- Fréttir

Svör stjórnmálaflokka við spurningum um höfundarétt og stefnu þar um

Í samvinnu við STEF og Rithöfundasambandið lagði Myndstef á dögunum nokkrar spurningar fyrir stjórnmálaflokka sem bjóða fram í komandi þingkosningum. Við birtum hér spurningarnar — ásamt svörum flokkanna.


FRAMSÓKNARFLOKKURINN

 

Hefur flokkurinn skýra höfundaréttarstefnu, og ef svo er, hvernig hljómar hún?
Með stafrænni tæknibyltingu hefur aldrei verið mikilvægara að setja skýrar línur í höfundarréttarmálum og nú, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim. Streymisveitur og efnisveitur veita almenningi greiðan aðgang að hinni ýmsu list en jafnframt verður að tryggja réttindi höfunda. Framsókn telur brýnt að styðja áfram við listamenn til að þeir geti aflað sér tekna með listsköpun og sköpun menningarverðmæta sem allir geta notið. Stjórnvöld verða að stuðla að jafnvægi á milli hagsmuna rétthafa höfundaréttar og notenda og tryggi að höfundalög taki til tækninýjunga á hverjum tíma. Þá vill Framsókn efla fræðslu til að auka skilning og vitund um mikilvægi höfundaréttar sem undirstöðu menningar.

Hver er afstaða flokksins til nýrrar tilskipunar ESB, DSM tilskipunar svokallaðrar, sem er nú verið að þýða og innleiða í Mennta-og menningarmálaráðuneytinu? Einkum hvað varðar hinn svokallaða endurbirtingarrétt fjölmiðla (“press publication right”, sbr. 15. gr. tilskipunarinnar), varðandi ábyrgð efnisveita, (“online content sharing”, sbr. 17. gr. tilskipunarinnar) og um viðeigandi og hlutfallslega rétt endurgjald til höfunda og flytjenda með tilliti til uppkaupssamninga („Proportinate remuneration“) sbr. 18. gr. tilskipunarinnar?
Tilskipun þessi sem um ræðir er víðtæk og hefur verið lengi í vinnslu innan mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í henni má finna víðtækar breytingar á höfundarétti sem eiga að samræma höfundarétt á hinum stafræna innri markaði – sem Framsókn telur afar mikilvægt skref. Hún hefur hins vegar verið umdeild að mörgu leyti, og ber með sér að vera málamiðlun í mörgum atriðum.  Almennt er Framsókn fylgjandi þessari tilskipun, enda vill flokkurinn standa vörð um réttindi höfunda og tryggja þau. Þá þarf jafnframt að vera eðlilegt jafnvægi milli höfundarrétthafa og notenda. Framsókn telur gríðarlega mikilvægt að eiga öflugt samráð við alla helstu hagsmunaaðila hér á landi áður en hún er innleidd að fullu.

Hver er afstaða flokksins til væntanlegrar höfundaréttarstefnu, sem hefur verið í vinnslu hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sl. ár?
Framsókn fagnar væntanlegri höfundarréttarstefnu, sem Lilja Alfreðsdóttir hefur þegar sett af stað vinnu við að undirbúa. Flokkurinn vill standa vörð um höfundarrétt hvívetna, og mikilvægt er að hafa skýra stefnu sem er í samræmi við alþjóðlegar stefnur og í góðu samráði við hagaðila hér á landi. Markmiðið er að vinna höfundarréttarstefnu í samráði við höfundarréttarnefnd og höfundarréttarráð. Í stefnunni verður kveðið á um fræðslu, áhrif nýrrar tækni, t.d. gervigreindar, á stöðu höfunda, réttláta og skilvirka samningagerð til að tryggja endurgjald til höfunda og flytjenda og um leið einfalda aðgengi að menningarefni, úrræði vegna framfylgdar réttinda, mikilvægi alþjóðasamstarfs og stefnu þar að lútandi, og tillögur að aðgerðum á mismunandi sviðum höfundaréttar.

Hver er afstaða flokksins til núverandi stefnu stjórnvalda um aðgengi að menningararfinum?
Framsókn fagnar nýrri stefnu stjórnvalda um aðgengi að menningararfinum. Hún er unnin í víðtæku samráði og stuðlar að verndun íslensks menningararfs af ýmsum gerðum, og sé henni fylgt er það tryggt að menningararfurinn verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.

Á kjörtímabilinu hefur mennta- og menningarmálaráðherra bætt í framlög til safna um 19% og hafa allir geymslukostir verið teknir til skoðunar. Margt hefur áunnist í þessum málum en Framsókn vill halda áfram að gera enn betur og halda áfram að byggja upp öflug söfn sem geta varðveitt menningararfinn.


SAMFYLKINGIN

 

Hefur flokkurinn skýra höfundaréttarstefnu, og ef svo er, hvernig hljómar hún?
Flokkurinn hefur ekki ályktað sérstaklega um höfundarétt en ýmislegt í stefnu Samfylkingarinnar um menningarlíf og skapandi greinar snertir rétt höfunda. Þá stefnu má sjá hér: https://xs.is/malefnin/menningarlif-og-skapandi-greinar/almennt-aðgengi-að-listum-og-menningu
Auk þess hefur þingflokkurinn haldið réttindum höfunda á lofti í þinginu, m.a. í afgreiðslu þingsins á höfundalögum á síðasta þingi.
Samfylkingin hefur ekki tekið afstöðu til umræddrar tilskipunar enda hefur hún enn ekki verið lögð fram á Alþingi. Flokkurinn styður hins vegar að höfundar og aðrir rétthafar fái sanngjarna þóknun fyrir öll afnot af höfundaréttarvörðu efni.

Hver er afstaða flokksins til nýrrar tilskipunar ESB, DSM tilskipunar svokallaðrar, sem er nú verið að þýða og innleiða í Mennta-og menningarmálaráðuneytinu? Einkum hvað varðar hinn svokallaða endurbirtingarrétt fjölmiðla (“press publication right”, sbr. 15. gr. tilskipunarinnar), varðandi ábyrgð efnisveita, (“online content sharing”, sbr. 17. gr. tilskipunarinnar) og um viðeigandi og hlutfallslega rétt endurgjald til höfunda og flytjenda með tilliti til uppkaupssamninga („Proportinate remuneration“) sbr. 18. gr. tilskipunarinnar?
Flokkurinn hefur ekki tekið formlega afstöðu til væntanlegrar menningarstefnu enda hefur hún ekki verið lögð fyrir Alþingi enn en væntir mikils af þeirrar vinnu og telur tímabært að endurskoða fyrri stefnu og mun vinna að henni heilshugar þegar hún kemur fyrir þingið eða í ráðuneyti menningarmála ef við fáum til þess fylgi. Menningarmál munu skipta sköpum á næstu árum í breyttu hagkerfi.

Hver er afstaða flokksins til væntanlegrar höfundaréttarstefnu, sem hefur verið í vinnslu hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sl. ár?
Samfylkingin hefur ekki tekið formlega afstöðu til væntanlegrar stefnu um höfundarétt en styður, eins og áður hefur verið sagt, rétt höfunda til sanngjarnrar þóknunar fyrir öll afnot af höfundaréttarvörðu efni.

Hver er afstaða flokksins til núverandi stefnu stjórnvalda um aðgengi að menningararfinum?
Samfylkingin telur mjög mikilvægt að tryggja landsmönnum stöðugt og lifandi aðgengi að menningararfinum, t.d. á stafrænu formi en þess skuli þó ávallt gætt að tryggja rétt rétthafa. Stefnu stjórnvalda teljum við óskýra og aðra í raun en yfirlýsta.


VINSTRI GRÆN

 

Hefur flokkurinn skýra höfundaréttarstefnu, og ef svo er, hvernig hljómar hún?
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er ekki með sérstaka höfundarréttarstefnu. Þó hefur
hreyfingin lagt áherslu á mikilvægi höfundarréttar í gegnum tíðina. Í núverandi ríkisstjórn var
til dæmis skattaumhverfi höfundarréttargreiðslna gert hagkvæmara og í stefnu
hreyfingarinnar um nýsköpun segir meðal annars að mikilvægt sé að styðja sérstaklega við
tækifæri Íslands til að vera leiðandi í hugverkaiðnaði. VG hefur og lengi talað fyrir því að
byggja upp atvinnulíf á Íslandi á hugviti sem krefst þess að höfundarréttur og annars konar
vernd hugverka sé í hávegum höfð.

Hver er afstaða flokksins til nýrrar tilskipunar ESB, DSM tilskipunar svokallaðrar, sem er nú verið
að þýða og innleiða í Mennta-og menningarmálaráðuneytinu? Einkum hvað varðar hinn svokallaða
endurbirtingarrétt fjölmiðla (“press publication right”, sbr. 15. gr. tilskipunarinnar), varðandi
ábyrgð efnisveita, (“online content sharing”, sbr. 17. gr. tilskipunarinnar) og um viðeigandi og
hlutfallslega rétt endurgjald til höfunda og flytjenda með tilliti til uppkaupssamninga
(„Proportinate remuneration“) sbr. 18. gr. tilskipunarinnar?
Hreyfingin hefur sem komið er ekki mótað sérstaka afstöðu gagnvart DSM tilskipuninni.

Hver er afstaða flokksins til væntanlegrar höfundaréttarstefnu, sem hefur verið í vinnslu hjá
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sl. ár?
Vinstri græn eru mjög jákvæð gagnvart allri stefnumótun á sviði höfundarréttar sem ætti meðal
annars að styrkja höfundarrétt og hugvitsdrifna starfsemi á Íslandi.

Hver er afstaða flokksins til núverandi stefnu stjórnvalda um aðgengi að menningararfinum?
Í stefnu hreyfingarinnar í menningarmálum er mikilvægi menningar áréttað. Í sambandi við
menningararfinn er mikilvægi hans áréttað og ítrekað að koma þurfi honum á stafrænt form þannig
að hann verði aðgengilegur netleiðis.


SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN

 

Hefur flokkurinn skýra höfundaréttarstefnu, og ef svo er, hvernig hljómar hún?
Flokkurinn hefur ekki sett sér sérstaka höfundarréttarstefnu, en í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins frá flokksráðsfundi 2021 segir: „Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að umhverfi skapandi greina sé frjósamt og fjölbreytilegt. Lækkun á skattlagningu höfundaréttargreiðslna, sem ráðist var í að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, er liður í að hlúa að skapandi greinum.“

Hver er afstaða flokksins til nýrrar tilskipunar ESB, DSM tilskipunar svokallaðrar, sem er nú verið að þýða og innleiða í Mennta-og menningarmálaráðuneytinu? Einkum hvað varðar hinn svokallaða endurbirtingarrétt fjölmiðla (“press publication right”, sbr. 15. gr. tilskipunarinnar), varðandi ábyrgð efnisveita, (“online content sharing”, sbr. 17. gr. tilskipunarinnar) og um viðeigandi og hlutfallslega rétt endurgjald til höfunda og flytjenda með tilliti til uppkaupssamninga („Proportinate remuneration“) sbr. 18. gr. tilskipunarinnar?
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis hafa komið að umfjöllun um ofangreinda tilskipun á nefndarfundum en að öðru leyti hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki tekið sérstaka afstöðu til tilskipunarinnar. Þá hefur flokkurinn ekki fylgst með þeirri vinnu sem nú á sér stað innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins við innleiðingu tilskipunarinnar.

Hver er afstaða flokksins til væntanlegrar höfundaréttarstefnu, sem hefur verið í vinnslu hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sl. ár?
Sjálfstæðisflokkurinn styður höfundarétt eindregið en hefur ekki haft beina aðkomu að þeirri höfundarréttarstefnu sem hefur verið í vinnslu hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Hver er afstaða flokksins til núverandi stefnu stjórnvalda um aðgengi að menningararfinum?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft aðkomu að núverandi stefnu stjórnvalda um aðgengi að menningararfinum í gegnum núverandi ríkisstjórnarsamstarf en hefur að öðru leyti ekki tekið sérstaka afstöðu til þeirrar stefnu.


VIÐREISN

 

Hefur flokkurinn skýra höfundarréttarstefnu, og ef svo er, hvernig hljómar hún?
Stefna Viðreisnar, frá landsþingi flokksins 2018, er skýr og skorinort: „Það er ófrávíkjanlegt að höfundarrétt beri að virða. Uppfæra þarf löggjöf í samræmi við þróun á sviði tækni, tækjabúnaðar, afritunar og dreifingar höfundarréttarvarins efnis.“

Í kosningastefnu Viðreisnar, sem samþykkt var á landsþingi 28. ágúst sl., segir enn fremur um eflingu menningarstarfs: „Öflugt menningarstarf um allt land er forsenda blómlegrar byggðar. Við eflingu menningarstarfs skal horfa til efnahagslegrar þýðingar menningarstarfsemi og skapandi greina, sem verða sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar. Endurskoða þarf menningartengda sjóði, þ.e. launa-, rannsókna- og verkefnasjóði með það fyrir augum að efla þá enn frekar og tryggja fagleg og gagnsæ vinnubrögð við úthlutun.“

Hver er afstaða flokksins til nýrrar tilskipunar ESB, DSM tilskipunar svokallaðrar, sem er nú verið að þýða og innleiða í Mennta-og menningarmálaráðuneytinu? Einkum hvað varðar hinn svokallaða endurbirtingarrétt fjölmiðla (“press publication right”, sbr. 15. gr. tilskipunarinnar), og varðandi ábyrgð efnisveita, (“onlien contant sharing”, sbr. 17. gr. tilskipunarinnar).
Að mati Viðreisnar er jákvætt að reglur um rétt myndhöfunda séu gerðar skýrari og að stafrænn innri markaður Evrópu sé færður frekar inn í 21. öldina. Viðreisn hefur ekki mótað afstöðu til þessara tveggja ákvæða sem samtökin nefna sérstaklega.

Hver er afstaða flokksins til væntanlegrar myndlistarstefnu, sem meðal annars felur í sér skipun nýs myndlistarráðs, og hverjar telur flokkurinn að ætti að verða áherslur þessarar stefnu?
Athugið að hér er svarað um myndlistarstefnu, en ekki höfundaréttarstefnu.
Heildstæð myndlistarstefna er löngu tímabær. Við tökum undir með mennta- og menningarmálaráðherra að auka þurfi sýnileika myndlistar sem atvinnugreinar og ýta úr vegi hindrunum. Íslenskt listafólk hefur vakið mikla athygli á alþjóðavettvangi og tækifæri myndlistar eru veruleg. Áherslur Viðreisnar miða að jákvæðum hvötum sem styðja viðskipti með íslenska myndlist á heimsmarkaði og kynningu á íslenskum listamönnum á innlendum og erlendum vettvangi.

Hver er afstaða flokksins til núverandi stefnu stjórnavalda um aðgengi að menningararfinum?
Viðreisn getur aðeins svarað fyrir eigin stefnu sem snýst um að nýta tæknina til að gera aðgengi að menningararfinum sem mest. Þar þarf að fjárfesta í innviðum og nýta samkeppnissjóði til að styðja við vernd arfsins og aukið aðgengi almennings að honum. Í dag er utanumhald í málaflokknum of sundurlaust sem kann að verða til þess að ákveðinn hluti menningararfsins glatist. Til að sporna gegn því verður meðal annars að miðla inn í menntakerfið hvaða þýðingu það hefur að viðhalda menningararfi Íslands og styðja við stofnanir sem hafa það hlutverk með höndum.


 

Nýlegar fréttir