Þann 21. okt 2021 stóð Myndstef fyrir kynningu á breyttum skattalögum, sem tóku gildi þann 1. janúar árið 2020. Þessar breytingar fólu í sér að greiðslur vegna seinni afnota höfundavarinna verka eru fjármagnstekjuskattskyldar (22%) en ekki tekjuskattaðar (31,45 – 46,25%), eins og áður fyrr.
Tilgangur kynningarinnar var að kynna lögin fyrir félagsmönnum, meðal annars til þess að auðvelda höfundum framkvæmd við útgáfu reikninga, útreiknings skattstofns og skil á skatti og staðgreiðslu. Kynningin var almenns eðlis þar sem fjallað var um tildrög breytinganna og almenn framkvæmd í ljósi skattlagningar höfundaréttartekna.
Guðbjörg Þorsteinsdóttir, skattalögfræðingur og meðeigandi hjá Deloitte, kynnti lögin og fjallaði um skilyrði skattlagningarinnar og framkvæmdina. Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, lögfræðingur Myndstefs og Aðalheiður Dögg Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs, stilltu upp nokkrum raunhæfum dæmum og álitamálum í samræmi við lögin ásamt því að svara spurningum úr sal.
Kynningin í heild sinni var tekin upp og skipt upp í tvö myndbönd. Í öðru myndbandinu má finna kynningu Guðbjargar Þorsteinsdóttur og í hinu myndbandinu eru raunhæf dæmi og álitamál dregin fram ásamt umræðu og svörum við spurningum úr sal.
Myndböndin má finna á heimasíðu Myndstefs, hér.