Hér má finna ýmis hugtök og atriði er varðar höfundarétt ásamt skilgreiningum þeirra. Við lestur þeirra er gott að hafa eftirfarandi í huga:

Myndhöfundur er sá sem skapar myndverk er nýtur höfundaverndar samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972.

Sköpun er sérstök andleg iðja sem fullnægir vissum lágmarksskilyrðum varðandi frumleika, sjálfstæði frá höfundi og sérkenni.

Einungis þau verk sem uppfylla ofangreind skilyrði njóta höfundaverndar, og geta því talist höfundavernduð hugverk.

Verndað hugverk sem teljast til myndverka geta til dæmis verið: myndlistarverk, málverk, gjörningar, tvívíð verk, þrívíð verk, skúlpturar, gjörningar, videó verk, hljóðverk, ljósmyndir, áhugamannaljósmyndir, fatahönnun, vöruhönnun, grafísk hönnun, margmiðlunarhönnun, búningahönnun, leikmunahönnun, skargripahönnun, húsgagnahönnun, arkitektúr, nytjalist, teikningar, uppdrættir, og önnur sjónlist.

Höfundaréttur

Höfundur að bókmenntaverki eða listaverki á eignarrétt á því með þeim takmörkunum, sem í höfundalögum greinir, sbr. 1.-3. gr. laganna.

Einkaréttur höfundar

Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Þetta er svokallaður fjárhagslegur réttur höfundar og er sá réttur framseljanlegur.

Sæmdarréttur höfundar

Geta þarf nafns höfundar og er óheimilt að breyta verki höfundar, þannig að skert geti höfundaheiður hans eða höfundasérkenni. Þetta er svokallaður ófjárhagslegur réttur höfundar og er sá réttur óframseljanlegur. Sæmdarréttur er m.a. ritaður í 4. gr. höfundalaga nr 73/1972.

Sameiginlegur höfundaréttur

Sameiginlegur höfundaréttur verður til þar sem framlag listamannanna verður ekki greint frá hvoru öðru, sbr. 7. Gr. höfundalaga. Þarf þá heimild allra höfunda ef nota á verkið, og eftir atvikum greiða þóknun fyrir þau not.

Skiptur höfundaréttur

Skiptur höfundaréttur verður til þar sem framlag má greina frá hvoru öðru, sbr. 7. gr. höfundalaga. Þarf þá að afla heimildar þess höfundar sem á þann hluta verks sem nota á, og eftir atvikum greiða þóknun fyrir þau not.

Aðlaganir

Aðlaganirverða til þegar sá sem þýðir verk, aðhæfir það tiltekinni notkun, breytir því úr einni grein bókmennta eða lista í aðra eða framkvæmir aðrar aðlaganir á því, hefur höfundarétt að verkinu í hinni breyttu mynd þess. Ekki raska slík not rétti frumhöfundar að frumverkinu, og þarf því við slíka aðlögun að afla heimildar frumhöfundar, og eftir atvikum greiða þóknun, sbr. 5. gr. höfundalaga. Þrátt fyrir ákvæði höfundalaga um aðlaganir getur frumverk verið notað sem fyrirmynd eða með öðrum hætti við gerð annars verks, sem telja má þá nýtt og sjálfstætt. Er þá hið nýja verk óháð höfundarétti að hinu eldra og ekki þarf að afla heimildar frumhöfundar.

Almennnur höfundaréttur

Almennnur höfundaréttur er t.d. creative commons. Verk í almennri höfundavernd eru þá merkt sérstaklega, og fer þá eftir atvikum hvaða not eru heimil, td leyfi til endurnotkunar, leyfi til dreifingar (birtingar), leyfi til að byggja á verkinu (re-mix) eða leyfi til notkuna í ófjárhagslegum tilgangi.

Sjá dæmi hér: https://creativecommons.org/

Framsal á höfundarétti

Fjárhagslegum rétti höfundar, höfundaréttinum, má framselja sé það gert skriflega, sbr. 7. gr. höfundalaga.

Rétthafi

Rétthafi er sá sem hefur höfundarétt undir höndum, annað hvort sem upprunalegur höfundur verksins, framsalshafi (sá er fengið hefur höfundaréttinn framseldan) eða erfingi.

Höfundaréttarþóknun

Meginregla höfundaréttar er sú að afla þarf samþykkis höfundar til að mega nota verk hans opinberlega, og eftir atvikum greiða sanngjarna þóknun fyrir.

Viðmiðunarreglur um upphæð þóknunar er að finna á heimasíðu Myndstefs, en athuga skal að þar er eingöngu um að ræða upphæðir vegna endurbirtinga (ekki frumbirtinga) og ekki vegna einkaleyfis. Öllum höfundum er frjálst að semja um höfundaréttarþóknun sína án aðkomu Myndstefs og án þess að fylgja gjaldskrá samtakanna.

Höfundaréttarþóknun er ekki greiðsla vegna vinnu höfundar, eingöngu vegna leyfis til notkunnar/birtingar á verki höfundar.

Verndartími

Höfundaréttur helst í 70 ár frá andláti höfundar. Eftir andlát höfundar fara erfingjar hans með réttinn.

Höfundaréttarbrot

Ef notandi notar verk höfundar án þess að afla heimildar og/eða greiða þóknun, getur verið um að ræða ólögmæt not og brot á höfundarétti höfundar. Þá ber notanda að greiða þóknun og eftir atvikum skaðabætur. Myndstef er heimilt að leggja allt að 100% álag á gjaldskrá vegna þessa, sjá nánar undir gjaldskrá. Á slíkt einnig við ef brotið er á sæmdarrétti höfundar. Að auki ber notanda að hætta tafarlaust notkun og fjarlægja verkið af öllum dreifingarmiðlum sínum og annarra sem hafa dreift verkinu á ábyrgð notanda.

Takmarkanir á höfundarétti

Takmarkanir á höfundarétti er að finna í II. kafla höfundalaga sem auðveldar notkun listaverka í tilvikum einkanota, tilvikum er þjóna almannahagsmunum, við fréttaflutning, í heimildarskyni, í upplýsingarskyni og til nota innan ákveðins hóps eða stofnunar.

Myndir af byggingum og list í almannarými

Heimilt er að taka og birta myndir af byggingum, svo og listaverkum, sem staðsett hafa verið varanlega utanhúss á almannafæri. Nú er bygging, sem nýtur verndar eftir reglum um byggingarlist, eða slíkt listaverk, sem áður greinir, aðalatriði myndar, sem hagnýtt er til markaðssölu, og á höfundur þá rétt til þóknunar, nema um blaðamyndir eða sjónvarpsmyndir sé að ræða, sbr. 16. gr. höfundalaga.

Tilvitnanir, t.d. greinar og ritgerðir

Skv. 14. gr höfundalaga er heimil tilvitnun í birt bókmenntaverk, þar á meðal leiksviðsverk, svo og birt kvikmyndaverk og tónverk, ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið. Með sömu skilyrðum er heimilt að birta myndir og teikningar af birtum listaverkum og gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr., [enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða].

Notkun fjölmiðla

Skv 2. mgr. 15. gr. höfundalaga er heimilt að birta í blöðum, tímaritum, sjónvarpi og kvikmyndum myndir eða teikningar af birtum listaverkum í sambandi við frásögn af dægurviðburðum. Þetta nær þó ekki til verka, sem gerð eru í þeim tilgangi að birta þau með framangreindum hætti.

Ljósmyndavernd

Ef ljósmynd telst ekki uppfylla skilyrði höfundalaga um frumleika, sérkenni og sjálfstæði, þá getur verkið hlotið svokallaða ljósmyndavernd í lögunum, sbr. 49. gr. höfundalaga, en slík vernd helst í 50 ár eftir að ljósmynd er tekin, og bannar eftirgerð þeirra eða notkun nema með heimild ljósmyndara.