Hægt er að vera með félagsaðild að Myndstef með þremur leiðum, sem hér eru nánar útlistuð.

Aðildarfélög

Félagsmenn aðildarfélaga Myndstefs eru sjálfkrafa aðilar að Myndstef, í samræmi við aðildarsamninga þar um.

Með aðildarsamningi er staðfest að aðildarfélag uppfyllir þau skilyrði sem þarf til félagsaðildar að Myndstefi, og felst í þeim samningi gagnkvæmar skuldbindingar að sinna þeim réttindum og skyldum er kveðið er á um í samþykktum Myndstefs hverju sinni, og í 3. og 4. kafla samningins.

Einstaklingsaðild

Hægt er að vera með einstaklingsaðild að Myndstef, en skilyrði til félagsaðildar er að viðkomandi sé starfandi myndhöfundur, eða á hagsmuna að gæta vegna birtingar og annarrar hliðstæðrar notkunar á myndverkum sínum. Í slíkum tilvikum skulu félagsmenn undirrita þartilgreint umboð sem tilgreinir hvers efnis Myndstef skuli fara með réttindi tengd endurnotkun verka eða höfundarétti þeirra. Þeir skulu einnig tilgreina og skilgreina sérstaklega hvort einhver tegund réttinda, flokkur eða annað efni, skilu vera undanskilið umboði og því réttindavörslu.

Umboð þetta má nálgast hér, og tryggir undirritun félagsaðild í samræmi við hlutverk og skyldur Myndstefs, auk aðgangs að ókeypis lögfræðiþjónustu varðandi höfundarétt og gerð samninga. Þrátt fyrir umboð þetta getur rétthafi veitt leyfi til notkunar verka sinna, ef notin eru ekki í viðskiptalegum tilgangi og gildir hér meginreglan um að rétthafa er í sjálfvald sett að fara með umsýslu réttinda sinna, kýs hann svo.

Erfingjar

Rétthafar eða erfingjar látinna listamanna skulu skila inn sérstöku umboði til Myndstefs, eftir að sammælast um hver þeirra komi fram fyrir hönd erfingja, ef þeir eru fleiri en einn. Umboð þetta fellur sjálfkrafa úr gildi 70 árum eftir lát höfundar.


Engin félagsgjöld eru að Myndstef, en innheimti samtökin greiðslur fyrir hönd félagsmanns halda samtökin eftir 20% af greiðslu sem þóknun í umsýslukostnað og þjónustu.

Veistu ekki hvort þú ert félagsmaður Myndstefs? Sendu okkur tölvupóst á myndstef@myndstef.is eða hafðu samband símleiðis á skrifstofutíma. Við upplýsum þig um aðild þína.