- Fréttir

Ágreiningur hefur verið innan IHM, Innheimtumiðstöðvar rétthafa, um skiptingu fjármuna milli aðildarfélaganna tólf frá árinu 2017, en tilgangur IHM er að móttaka og úthluta bótum úr ríkissjóði, til að bæta rétthöfum það tjón sem verður af eintakagerð af verkum höfunda til einkanota. Það er þá gert með úthlutun til aðildarfélaga, sem svo greiða til höfunda. Hjá Myndstefi er þetta gert í formi styrkja.

Nú er ágreiningurinn í formlegri sáttarmeðferð skv samþykktum IHM og er lokaskref þess gerðardómur, sem mun skera úr um ágreininginn árið 2022.

Myndstef hefur tekið saman upplýsingar um söguna, sáttarmeðferðina ofl. Þessar upplýsingar má finna hér:

UM IHM

IHM, eða Innheimtumiðstöð rétthafa, hefur þann tilgang að móttaka og úthluta bótum úr ríkissjóði, til að bæta rétthöfum (höfundum) það tjón sem verður af eintakagerð af verkum höfunda til einkanota, eins og nánar er lýst í 11. gr. höfundalaga.

Aðilar að IHM eru STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), RSÍ (Rithöfundasamband Íslands), Hagþenkir, (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna),  (Blaðamannafélag Íslands), SKL (Samtök kvikmyndaleikstjóra), SÍK (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda), Myndstef, FÍL (Félag íslenskra leikara), FK (Félag kvikmyndagerðamanna), FLÍ (Félag leikstjóra á Íslandi) og Félag leikskálda og handritshöfunda.

Ítarlegri upplýsingar um IHM má finna hér.

Hvað er eintakagerð til einkanota?

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, er einstaklingum heimilt að gera til einkanota afrit af verkum og efni sem nýtur höfundaréttarverndar, að því tilskildu að eintakagerðin fari ekki fram í fjárhagslegum tilgangi. Heimildin til eintakagerðar til einkanota hefur verið skýrð svo að hún feli í sér heimild til eintakagerðar í eigin þágu og fyrir aðra einstaklinga sem eftirgerðarmaðurinn er í persónulegu sambandi við, þ.e. fyrir fjölskyldu, vini, kunningja og jafnvel nána samstarfsfélaga.

Eintakagerð til einkanota gerir notanda kleift að afrita höfundavarið efni sem hefur þegar verið birt, gert aðgengilegt eða útgefið á löglegan hátt, fremur en að fjárfesta í frumriti hverju sinni eða greiða fyrir notin á annan hátt, til að mynda með áskrift eða streymi. Slík not orsaka tjón fyrir rétthafa og lækkun mögulegra tekna, sem ella hefðu innheimst í gegnum beina sölu, dreifingu eða með áskrift á efninu.

Í ofangreindu ákvæði er fjallað nánar um framkvæmd innheimtu. Þar segir að höfundar verka eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna framangreindrar eintakagerðar. Bæturnar skulu greiðast árlega til samtaka höfundaréttarfélaga með fjárveitingu samkvæmt fjárheimild í fjárlögum, og skal miða við tollverð af tækjum og búnaði sem einkum eru ætlaður til slíkrar upptöku eða afritsgerðar.

Búnaður notenda við slíka afritsgerð, tæki og miðlar, hafa breyst mikið á síðast liðnum árum. Hefur þróun orðið slík að sala á búnaði ætluðum til upptöku (svo sem CD, DVD, flakkarar, USB kubbar ofl) sem og tækjum þess efnis hefur dregist saman. Streymi hefur einnig fest sig í sess hérlendis. Í stað eintaka sem notendur eiga af tónlist og kvikmyndum hafa notendur í auknum mæli aðgang að efninu í gegnum áskriftarþjónustu í streymi. Aukið framboð tónlistar og kvikmynda í streymi mun þannig draga úr þörfinni fyrir að „eiga eintak“ til að njóta tónlistar og kvikmynda.

Eintakagerð stafrænna verka til einkanota fer nú í meira mæli fram í vélbúnaðinum sjálfum, þ.e. í tölvum og hvers konar tækjum sem hafa að geyma harða diska eða minniskort, svo sem flökkurum, símum, úrum og myndavélum.

Hver er eintakagerð myndverka?

Eintakagerð myndverka hefur aukist samhliða þessari þróun, þar sem auðveldara er að nálgast myndverk, sem og hvers konar sjónlist á stafrænu formi. Notkun myndmáls í lífi og starfi, og þörfin til þess að „eiga stafrænt eintak“ af myndverkum hefur aukist. Á sama tíma hefur streymi myndverka ekki enn fest sig í sessi í miðlun og nýtingu sjónlistar. Afrit af myndverkum eru því að mestu gerð í gegnum ýmis konar forrit, smáforrit eða samskiptamiðla, helst á snjallsíma og önnur sambærileg tæki. Þeim er dreift innan veggja heimilis, fjölskyldu og vina til fræðslu og til innblásturs, til hugmyndaaukningar, sem og til að efla ímynd og útlit.

Er því um mikilvæg réttindi myndhöfunda að ræða, og innheimtir IHM bætur til myndhöfunda fyrir ofangreind not. Myndstef hefur sæti í stjórn IHM og tekur við úthlutun ofangreindra bóta og úthlutar til rétthafa í formi styrkja ár hvert.

Ástæða breytinga og staðan í dag

Áður fyrr var sjóður IHM ákvarðaður með tillitli til sérstakrar innheimtu af ákveðnum tækjum, geisladiskum, DVD diskum, kasettum ofl. Síðastliðna áratugi hafa ofangreind not verið á undanhaldi, og með tæknibreytingum og þ.a.l. breyttri notkun, fór sjóður IHM minnkandi síðastliðin ár.

Í ljósi breyttra sjónarmiða við innheimtu og notkun, var þáverandi fyrirkomulagi breytt, og nýtt ákvæði 11. gr. tók gildi, sbr. það sem að ofan segir um eintakagerð til einkanota. Eru heildarbætur frá ríkissjóði til IHM um 240 milljónir á ári, og skulu endurskoðaðar þriðja hvert ár.

Þar með stækkaði sjóður IHM umtalsvert og skyndilega.

Þessar breytingar og stækkun sjóðs IHM tóku gildi vegna úthlutunar í mars 2017, sem giltu um eintakagerð árinu á undan (2016), og áfram. Hefur úrskurðarnefnd endurskoðað bæturnar (árið 2020) og þær verið nánast óbreyttar.

Endurskoðun úthlutunar og skiptingu milli aðildarfélaga IHM

Áður fyrr var sjóður IHM ákvarðaður með tillitli til sérstakrar innheimtu af ákveðnum tækjum, geisladiskum, DVD diskum, kasettum ofl. Síðastliðna áratugi hafa ofangreind not verið á undanhaldi, og með tæknibreytingum og þ.a.l. breyttri notkun, fór sjóður IHM minnkandi síðastliðin ár.

Í kjölfar ofangreindar lagabreytinga þótti stjórn IHM eðlilegt að endurskoða skiptingu fjármuna IHM milli aðildarfélaga, og var slíkt ákveðið á fulltrúaráðsfundi snemma árs 2017. Hófst sú vinna m.a. með því að IHM hafði samband við Norwaco, norsku systursamtök sín, og fékk aðgang að þeirra skiptingu sem átti svo að byggja á hjá IHM.

Það var hins vegar ákveðinn galli á því norska kerfi sem IHM fékk fyrst veður af. Helsti gallinn var sá að ekki var tekið tillit til svokallaðra ‚stand alone‘ verka, eða verka sem eru ekki hluti af myndbandaverkum (AUDIO/VISUAL) eða tónbandaverkum (AUDIO). Þannig var ekki tekið tillit til þeirrar eintakagerðar sem á sér stað á sjálfstæðum verkum, oftast tvívíðum verkum, í gegnum ýmis tæki, t.d. með skjáskotum eða með myndavél í gegnum síma, í gegnum svokölluð ský, eða sambærileg notkun.

Stuttu seinna eftir að stjórn IHM aflaði upplýsinga frá Norwaco, var þó úr þessu bætt, og eru þessi ‚stand alone‘ verk nú innifalin í norska módelinu. Norska módelið er því núna við það miðað að öll ‚stand alone‘ verk eru tekin utan við aðra skiptingu, og eru metin saman sem 20%. Sjálfstæð sjónlistarverk hljóta þar 10% og textaverk 10%. Hin 80% sem standa eftir eru talin falla undir AV verk (AUDIO/VISUAL verk) og tónbandaverkum (AUDIO), og rennur einhver hluti þess einnig undir sjónlist, í þeim tilvikum sem sjónlistarverk eru hluti af öðru verki. Innan þess hluta er stuðst við hreina þriðjungaskiptingu milli höfunda, flytjenda og framleiðanda, á þeim rökum að við slíka framleiðslu listaverka séu yfirleitt þessar þrjár stoðir sem eigi þar réttindi (og eflaust einnig til hægðarauka og til að útkljá deilur). Ástæða þess að ‚stand alone‘ verk voru tekin utan við þrískiptinguna, er að það er sjaldgæft, eða þekkist varla að flytjendur eigi þar einhvern rétt, né að framleiðendur eigi þar rík réttindi, þó vissulega eigi þeir einhver – en flest sjónlistarverk eru framleidd af höfundinum sjálfum.

Þó upphaflega hafi IHM greiðslur, vegna tæknitakmarkana og eldri miðlunarleiða, verið einskorðuð við kvikmyndir og tónlist (svokallað “kasettugjald”) þá þykir Myndstef ljóst að streymi hafi nú breytt mjög þróun eintakagerðar. Streymi fellur ekki undir 11. gr., og telst ekki eintakagerð til einkanota, enda er þegar greitt fyrir þá þjónustu. Tæknin hefur ekki ennþá gert notendum sjónlistar fært að njóta hennar í gegnum áskriftarþjónustur eða streymi, og því hefur hlutfall milli ólíkra rétthafahópa og notkunar listaverka, m.t.t. hvenær einstaklingar gera eintök af verkum til einkanota, breyst gríðarlega.

Mörg önnur Evrópuríki hafa tekið upp svipað fyrirkomulag og að ofan greinir. Sum ríki hafa einnig horfið nær alfarið frá þriðjungaskiptingunni, eða amk frá hreinni þriðjungaskiptingu. Flest öll ríki Evrópu eru í ljósi þessa að endurskoða úthlutun gríðarlega, og er Ísland þar ekki undanskilið.

Vegna þessa hefur risið ágreiningur á milli aðildarfélaga IHM, og hefur hann staðið yfir í rúmlega 4 ár um skiptingu úthlutunar vegna eintakagerðar til einkanota. Hefur þessi ágreiningur haft verulega áhrif á starfsemi IHM og enn meiri þýðingu á réttindi rétthafa. Stjórn IHM hefur þó ákveðið að úthluta bráðabirgðabótum á meðan beðið er eftir því að leyst verði úr ágreiningi. Myndstef hefur ákveðið að gera fyrirvara við þá úthlutun, þar sem sú úthlutun er byggð á gömlum úthlutunarreglum, sem samtökin telja víst að séu orðnar úreltar. Myndstef hefur fremur verið að kalla eftir því að leyst verði úr ágreining, og málið verði sett í formlegt ferli jafnræðis og lýðræðis, svokallaða sáttameðferð og síðar gerðardóm (ef svo fer). Þar af leiðandi hefur Myndstef ekki úthlutað þessum fjármunum á meðan ágreiningur er óleystur.

Formlegt sáttarferli: Sáttarmaður

Í lok árs 2020 samþykkti stjórn IHM að hefja formlega sáttameðferð um ágreining til skiptingar. Fyrsta skrefið í þeirri meðferð er að skipa sáttamann, og að endingu var Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, ráðinn í starfið. Hóf hann störf þann 8. janúar 2021 og lauk störfum 27. mars með málarmiðlunartillögu. Í ferlinu fundaði hann með öllum aðildarfélögum og fékk greinagerðir o.fl. fleiri gögn frá öllum félögunum. Í málarmiðlunartillögu sinni fer Viðar Már yfir rök og ástæður sinnar tillögu og leggur fram skiptingu fjármuna IHM þar sem hvert aðildarfélag fær ákveðna prósentu heildarfjárs IHM. Samkvæmt þessari tillögu ætti Myndstef að fá úthlutað 7% af heildarfjárhæð IHM, með eftirfarandi rökum:

„Myndstef, Myndhöfundasjóður Íslands, er félagsskapur með 20 aðildarfélög, og munu félagsmenn vera um 2.400. Þótt öll félögin séu tengd og hugverk félagsmanna snúist um sjónarlistaverk, stundum tengd tónlist eða annars konar hljóði, eru þau ólík innbyrðis. Meðal þeirra eru þrjú félög arkitekta, þrjú félög ljósmydnara, félag myndhöggvara og félög myndlistarmanna, hönnuða og fleiri,. Félagsmenn vinna sumir hugverk sín í starfi sínu, en markir þeirra eru sjálfstætt starfandi. Sú tækniþróun sem átt hefur sér stað einkum eftir tilkomu snjallsíma og aukins geymslurýmis á tölvum eða í skýjum að dreifing myndefnis hefur stórlega aukizt. Enginn vafi er á því að eintakagerð til einkanota, hvort sem er á samfélagsmiðlum eða til sendinga milli einstaklinga, hefur aukizt margfalt á síðustu árum. Hluti slíkra seningar telst þó ekki eintakagerð að minnst kosti í hefðbundnum skilning, þ.e. þegar eingöngu er vísað á krækju þar sem unnt er að sækja efni. Taka verður tillit til þess að mikill fjöldi mynda, til dæmis þeirra sem dreift er, séu persónulegar myndir, fjölskyldumyndir, og þess háttar sem ekki teljast almennt hugverk og njóta því ekki verndar. Þá er ljóst að oft er verkhæð ekki mikil, en stundum er hún vissulega mikil til dæmis þegar um hönnun mannvirkja, málaralist eða höggmyndvarker er að ræða.

Sáttamaður telur því að hlutur Myndstefs eigi að vera 7%“

Stjórn Myndstef sætti sig við þessa málarmiðlunartillögu, en tillögunni var hafnað af stjórn IHM á fundi sínum þann 6. maí 2021. Fimm aðildarfélög höfnuðu tillögunni, eitt félag sat hjá, eitt félag lýsti ekki afstöðu sinni og fjögur félög samþykktu tillöguna (m.a. Myndstef).

Ákveðið var þá formlega á fulltrúaráðsfundi IHM þann 2. júní að fara með ágreininginn í gerðardóm. IHM mun bera kostnað af dóminum þar sem tillaga sáttarmanns hlaut ekki samþykki, en hvert aðildarfélag mun bera kostnað af sínum málatilbúnaði.

Formlegt sáttarferli: Gerðardómur

Búið er að velja dómara fyrir gerðardóm. Greinagerðum verður skilað í lok árs 2021 og áætlað er að gerðardómur fari fram á voru árs 2022.

 

Myndstef hefur nú þegar ráðið lögfræðing sem mun flytja mál samtakanna fyrir dómnum, en skrifstofa samtakanna heldur þó áfram að vinna öturlega að þessu máli og aðstoða lögfræðing eftir fremsta megni. Myndstef er þar t.d. í nánu samstarfi við systursamtök sín í Noregi, og hinum Norðurlöndunum, sem og við höfundaréttarlögfræðinga EVA (European Visual Art) vegna málsins. Við hvetjum félagsmenn okkar og þá sem málið varða að senda okkur fyrirspurn/upplýsingar um málið ef einhverjar spurningar brenna á félagsmönnum.

Niðurstöðum gerðardóms verður ekki hægt að áfrýja og mun hún því vera endanleg ákvörðun um skiptingu fjármuna IHM milli aðildarfélaga. Niðurstaða dómsins mun gilda í 10 ár, frá árinu 2017.

Nýlegar fréttir