- Fréttir

Myndstef hefur árlega veitt styrki til starfandi myndhöfunda í 19 ár og hafa samtökin nú úthlutað um 135 milljónum til myndhöfunda. Fjármunir sem Myndstef úthlutar með þessum hætti eru greiðslur til samtakanna vegna notkunar á vernduðum myndverkum en eitt af hlutverkum samtakanna er að koma þeim greiðslum til myndhöfundanna, meðal annars í formi styrkja.

Stjórn Myndstefs ákveður heildarfjárhæð styrkja fyrir hverja úthlutun í samráði við löggiltan endurskoðanda samtakanna. Í fyrra ákvað stjórn Myndstefs að hækka heildarfjárhæð styrkja úr rúmlega 10 milljónum í 15 milljónir. Hækkunin var gerð til eins árs í ljósi aðstæðna í heiminum sökum heimsfaraldursins og að fordæmi annarra styrktarsjóða sem hækkaðir voru það árið. Hækkunin var þá ætluð til þess að styðja við bakið á myndhöfundum á þessum fordæmalausum og óljósum tímum.

Ljóst er að áhrif faraldursins eru enn mikill, sérstaklega hjá skapandi greinum. Því ákvað stjórn Myndstefs að veita aftur 15 milljónir í styrki til myndhöfunda í ár.

Opnað var fyrir styrkumsóknir 17. júní og var umsóknafrestur tveir mánuðir. Sérstök úthlutunarnefnd sem skipuð er af þremur aðilum úr aðildarfélögum Myndstefs velur úr umsóknum og úthlutar styrkjunum. Hver nefnd situr í tvö ár.

Í úthlutunarnefnd Myndstefs í ár sátu;
Anna Hallin – Fyrir hönd Myndhöggvarafélagsins
Helga Ósk Einarsdóttir – Fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Ragnar Visage – Fyrir hönd Ljósmyndarafélagsins

Myndstef þakkar úthlutunarnefnd innilega fyrir vel unnin störf en núverandi nefnd lætur að störfum nú og ný nefnd verður skipuð á næsta ári.

Í gær, 14. október, fór fram móttaka vegna styrkveitinga ársins. Þar tóku styrkþegar á móti styrkjum og fögnuðu.
Alls bárust 124 umsóknir um verkefnastyrk og hlutu 45 umsækjendur styrk frá 150.000 kr og upp í 400.000 kr.
Alls bárust 31 umsóknir um ferða-og menntunarstyrk og hlutu 20 umsækjendur styrk frá 50.000 kr og upp í 150.000 kr.
Listi yfir styrkþega nú og fyrri ára má finna á heimasíðu Myndstefs, hér.

Nýlegar fréttir