Myndstef – Myndhöfundasjóður Íslands úthlutaði styrkjum til myndhöfunda og sjónlistafólks þann 8. nóvember 2023. Úthlutað var styrkjum fyrir 30 milljónir að þessu sinni, og hefur Myndstef því úthlutað alls 40 milljónum króna í ár. Aldrei fyrr hafa samtökin úthlutað jafn miklu á einu ári, en nú hafa samtökin á sl. 20 árum úthlutað alls yfir 200 m.kr. til myndhöfunda.
Alls hlutu 41 verkefni verkefnastyrk, en hægt var að sækja um styrki fyrir 250 þúsund, 500 þúsund eða 750 þúsund. Að auki hlutu 20 myndhöfundar ferðastyrk fyrir 250 þúsund hver. Alls bárust 229 afar fjölbreytilegar og áhugaverðar umsóknir um styrki fyrir yfir 111 milljónir.
70 umsóknir bárust um ferðastyrk, alls var sótt um fyrir 17.750.000 kr. en í boði voru alls 5. m. kr. til úthlutunar.
159 umsóknir bárust um verkefnastyrki fyrir 250-750 þús., alls var sótt um styrki fyrir 94 m.kr. en til úthlutunar voru 25 m.kr.
Samtals bárust því 229 umsóknir, þar sem sótt var um yfir 111 milljónir, en 30 milljónir voru til ráðstöfunar. Fyrr á árinu var 10 m.kr. úthlutað af Myndstef og bárust þá einnig fjöldi umsókna fyrir tæpar 100 milljónir.
Þessi fjöldi umsókna endurspeglar vel þörfina fyrir stuðning við skapandi greinar. Myndstef telur þetta sýna fram á að mikil þörf sé til staðar fyrir aukinn stuðning til þeirra stétta sem eru hvað mest skapandi í okkar samfélagi.
Í úthlutunarnefnd Myndstefs sátu þau Elín Hrund Þorgeirsdóttir tilnefnd af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Ingvar Hrafn Ragnarsson tilnefndur af Félagi íslenskra samtímaljósmyndara og Sigrún Hrólfsdóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra myndlistarmanna.
Styrkveitingin fór fram í Grósku í Vatnsmýrinni þar sem styrkþegar, stjórn og starfsmenn Myndstefs komu saman og fögnuðu. Gerla, Guðrún Erla Geirsdóttir, stjórnarformaður Myndstefs og Vera Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs veittu styrkina með formlegum hætti.
Í ræðu sinni á styrkveitingunni fjallaði Gerla, stjórnarformaður Myndstefs, um hve mikilvægu hlutverki sjónlistir gegna í samfélaginu í dag og hafa gert í gegn um söguna. Þrátt fyrir það fær sjónmenning, myndlist, hönnun og ljósmyndun ekki mikið pláss í fjölmiðlum, t.d. miðað við vægi íþrótta í fjölmiðlum, sérstaklega þegar litið er til þess að sjónmenning, sem mun lifa um ókomin ár, aldir eða árþúsundir fær aðeins brotabrot af þeim útsendingar tíma sem íþróttum er úthlutað.
Við vitum að sjónræn túlkun allt frá tímum hellamálverkanna er það sem gerir okkur fært að skynja og meta hvert menningarstig þjóða eða einstakra þjóðflokka var. Við getum tekið dæmi frá Egyptum til forna. Hversu hátt menningarstig þeirra var sjáum við í gífurlegum afrekum þeirra; að byggja pýramída, hönnun húsgagna, skraut- um nytjahluta, skartgripa, klæða og myndverka sem fundist hafa. Það sama á við um aðrar menningarþjóðir svo sem Kínverja, Japana, Makedóníumenn, Grikki og Rómverja. Hér á landi var nýlega opnuð í Þjóðminjasafninu sýning á listhandverki kvenna, reflum saumuðum á 14., 15. og 16. öld. Á sýningunni má sjá svart á hvítu að hlutur menningararfs okkar frá fyrri öldum er myndlist í formi textíl-listaverka kvenna.
„Á sama tíma hefur enn eina ferðina komið fram á Alþingi tillaga um að leggja niður heiðurslaun listamanna. Í stað þess sem – eðlilegt væri – að koma með tillögu um fjölgun heiðurslauna og að þau væri ávallt í hlutfalli við fjölgun landsmanna. Að sjálfsögðu munu alltaf verða skiptar skoðanir um hver eru best að slíkri viðurkenningu komin, og e.t.v. vill er nafn launanna ekki ákjósanlegt. Til dæmis gætum við farið að dæmi nokkurra þjóða sem útnefna einstaklinga sem skara fram úr í listum heiðurtitlinum „Þjóðargersemar“ og veita þeim bæði með því föst laun til æviloka og virðulegan titil að bera.“ sagði Gerla.
Þá fjallaði Gerla einnig um Myndstef, og tilgang samtakanna sem höfundaréttarsamtök um að standa vörð um höfundar- og sæmdarrétt sjónlista. Gjarnan er talað um að Myndstef standi á þremur stoðum; myndlist, arkitektúr og hönnun, og ljósmyndun. Tvær fyrrnefndu stoðirnar hafa fyrir nokkuð löngu borið gæfu til að stofna heildarsamtök fyrir sína félagsmenn. Nokkurs konar regnhlíf þar sem mismunandi fagfélög hvorrar greinar koma saman undir. Önnur er Samband íslenskra myndlistarmanna hin Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Fyrir um ári fóru ljósmyndarar að dæmi þeirra og spenntu upp regnhlíf yfir sín fagfélög undir heitinu Ljósmyndamiðstöð Íslands. Var sérstaklega klappað fyrir þeim áfanga á styrkveitingunni.
Hópur þeirra sem tóku við viðurkenningu um styrkúthlutun. Mynd: Anton Bjarni.
Verkefnastyrkir voru frá 250.000 – 750.000. Þessi hlutu verkefnastyrki:
Anna Andrea Winther fyrir verkefnið „Á milli mála: Fingur og fiður“.
Anna Hrund Másdóttir fyrir einkasýningu í Nýlistasafninu.
Anna Líndal fyrir verkefnið SURTSEY I, II, III.
Anna María Bogadóttir fyrir verkefnið „Híbýlaauður“.
Arnar Ásgeirsson fyrir verkefnið „Rölt“.
Berglind Jóna Hlynsdóttir fyrir verkefnið „Loftverk – í mér búa lúðrar“.
Berglind Ósk Hlynsdóttir fyrir verkefnið „Hvíslustell“.
Bjargey Ólafsdóttir fyrir verkefnið „Draugur upp úr öðrum draug“.
Brák Jónsdóttir fyrir verkefnið „Organism totem – Nýtt verk á Sequences“.
Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir fyrir einkasýningu á Listasafni Reykjanesbæjar.
Bryndís Jónsdóttir fyrir bókverk um verk Bryndísar Jónsdóttur.
Daníel Perez Eðvarðsson fyrir verkefnið „The man who slept like a flamenco dancer“.
Egill Bjarni Friðjónsson fyrir verkefnið „Mennt er máttur“.
Einar Falur Ingólfsson fyrir verkefnið „Útlit loptsins – Veðurdagbók“.
Eygló Harðardóttir fyrir „Þú átt leik / Your Turn“.
Guðrún Kristjánsdóttir fyrir verkefnið Bláleiðir; um innlönd, einstigi, auðn.
Gunnar Sverrisson fyrir bókverkið „Myndlist á heimilum“.
Gunnhildur Walsh Hauksdóttir fyrir verkefnið „Úr hjarta í stein – Hringsjá“.
Hallgerður Hallgrímsdóttir fyrir verkefnið „Dauðadjúpar sprungur“.
Hanna Dís Whitehead fyrir verkefnið „Viðarföng – Bananatré og lerki“.
Hanna Jónsdóttir fyrir verkefnið „Hvað skal segja“.
Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir fyrir verkefnið „Hugmynd að aftöku“.
Jóhannes Kjartansson fyrir verkefnið „Má ég sjá þig?“.
Jón Helgi Pálmason fyrir verkefnið „Sléttan“.
Kristin Gunnlaugsdottir fyrir verkefnið „Selfie“.
Litten Nystrøm fyrir verkefnið „Wool mattress in all Icelandic Wool“.
Logi Pedro Stefánsson fyrir verkefnið „Litla Kongó“.
Nermine El Ansari fyrir verkefnið „Dreams in Exile“.
ODEE (Oddur Eysteinn Friðriksson) fyrir verkefnið „Cognitive Collage“.
Ólöf Erla Bjarnadóttir fyrir yfirlitssýningu.
Páll Haukur Björnsson fyrir verkefnið „Þrýstingur“.
Ragnheiður Káradóttir fyrir verkefnið „Leynihurðin og stóri stjakinn“.
Rúrí / Þuríður Rúrí Fannberg fyrir bókverkið „Ljóðað á lífið“.
Sara Björnsdóttir fyrir einkasýningu í sal Íslenskrar grafíkur.
Sigríður Hafdís Hannesdóttir fyrir bókverkið „Untitled/Icelandic Retail Advertisements“.
Sigurður Guðjónsson fyrir einkasýningar 2024.
Sól Hansdóttir fyrir verkefnið „Oh yes the whole world is haunted“.
Spessi / Sigurþór Hallbjörnsson fyrir verkefnið „Ekki til sýnis“.
Stephan Stephensen fyrir verkefnið „100 hjörtu á svæði 8“.
Una Björg Magnúsdóttir fyrir einkasýningu í Künstlerhaus Bethanien.
Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson fyrir einkasýningu hjá Kling & Bang.
Ferða-, menntunar- og vinnustofustyrkir voru 250 þúsund krónur. Þessi hlutu ferðastyrk:
Anita Hirlekar – ferðastyrkur til Kaupmannahafnar
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir – ferðastyrkur til Kairo
Álfrún Pálmadóttir – ferðastyrkur til Brussel
Birta Guðjónsdóttir – ferðastyrkur til Kairo
Borghildur Indriðadóttir – ferðastyrkur til Chile
Deepa R. Iyengar – ferðastyrkur til innan EES
Elísabet Birta Sveinsdóttir – ferðastyrkur til Bergen
Erin Honeycutt – ferðastyrkur til Tokyo
Erla Þórarinsdóttir – ferðastyrkur til Kína
Guðrún Benónýsdóttir – ferðastyrkur til Tokyo
Hallgerður Hallgrímsdóttir – ferðastyrkur til Helsinki
Hannes Lárusson – ferðastyrkur á Hvamm á Völlum
Magnea Einarsdóttir – ferðastyrkur til Kaupmannahafnar
María Kjartansdóttir – ferðastyrkur til Rúmeníu
Mireya Samper – ferðastyrkur til Kína
Monika Fryčová – ferðastyrkur til Sri Lanka
Sigurður Atli Sigurðsson – ferðastyrkur til Tokyo
Silfrún Una Guðlaugsdóttir – ferðastyrkur til Helsinki
Soffía Sæmundsdóttir – ferðastyrkur til Póllands
Sól Hansdóttir – ferðastyrkur vegna Paris Fashion Week
Myndstef óskar styrkþegum innilega til hamingju og velfarnaðar í komandi verkefnum.