Myndstef veitti styrki til myndhöfunda í sextánda skipti föstudaginn 26. október í SÍM salnum, Hafnarstræti 16. Yfir 10 milljónum var úthlutað í verkefnastyrki og ferða-og menntunarstyrki að þessu sinni, sem hækkaði heildarupphæð styrkja til myndhöfunda á þessum sextán árum yfir 100 milljónir.
Stjórn og starfsfólk Myndstefs er sérlega ánægt með að geta stutt og styrkt starfandi myndhöfunda við störf sín, en styrkþegarnir koma frá fjölbreyttum geirum sköpunnar; myndlistarmenn, ljósmyndarar, arkitektar, teiknarar og alls kyns hönnuðir.
Fjármunir sem Myndstef úthlutar með þessum hætti eru greiðslur til samtakanna vegna notkunar á vernduðum myndverkum en eitt af hlutverkum samtakanna er að koma þeim greiðslum til myndhöfundanna, meðal annars í formi styrkja.
Opnað er fyrir styrkumsóknir í júní ár hvert og er frestur um tveir og hálfur mánuður. Sérstök úthlutunarnefnd sem skipuð er af þremur aðilum úr aðildarfélögum Myndstefs velur úr umsóknum og úthlutar styrkjunum.
Í úthlutunarnefnd Myndstefs í ár sátu;
Ásta Björk Ríkharðsdóttir fyrir hönd Félags leikmynda-og búningahöfunda,
Berglind Jóna Hlynsdóttir fyrir hönd SÍM,
Emil H. Valgeirsson fyrir hönd teiknara og kemur úr félaginu Grafía.
Í fyrra var slegið fjöldamet í umsóknum sem bárust, eða nánast tvöföldun frá árunum áður. Það má meðal annars rekja til þess að umsóknarferlið var gert rafrænt í fyrsta sinn. Í ár var aftur slegið fjöldamet umsókna, en um 70% fleiri umsóknir bárust í ár en í fyrra.
Að þessu sinni sóttu 162 um verkefnastyrk og hlutu 34 umsækjendur styrk frá 100.000 kr og upp í 400.000 kr.
92 umsóknir um ferða-og menntunarstyrk bárust en 22 umsækjendur hlutu styrk frá 50.000 kr og upp í 150.000 kr.
Lista yfir styrkþega verkefnastyrkja 2018 má finna hér.
Lista yfir styrkþega ferða-og menntunarstyrkja 2018 má finna hér.