- Fréttir

Styrkveitingar Myndstefs hafa verið árlegur viðburður í 18 ár og hefur nú verið úthlutað um hundrað og tuttugu milljónum til myndhöfunda. Fjármunir sem Myndstef úthlutar með þessum hætti eru greiðslur til samtakanna vegna notkunar á vernduðum myndverkum en eitt af hlutverkum samtakanna er að koma þeim greiðslum til myndhöfundanna, meðal annars í formi styrkja.

Stjórn Myndstefs ákveður heildarfjárhæð styrkja fyrir hverja úthlutun í samráði við löggiltan endurskoðanda samtakanna. Síðastliðin tvö ár hafa verið veittir styrkir til myndhöfunda að heildarfjárhæð 10.250.000 kr., þar af 8.000.000 kr í verkefnastyrki og 2.250.000 kr í ferða-og menntunarstyrki.

Nú í ár ákvað stjórn Myndstefs að hækka heildarfjárhæð verkefnastyrkja í 12.750.000 kr og veita þannig í heildina 15.000.000 kr í styrki til myndhöfunda. Hækkunin er gerð í ljósi aðstæðna í heiminum sökum heimsfaraldursins og að fordæmi annarra styrktarsjóða sem hafa verið hækkaðir í ár. Hækkunin nær eingöngu til styrkúthlutunnar þetta árið og er ætluð til þess að styðja við bakið á myndhöfundum á þessum fordæmalausum og óljósum tímum.

Opnað var fyrir styrkumsóknir 17. júní og var umsóknafrestur tveir mánuðir. Sérstök úthlutunarnefnd sem skipuð er af þremur aðilum úr aðildarfélögum Myndstefs velur úr umsóknum og úthlutar styrkjunum. Hver nefnd situr í tvö ár.

Ný úthlutunarnefnd tók til starfa í ár og skipa hana:
Anna Hallin – Fyrir hönd Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík
Helga Ósk Einarsdóttir – Fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs (Hönnunarmiðstöðvar)
Ragnar Visage – Fyrir hönd Ljósmyndarafélags Íslands

Nefndin hefur skilað niðurstöðum sínum og í dag voru veittir styrkir að heildarfjárhæð 15.000.000.
Alls bárust 128 umsóknir um verkefnastyrk og hlutu 53 umsækjendur styrk frá 150.000 kr og upp í 400.000 kr.
Alls bárust 41 umsókn um ferða-og menntunarstyrk og hlutu 15 umsækjendur styrk að fjárhæð 150.000 kr.
Listi yfir styrkþega nú og fyrri ára má finna á heimasíðu Myndstefs, hér.

Vegna heimsfaraldursins var ekki hægt að halda móttöku eins og tíðkast hefur. Starfsmenn og stjórn Myndstefs vildi þó „hitta“ styrkþega og ná hópmyndatöku af öllum. Því var boðað var til rafrænnar styrkveitingu á Zoom. Þar hélt Ragnar Th. Sigurðsson, stjórnarformaður Myndstefs, ræðu og tekin var hópmyndataka með skjáskotum. Þau skjáskot má sjá með þessari frétt.

Nýlegar fréttir