Myndstef á í margvíslegu samstarfi við menningarstofnanir og félög á Íslandi og tilnefnir fulltrúa í ýmsar nefndir og ráð. Hér má finna yfirlit og upplýsingar um helstu ráð, nefndir og stjórnir sem Myndstef á sæti í. Þess utan situr Myndstef ýmsa samráðsfundi, veitir umsagnir um breytingar á lögum og margt fleira er varðar höfundarétt.

Úthlutunarnefnd greiðslna fyrir afnot á bókasöfnum (Bókasafnssjóður)

Af árlegu framlagi úr ríkissjóði er úthlutað samkvæmt lögum 91/2007 til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa sem eiga bækur á Landsbókasafni-Háskólabókasafni, almenningsbókasöfnum, skólabókasöfnum, og bókasöfnum stofnana sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum. Lög um bókmenntasjóð og fleira tóku gildi 17.3.2007 og þá féllu úr gildi lögin um Bókasafnssjóð höfunda frá 1. janúar 1998.

Myndstef á eitt sæti í úthlutunarnefnd.

Rithöfundasamband Íslands sér um greiðslurnar, frekari upplýsingar er að finna hér.

Fjölís

Fjölís er hagsmunafélag sjö höfundaréttarsamtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun, skönnun, rafrænni eftirgerð eða annarri hliðstæðri eftirgerð. Fjölís hefur hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að fara með kollektífar heimildir til innheimtu tekna vegna slíkrar hagnýtingar og nær hún bæði til innlendra og erlendra rétthafa.

Myndstef á eitt sæti í stjórn og eitt sæti í fulltrúaráði.

Frekari upplýsingar um Fjölís er að finna hér.

Höfundaréttarnefnd

Til menntamálaráðuneytis skal vera nefnd 7 sérfróðra manna á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Höfundaréttarnefnd fjallar um málefni sem varða höfundarétt, þar á meðal tekur nefndin fyrir erindi sem ráðherra vísar til nefndarinnar og veitir álit um slík erindi.

Myndstef á eitt sæti í nefndinni.

Frekari upplýsingar um höfundaréttarnefndina er að finna hér.

Höfundaréttarráð

Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um þau höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið. Árið 1992 var kveðið á um að stofnað skyldi höfundaréttarráð í tengslum við 58. gr. laga nr. 73/1972, og 6. gr. reglugerðar um starfsreglur höfundaréttarnefndar og höfundaréttarráðs, nr. 500/2008. Í áliti Menntamálanefndar á Alþingi í ársbyrjun 2006  kemur fram að virkja skuli þetta ákvæði og stofna höfundaréttarráð.

Myndstef á eitt sæti í ráðinu.

Frekari upplýsingar um höfundaréttarráð er að finna hér.

IHM - Innheimtumiðstöð rétthafa

Aðaltilgangur IHM er að móttaka og úthluta bótum úr ríkissjóði vegna bóta til rétthafa vegna eintakagerðar til einkanota eins og nánar er tilgreint í reglugerð nr. 125/2001 og lögum nr. 60/2000.
Einnig innheimtir IHM höfundarréttarbætur fyrir sjónvarpsútsendingar, en innan samtakanna kallast sú innheimta „kapalgeiri“.

Myndstef á eitt sæti í stjórn og eitt sæti í fulltrúaráði.

Frekari upplýsingar um IHM er að finna hér.

KÍM – Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar

Hlutverk KÍM er að kynna og styðja við íslenska myndlistarmenn erlendis. Miðstöðin aðstoðar listamenn að fjármagna verkefni sín, kynnast öðrum listamönnum og koma á sambandi/samstarfi milli ríkis-og einkaaðila, samtataka og fyrirtækja. KÍM hefur umsjón með íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum.

Myndstef á eitt sæti í fulltrúaráði.

Frekari upplýsingar um KÍM er að finna hér.

Muggur - styrktarsjóður

Dvalarsjóður fyrir myndlistarmenn

Muggur er samstarfsverkefni SÍM, Myndstefs og Reykjavíkurborgar. Hlutverk sjóðsins er að styrkja myndlistarmenn til tímabundinnar dvalar erlendis vegna sýningar, vinnustofu eða annars sambærilegs myndlistarverkefnis. 

MUGGUR veitir styrki í vikum talið, kr. 50.000.- fyrir vikudvöl erlendis.

Einstaka sinnum eru veittir styrkir í fleiri vikur, en þó aldrei fleiri en 3 vikur í senn, eða að hámarki kr. 150.000.-

Veittir eru styrkir til dvalar erlendis vegna:

  • Myndlistarsýningar

  • Vinnustofudvalar / þátttöku í verkstæði

  • Annara myndlistarverkefna 

Nánari upplýsingar má finna hér.

Bakland Listaháskóla Íslands

Myndstef á sæti í baklandi Listaháskóla Íslands, en listaháskólinn er eina háskólastofnun landsins sem helgar sig listum og hönnun. Myndstef heldur á hverju ári kynningar fyrir nemendur listaháskólans um höfundarétt og fjölmargir nemendur Listaháskólans leita til Myndstefs um ráðgjöf um höfundarétt.

Frekari upplýsingar um Bakland LHÍ er að finna hér.

Samtök skapandi greina

Samtök skapandi greina vinna að því að efla skapandi greinar sem meginstoð í menningu, samfélagi, atvinnulífi, nýsköpun og þróun sjálfbærs samfélags á Íslandi til framtíðar.

Myndstef er aðili að samtökunum.

Frekari upplýsingar um samtökin er að finna hér.