Allir ljósmyndarar eru myndhöfundar.

Skilyrði og takmarkanir til höfundaréttar

Verk ljósmyndara verður að uppfylla skilyrði um frumleika, sérkenni og sjálfstæði til að teljast verndað höfundaverk skv. lögunum. Fumleikastigið er matskennt, og í vafatilvikum telst verk frekar ná undir lögin en ella.

Ef ljósmyndaverk telst ekki uppfylla skilyrði laganna, getur verkið þó hlotið svokallaða ljósmyndavernd í lögunum, sbr. 49. gr. höfundalaga, en slík vernd helst í 50 ár eftir að ljósmynd er tekin, og bannar eftirgerð þeirra eða notkun nema með heimild ljósmyndara.

Sérstakar takmarkanir gilda um höfundarétt á ljósmyndun*, sjá II. kafla höfundalaga (10.gr.a til og með 26.gr.c)

Myndstef veitir leyfi til flestra endurnota ljósmynda og innheimtir höfundaréttarþóknun vegna þessa. Hér má finna gjaldskrá sem tekur á slíkum notum. Gjaldskráin getur nýst sem viðmiðunargjaldskrá.

Aðlögun og innblástur

Á mörkum milli aðlagana og innblásturs getur reynt hvað varðar ljósmyndun.* Þegar nýtt verk er til dæmis málað eða teiknað eftir ljósmynd, er um aðlögun að ræða og þarf þá leyfi frumhöfundar, og eftir atvikum greiða þóknun fyrir aðlögunina.

Persónuréttur

Stundum þarf að huga sérstaklega að persónurétti við ljósmyndun á fólki, og jafnframt þarf að huga að þeim rétti þegar nota á ljósmynd með fólki.

Myndabankar

Fjölmargir myndabankar eru til á internetinu. Myndhöfundur ætti að huga sérstaklega að því hver ber ábyrgð ef höfundaréttur er véfengdur af verkum myndabankans. Huga þarf jafnframt að skilmálum um að birtingaraðili, sem sagt myndabanki, ábyrgist að hann fari með réttar heimildir og sé heimil sala myndverkanna. Eins þarf að huga sérstaklega að greiðsluleiðum og skilum. Að auki þarf að huga að því hvað gerist ef réttindi færast til eða ef myndabanka er lokað (verður gjaldþrota). Að lokum þarf að merkja verk sín vel á myndabankanum og hvers lagt not séu heimil og hvaða greiðsla skuli koma fyrir hver not.

Ljósmyndasamkeppnir og viðburðaljósmyndun

Við þátttöku í ljósmyndasamkeppni ætti myndhöfundur skoða skilmála og þátttökusamning sérstaklega vel. Venjulega eru vinningar í boði fyrir þá tillögu/ljósmynd sem er valin, gegn notkun á vinningsverkinu. Þá verður að athuga vel hver þau not séu, og einnig að einungis vinningstillagan sé notuð, ekki aðrar innsendar tillögur.

Svipaðar varúðarráðstafanir gilda varðandi ljósmyndun á viðburðum, en myndhöfundur ætti að kanna sérstaklega hvers lags not viðburðarhaldari fær framseld við kaupin, og tryggja nafngreiningarréttinn (sem er hluti af sæmdarétti höfundar).*

 

* Nánar má finna frekar upplýsingar um þessi atriði hér undir Fræðsla – hugtök og skilgreiningar.