Samkvæmt lögum um verslunaratvinnu nr. 28/1998, með síðari breytingum, höfundalögum nr. 73/1972, einnig með síðari breytingum, og reglurgerð 486/2001, getur höfundur átt svokallaðan fylgirétt, en söluaðilum listaverka og listmuna ber að innheimta fylgiréttargjald í tvenns konar tilvikum: 

  • við endursölu listaverka í atvinnuskyni. 
  • við sölu listaverka á uppboðum, hvort sem um ræðir fyrstu sölu eða endursölu. 

Við slíka endursölu eða við framkvæmd uppboðs ber uppboðshaldara/endursöluaðila að reikna fylgiréttargjald ofan á kaupverð og innheimta, sem rennur svo til höfundar eða erfingja höfundar listaverksins. Fylgiréttargjald er allt að 10% af andvirði hins selda verks. Réttur höfundar helst meðan höfundaréttur hans er í gildi og er óframseljanlegur (sem þýður að ekki er mögulegt að falla frá gjaldi eða selja eða gefa réttinn frá sér). Myndstef annast innheimtu þessara gjalda og sér um að koma þeim í hendur viðeigandi höfunda og/eða erfingja.

Tildrög fylgiréttar og ástæður 
Tildrög fylgiréttar og ástæður er þær að óeðlilegt þykir að myndlistarmiðlarar séu þeir einu sem hagnast vegna hækkandi verðgildi myndlistarverka á markaði. Við upptöku fylgiréttargjalds á sínum tíma var felldur niður 24,5% söluskattur á myndlistarverkum, en síðar var einnig felldur niður 22% virðisaukaskattur vegna sölu á listmunauppboðum. Hefur verð til kaupandans þannig lækkað til muna þótt til fylgiréttargjaldsins hafi komið. 

Fjárhæð gjaldsins 
Í 3. Mgr. 25.gr.b. höfundalaga er tilgreint um fjárhæð gjaldsins:  

„Gjaldið skal vera í íslenskum krónum og reiknast miðað við sölugengi evru á söludegi þannig:
1. 10% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar að hámarki 3.000 evrum,
2. 5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 3.000,01 evru upp í 50.000 evrur,
3. 3% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 50.000,01 evru upp í 200.000 evrur,
4. 1% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 200.000,01 evru upp í 350.000 evrur,
5. 0,5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 350.000,01 evru upp í 500.000 evrur,
6. 0,25% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar fjárhæð umfram 500.000 evrur.“ 

Verk sem falla undir lögin 
Í 2. gr. reglugerðar 486/2001 eru tilgreind þau verk sem salla undir gjaldskyldu.  

„Listaverk sem falla undir gjaldskyldu skv. 6. mgr. 23. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu eða 25. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. lög nr. 57/1992 og lög nr. 60/2000 eru:

a) Öll málverk, þ.e. frumverk, sem gerð eru með olíulitum,akryllitum, tempera, vatnslitum, gouache og pastellitum svo og myndverk, sem gerð eru með annarri tækni.
b) 
Höggmyndir, ef um er að ræða frummynd eða merkta afsteypu í bronze, gips, terrakotta, leir, stein, marmara, tré, járn eða sérhvert annað efni.
c) 
Merktar og ómerktar teikningar listamanna, þ.e. blýants-, blek-, tusch-, krítar- og kolateikningar svo og annars konar teikningar og hvers konar grafísk listaverk, svo sem lithografíur, koparstungur, ætingar, raderingar, tréþrykk, svo og hvers konar önnur grafíkverk, enda séu verkin merkt af viðkomandi listamanni.
d)
Myndvefnaður, textilverk, gler- og mósaikmyndir svo og leir, keramik, postulíns-, silfur- og gullverk sem teljast til listiðnaðar, enda sé um frumverk að ræða og það merkt af viðkomandi listamann“

Skilagreinar og greiðsla 
Fylgiréttargjaldi og skilagrein skal skila í síðasta lagi 30 dögum eftir að listamunauppboð fór fram, ef um sölu á listmunauppboði er að ræða en tvisvar á ári ef um endursölu í atvinnskyni er að ræða (10. ágúst vegna endursölu 1. jan – 30. júní sama árs og 10. febrúar vegna endursölu 1. júlí – 31. des ársins áður).

Fylgiréttargjald skal greiðast inn á reikning Myndstefs:
513-26-409891, kt 540891-1419

Skilagreinum skal skila með tölvupósti á myndstef@myndstef.is eða með bréfpósti að Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík.

Skilagreinar má nálgast hér:
Skilagrein uppboðs
Skilagrein tb. 1 (1. jan – 30. júní)
Skilagrein tb. 2 (1. júlí – 31. des)

Hér að neðan má finna frekari upplýsingar fyrir endursöluaðila og uppboðshaldara;

Endursala listaverka í atvinnuskyni

Endursala listaverka í atvinnuskyni er svokölluð önnur sala (e.second sale), eða þegar listaverk er selt með atbeina 3. aðila, í atvinnuskyni eða opinberlega. Hér fellur því ekki undir einkasala eða sala beint frá listamanni – svokölluð fyrsta sala.  

Samkvæmt lögum ber endusöluaðilum listaverka að senda uppgjör ásamt skilagrein til Myndstefs tvisvar á ári, 1. janúar og 1. júlí ár, miðað við endursölu s.l. 6 mánaða. Myndstef hefur þó veitt undanþágu til hagræðingar fyrir endursöluaðila og ákveðið að gefa fresti þannig að skiladagur sé í síðasta lagi 10. febrúar vegna tímabils I – 1. janúar til 30. júní – og seinni skiladagur árs sé í síðasta lagi  10. ágúst  vegna tímabils II – 1. júlí til 31. desember. Myndstef hefur einnig veitt aðra undanþágu til enn frekari hagræðingar þess efnis að ekki þurfi staðfestingu löggilds endurskoðanda á fyrrnefndar skilagreinar, heldur skuli skila heildarskilagrein/staðfestingu undirritaðri af löggildum endurskoðanda, sem staðfestir réttmæti skilagreina undanfarins skattárs fyrir 10. september ár hvert. 

Vakin er sérstök athygli á að berist ekki uppgjör og upplýsingar um endursölu listaverka skv. 7. mgr. 25. gr.b. höfundalaga til samtakanna innan 30 daga frá því að sérstakri áskorun þar um er beint til söluaðila geta samtökin áætlað innheimt fylgiréttargjöld hjá viðkomandi aðila vegna endursölu á listaverkum og er slík áætlun aðfarahæf. Að auki skal vakin á því athygli að sá sem vanrækir sendingu skilagreina um sölu listmuna og greiðslum skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári sbr. 24. gr. laga um verslunaratvinnu, sektum og fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 2. tl. 2. mgr. 54. gr.  höfundalaga, eða sæta refsingu samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ef skilyrði refsiheimilda er fullnægt.  

 

 

Sala listaverka á uppboðum

Sérstök athygli er vakin á því að við sölu á listaverkum á uppboðum gilda sérstakar reglur um skilagreinar sem koma fram í niðurlagi 23. gr. laga um verslunaratvinnu nr. 28/1998 og jafnframt að uppboðsstjórum ber að innheimta gjöld af öllum seldum listaverkum hvort sem um er að ræða fyrstu sölu eða endursölu. Þessar reglur ná til venjulegra uppboða en einnig til sölu listmuna á uppboðum eða álíka söluplatformum eða vettvöngum á internetinu og einnig uppboða sem haldin eru í góðgerðarskyni eða til þess að styðja eitthvert málefni.  

Uppboðshaldarar listmunauppboða eru þeir sem að lögum hafa skráðan verslunarrekstur, skv. lögum um verslunaratvinnu. Einnig er hægt að sækja sérstaklega til sýslumanns um leyfi til svokallaðs lokaðs uppboðs, ef  skilyrðum 5. mgr. 23. gr laganna er uppfyllt. Ef óskað er eftir leyfi frá sýslumanni skal leita til embætti sýslumanns í því umdæmi sem uppboð fer fram. Ef uppboð fer fram á Höfuðborgarsvæðinu má senda fyrirspurn á leyfi@syslumenn.is. Í þeim tilvikum skal Myndstef tilkynnt um veitingu leyfisins. 

Í báðum þessara tilvika skulu uppboðshaldarar inna af hendi greiðslu fylgiréttargjalds til Myndstefs og eru þeir ábyrgir fyrir greiðslu fylgiréttargjaldsins. Jafnframt skulu þeir skila Myndstefi skilagrein um sölu listaverka ásamt nafni og auðkennum verks, með öðrum upplýsingum úr uppboðsskrá svo og um höfund verksins og söluverð þess.  Fylgiréttargjaldi og skilagrein vegna listmunauppboðs skal skila í síðasta lagi 30 dögum eftir að listmunauppboð fór fram, sbr. ákvæði reglugerðar um fylgiréttargjald nr. 244/1993. 

Vakin er athygli á því að vanefndarúrræði geta verið þrenns konar: 

  1. Annars vegar fer eftir ákvæðum höfundalaga og reglugerðar um fylgirétt. Í þeim tilvikum má hefja einkamál til viðurkenningar kröfu fyrir dómi og einnig til skaðabóta, eftir því sem við á, en um málsmeðferð gilda að öðru leiti reglur í lögum um meðferð einkamála.  
  2. Vakin skal sérstök athygli á að einnig er hægt að höfða refsimál, sbr. 24. gr. laga um verslunaratvinnu, er kveður á um sektir eða fangelsi, allt að einu ári. Heimilt er í sama refsimáli að krefjast þess að verslun verði afmáð úr einhverri framangreindra skráa, þ.e. skrá í samræmi við löggjöf um skráningu firma, hlutafélaga , og einkahlutafélaga og samvinnufélaga og sjálfseignarstofnanna, eftir því sem við á, hafi verslun framið ítrekað eða alvarlegt brot gegn ákvæðum laga er um starfsemina gilda. 
  3. Einnig kemur til álita að endursöluaðili verði dæmdur til að sæta refsingu samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ef skilyrðum þeirra refsiheimilda er fullnægt.