Myndstef býður upp á heildarsamninga til hagsbóta bæði fyrir höfunda og notendur. Heildarleyfi eru afar notendavæn og hagstæð í þeim tilvikum þar sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða og ómögulegt er fyrir notendur að fá leyfi sérhvers höfundar. Þessir samningar geta nýst við t.d. útgáfu bóka, heimasíðna, sýningarskráa, vefsvæða eða annarra verkefna þar sem mikill fjöldi myndverka eru birt.

Myndstef hefur viðurkenningu Mennta-og menningarmálaráðuneytis til þess að gera samningaskvaðasamninga fyrir hönd myndhöfunda á grundvelli 4. mgr. 26. gr. a, sbr. 12. gr. b höfundalaga nr. 73/1972.

Heildarsamningar eru sérstök tegund af myndbirtingarleyfi þar sem notandi fær eitt heildarleyfi til að birta verk eftir marga höfunda og þarf því ekki að sækja um leyfi fyrir hvern höfund. Höfundum er þó ávallt heimilt að taka ekki þátt í heildarsamningum og þurfa þeir að tilkynna það til Myndstefs. Í þeim tilvikum þarf að semja sérstaklega við þann höfund. Að auki tryggir Myndstef að ef til eftirmála komi verði réttindi rétthafa tryggð. Á hinum Norðurlöndunum hafa verið gerðir fjölmargir heildarsamningar við ýmsar stofnanir, fyrirtæki og söfn, til dæmis varðandi notkun myndverka á netinu, í kennslu, við sjónvarpsútsendingar, o.s.frv.

Myndstef getur boðið upp á heildarsamninga til fyrirtækja og stofnana í þeim tilvikum þar sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða og ómögulegt er fyrir notendur að fá leyfi sérhvers höfundar. Einnig getur Myndstef boðið upp á samningskvaðaleyfi (heildarsamninga á grundvelli samningskvaðar), í samræmi við breytingar á íslenskum höfundalögum nr. 9/2016.

Heildarsamningar á grundvelli samningskvaðar, eða samningskvaðaleyfi, er norræn lausn í höfundarétti sem auðveldar aðgang að notkun verka og er byggt á sömu hugmyndum og kjarasamningar.

 

Með samningskvöð er átt við að ákveðið er með lögum að þeim notendum er hlotið hafa heildarleyfi skuli vera heimilt að nýta verk höfunda, einnig höfunda utan samtaka. Þegar Myndstef veitir samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a skulu samtökin birta upplýsingar á viðeigandi hátt um að slíkur samningur hafi verið gerður ásamt upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að rétthafar sem ekki eru í samtökunum geti gert kröfur um þóknun. Einstakir höfundar sem eru félagsmenn Myndstefs geta þó bannað samningsaðila notkun á grundvelli samningskvaðaleyfis. Skal höfundur hafa frumkvæði af því að tilkynna slíkt bann til Myndstefs sérstaklega og liggur ekki önnur tilkynningarskylda á Myndstef vegna þessa, enda þá myndi tilgangur samningskvaðaleyfis missa mark sitt.

 

Ákvæði um samningskvaðir voru fyrst sett í norræn höfundalög í kringum 1960 en þó ekki í íslensk höfundalög fyrr en miklu seinna. Um myndverk og samningskvaðir gildir nú 2. mgr. 25. gr. höfundalaga nr. 73/1972, auk þess sem 15. gr. a. fjallar um ljósritun og skönnun myndverka við ákveðan starfsemi. Að auki var II. kafla höfundalag breytt allverulega með lögum 9/2016, Takmarkanir á höfundarétti og umsýsla höfundaréttar á grundvelli samningskvaða var skýrt afmörkuð. Með nýjum lögum er sett almenn heimild til heildarleyfis á grundvelli samningskvaða. Slíkt samningskvaðaleyfi til Myndstefs er helst að finna í   12.gr. b. og 3. mgr. 14. gr., sbr. 26.gr. a. höfundalaga, að skilyrðum laganna uppfylltum.

Í lögunum eru skilyrðin upptalin og eru eftirfarandi:

  1. Samningurinn um samningskvaðaleyfi þarf að taka til afmarkaðs og vel skilgreinds sviðs, þ.e. þau verk sem samningskvaðaleyfið tekur til séu vel afmörkað og skilgreind.
  2. Samningskvaðaleyfi verður að vera forsenda þess að nýting sé möguleg, þannig að illmögulegt sé að semja um ætlaða notkun á einstaklingsgrundvelli, t.d. þegar um er að ræða mikla notkun fjölda verka margra rétthafa. Ekki er þó ætlast til að viðsemjendur þurfi að sanna að reynt hafi verið að semja á einstaklingsgrundvelli en mistekist, heldur er nóg að ljóst sé að um svið sé að ræða þar sem illgerlegt er vegna umfangs og kostnaðar að ná til allra rétthafa í þeim tilgangi að semja við þá hvern um sig.
  3. Samningur milli Myndstefs og notanda þarf að vera skriflegur og í honum tekið fram að hann veiti samningskvaðaleyfi, þ.e. að hann sé bindandi bæði fyrir félagsmenn rétthafasamtakanna og höfunda verka á sama afmarkaða og tilgreinda sviðinu sem eru utan samtakanna.
  4. Samtök rétthafa sem stofna til samningskvaðaleyfis skulu hafa viðurkenningu ráðherra.

Meginreglan er sú að með samningskvaðaleyfi fær notandi rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að samtökin komi ekki fram fyrir hönd höfunda þeirra verka. Þeir höfundar sem rétthafasamtök koma ekki fram fyrir geta þó gert kröfu til þess að fá einstaklingsbundna þóknun fyrir not á grundvelli samningskvaðaleyfisins, þó að slíkur réttur komi hvorki fram í samningi samtakanna um samningskvaðaleyfi við notanda né í reglum samtakanna um þóknun. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglunni að ofan. Ákveða má fjárhæð einstaklingsbundinnar þóknunar samkvæmt ákvæðum 57. gr. höfundalaga. Kröfu um slíka þóknun verður einungis beint að samtökunum og skal hún vera skrifleg.

Flestir heildarsamningar eru grundvallaðir á gjaldskrá Myndstefs. Söfn, fjölmiðlar, skólar, stofnanir, bókaforlög og fleiri stórnotendur geta þá fengið sérstakan afslátt af gjaldskránni. Myndstef getur einnig veitt afslátt í heildarsamningi í þeim tilvikum þar sem um umfangsmikla notkun er að ræða, en þó á mismunandi birtingaformi. Myndstef og notendur geta samið um sérstaka þóknun vegna heildarsamningur á grundvelli samningskvaðar, í samræmi við þau skilyrði sem koma hér fram að ofan.

Þóknun fyrir notkun sem fer fram á grundvelli samnings um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a skal ákvörðuð á sama hátt gagnvart öllum þeim höfundum sem samningskvaðaleyfið tekur til, hvort sem þeir eru innan eða utan þeirra rétthafasamtaka sem eru aðilar að samningnum. Er þá gengið út frá því að reglur samtakanna kveði á um skiptingu þóknunar eftir notkun verka þannig að úthlutun fari fram á einstaklingsgrundvelli. Ekki er þó girt fyrir að um heildarúthlutun geti verið að ræða, t.d. í formi styrkja til félagsmanna á grundvelli umsókna. Er þá gert ráð fyrir því að hlutaðeigandi utanfélagsmenn eigi þess kost að sækja sinn hluta þóknunar í formi styrkja á grundvelli umsókna. Í flestum tilvikum er þóknun vegna heidlarsamninga úthlutað í formi styrkja hjá Myndstefs, en styrkir eru auglýstir í júní ár hvert. Allir myndhöfundar geta sótt um styrkinn, hvort sem viðkomandi er félagsmaður Myndstefs eða ekki. Hér má lesa nánari reglur og skilyrði fyrir styrkveitingu Myndstefs.