Samkvæmt höfundalögum nr. 72/1973 ber söfnum og öðrum notendum myndverka að greiða fyrir birtingu á safnkosti sínum á veraldarvefnum. Samkvæmt sömu lögum ber söfnum einnig að fá heimild höfunda og greiða fyrir aðra notkun myndverka við starfsemi sína, svo sem birtingu myndverka í bókverkum, á póstkortum, veggspjöldum eða öðrum varningi. Undanþágu má finna í 25. gr. höfundalaga, er tekur á birtingu myndverka á sýningum listasafna er almenningur hefur aðgang að, í sýningarskrá, og í áþreifanlegri safnmunaskrá aðgengileg innan veggja safnsins.

Íslenskum höfundalögum var breytt í júní 2016, sem heimilaði höfundaréttarsamtökum að gera svokallaða heildarsamninga byggða á samningskvöð við söfn, skv. 12. gr.b., sbr nánari skilyrði um samningskvaðaleyfi sem tilgreind eru í 26. gr. a.

Á árinu 2018 starfaði vinnuhópur að gerð samnings milli Myndstefs og safna um birtingu á safnkosti þeirra á Sarpi. Aðilar í vinnuhópnum voru formaður Myndstefs og aðilar úr Safnaráði og safnstjórar.

Þann 20. desember 2018 voru fyrstu slíkir safnasamningar undirritaðir við Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands, eru þeir heildarsamning byggðan á samningskvöð við Myndstef, með heimild í 12. gr. b. höfundalaga. Samningurinn ber heitið „Samningur um eintakagerð og stafræna birtingu á afritum af safnkosti úr rafrænum safnmunaskrám“.

Um er að ræða tímamótasamning, en tilgangur samningsins er að koma á skýrum, einföldum og samræmdum skilmálum og verðskrá fyrir eintakagerð og birtingu safnsins á safnkosti sínum eftir íslenska höfunda. Í samræmi við tilgang samningsins getur almenningur nýtt sér birtingu til einkanota í samræmi við höfundalög, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Sú takmörkun á sér stoð í 11. gr. höfundalaga, og eru not almennings til einkanota bætt á grundvelli ákvæðisins.

Einnig er samningnum ætlað að veita aðgengi að menningararfi þjóðarinnar til kynningar, menntunar og fræðslu til skóla og almennings. Um er að ræða undanþágu á meginreglu höfundaréttar og hana skal skýra þröngt, en um er að ræða stafræn endurnot og sýningarrétt til kennslu, fræðslu og fyrirlestra, en ekki not í útgáfur, kynningar- eða markaðsefni sem og aðra prentun. Ef menntastofnun vill nota birt verk í útgefið kennsluefni eða sambærilegar útgáfur eða eintakagerð, skal hafa samband við Myndstef eða höfund.

Söfnin greiða þóknun fyrir þessi not og er hún greidd til Myndstefs á ársgrundvelli, eða 31. janúar ár hvert, og er þóknun breytileg eftir stærð safnskost, allt frá 75.000 – 1.000.000 á ári. Fjármunir sem berast til Myndstefs vegna slíkra samninga renna í sjóð sem veitir styrki til starfandi myndhöfunda einu sinni á ári.

Myndstef býður nú öllum söfnum landsins er starfa samkvæmt safnalögum nr. 141/2011, að undirrita slíkan samning við Myndstef, þ.e. þau  söfn sem eru í eigu hins opinbera eða hafi viðurkenningu safnaráðs skv. safnalögum. Hægt er að lesa frekar um slíkan samning hér og má nálgast drög slíks samnings hér. Til þess að óska eftir heildarsamningi er hægt að hafa samband við skrifstofu Myndstefs.

Þau söfn sem þegar hafa samning við Myndstef eru eftirfarandi:

Gerðarsafn
Gljúfrasteinn
Hafnarborg

Héraðsskjalasafn Akraness

Hljóðbókasafn Íslands
Hönnunarsafn Íslands
Listasafn ASÍ
Listasafn Árnesinga
Listasafn Borgarness

Listasafn Háskóla Íslands

Listasafn Reykjanesbæjar
Listasafn Íslands

Listasafn Reykjavíkur
Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Safnasafnið

Síldarminjasafnið
Þjóðminjasafn Íslands

Borgarsögusafn