í 200.000 evrur,
4. 1% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 200.000,01 evru upp í 350.000 evrur,
5. 0,5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 350.000,01 evru upp í 500.000 evrur,
6. 0,25% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar fjárhæð umfram 500.000 evrur.“ 

Verk sem falla undir lögin 
Í 2. gr. reglugerðar 486/2001 eru tilgreind þau verk sem salla undir gjaldskyldu.  

„Listaverk sem falla undir gjaldskyldu skv. 6. mgr. 23. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu eða 25. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. lög nr. 57/1992 og lög nr. 60/2000 eru:

a) Öll málverk, þ.e. frumverk, sem gerð eru með olíulitum,akryllitum, tempera, vatnslitum, gouache og pastellitum svo og myndverk, sem gerð eru með annarri tækni.
b) 
Höggmyndir, ef um er að ræða frummynd eða merkta afsteypu í bronze, gips, terrakotta, leir, stein, marmara, tré, járn eða sérhvert annað efni.
c) 
Merktar og ómerktar teikningar listamanna, þ.e. blýants-, blek-, tusch-, krítar- og kolateikningar svo og annars konar teikningar og hvers konar grafísk listaverk, svo sem lithografíur, koparstungur, ætingar, raderingar, tréþrykk, svo og hvers konar önnur grafíkverk, enda séu verkin merkt af viðkomandi listamanni.
d)
Myndvefnaður, textilverk, gler- og mósaikmyndir svo og leir, keramik, postulíns-, silfur- og gullverk sem teljast til listiðnaðar, enda sé um frumverk að ræða og það merkt af viðkomandi listamann“

Skilagreinar og greiðsla 
Fylgiréttargjaldi og skilagrein skal skila í síðasta lagi 30 dögum eftir að listamunauppboð fór fram, ef um sölu á listmunauppboði er að ræða en tvisvar á ári ef um endursölu í atvinnskyni er að ræða (10. ágúst vegna endursölu 1. jan – 30. júní sama árs og 10. febrúar vegna endursölu 1. júlí – 31. des ársins áður).

Myndstef sendir áminningu um skil ef vanefndir verða. Ef áminningu er ekki sinnt áskilur Myndstef sér rétt til að senda áskorun um skil, með tilheyrandi innheimtukostnaði. 20.000 kr reiknast ofan á hverja innheimtutilraun.

Ef aðili hættir störfum á listaverkamarkaði, skal tilkynna Myndstefi slíkt skriflega. Ef slík tilkynning berst ekki, mun Myndstef í samræmi við ákvæði laga, áætla fylgirétt.

Fylgiréttargjald skal greiðast inn á reikning Myndstefs:
513-26-409891, kt 540891-1419

Skilagreinum skal skila með rafrænum hætti með útfyllingu á rafrænu eyðublaði eða með því að senda útfyllt eyðublað á myndstef@myndstef.is.

Rafrænt eyðublað vegna endursölu má finna hér.
Rafrænt eyðublað vegna uppboðs má finna hér.