Baráttumál höfunda og samtaka þeirra fyrir sanngjarnri skattlagningu höfundaréttartekna hefur nú verið ráðið til lykta, en í gær voru samþykkt lög um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum). Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2020 og við álagningu á árinu 2021.
Með nýjum lögum skulu höfundaréttartekjur – greiðslur til höfunda og annarra rétthafa – eftir að verk hefur verið gert opinbert, teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar. Um er að ræða tekjur sem skapast vegna afnota en ekki tekjur af sölu eintaka eða öðru því líku.
Með lögunum lækkar því skatthlutfallið úr þrjátíu og sex prósentum niður í tutttugu og tvö prósent.
Myndstef fagnar ofangreindu, enda um að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir myndhöfunda.
Það fyrirkomulag sem áður var um að höfundaréttartekjur teldust til tekjuskatts þótti ekki endurspegla sanngirni vegna eðli höfundaréttar.
Nokkrar ástæður breytinganna eru:
– Það tíðkast ekki við aðrar erfðir að af þeim sé reiknaður tekjuskattur.
– Að auki hafa rétthafar höfundaréttar oft ekki haft sama tækifæri og verktakar við vinnu, á að skila kostnaði á móti tekjum og lækka þar skattstofn sinn.
– Að lokum styður nýja frumvarpið það sjónarmið að verk sem þegar hafa verið sköpuð séu ákveðin verðmæti, eign, og tekjur sem geta orðið til af þeirri eign eigi ekki að skattleggja á sama hátt og eiginlegt vinnuframlag.
Til nánari upplýsinga eru hér aðgengileg nefndarálit og lögin.
Myndstef áætlar að bjóða upp á kynningu á nýju fyrirkomulagi fyrir félagsmenn síðar meir. Það verður auglýst þá.