- Fréttir

Ljóst er að margir sjálfstætt starfandi myndhöfundar sem og aðrir verða fyrir tekjutapi vegna stöðunnar í samfélaginu.

Myndstef vill hvetja sjálfstætt starfandi myndhöfunda sem verða fyrir tekjutapi til að sækja um atvinnuleysisbætur sem fyrst, sérstaklega þar sem óvíst er hversu lengi þetta ástand mun vara. Það skiptir máli hvenær sótt er um bætur þar sem hver dagur telur. Þeir sem greitt hafa reiknað endurgjald af verktakatekjum eiga rétt til bóta og hægt að sækja um hlutabætur skv. lögum um atvinnuleysistryggingar (lög nr 54/2006). Þær eiga við þegar verktakatekjurnar eru einhver hluti tekna (aðrar tekjur gætu t.d. verið launþegavinna í kennslu).

Nýlega voru samþykkt á Alþingi tvö mál til að koma til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Annars vegar er það mál nr. 667, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, og hins vegar mál nr. 664, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall). Frekari upplýsingar um breytingarnar má m.a. finna hér.

Vinnumálastofnun sér um umsóknaferli og útborgun bóta. Athugið að verið er að vinna í umsóknarformi um greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli, það er ekki tilbúið þegar þessi frétt var uppfærð. Mikilvægt er að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu Vinnumálastofnunnar. Allar umsóknir munu gilda afturvirkt frá 15. mars og því þarf ekki að örvænta þótt ekki sé hægt að sækja um strax.

Frétt var uppfærð 24. mars 2020.


Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) tóku saman svör við ýmsum spurningum sem gott getur verið að renna yfir. Upplýsingarnar eru fengnar héðan.

Hverjir geta sótt um?
Þeir sem eru alfarið verktakar og líka þeir sem eru verktakar að hluta. Það að hægt er að njóta atvinnuleysisbóta þó að ekki falli allar tekjur niður. Ef vinna skapast tiltekinn dag og einn viðburður er haldinn þó aðrir falli niður þá er sá dagur einfaldlega felldur út úr talningunni á atvinnuleysisdögum þann mánuðinn. (Athugið að reiknaða endurgjaldið er líka vísbending um hvað séu tekjur á hverjum degi.)

Hvað fæ ég?
Til grundvallar liggur hvað umsækjandi hefur reiknað sér í endurgjald þ.e. af hvaða mánaðarlegu tekjum hefur verið greitt af á síðastliðnum 12 mánuðum á undan. Miðað er við tekjur sem greitt var tryggingargjald af. Gögn um tekjurnar þarf alltaf að hafa á reiðum höndum við umsókn. Vinnumálastofnun aflar upplýsinga beint úr staðgreiðsluskrá Skattsins en þarf í sumum tilfellum að fá frekari upplýsingar en koma þar fram.

Hvað ef ég hef einhverja vinnu?
Hafi viðkomandi tekjur einhverja daga reiknast viðkomandi dagar utan atvinnuleysisbótanna og þarf að tilkynna um þá vinnu í gegnum “Mínar síður” Vinnumálastofnunnar.

Hvað ef ég er með félag um rekstur minn?
Þeir sem eru með rekstur sinn á einkahlutafélagsformi (ehf) þurfa að skrá sig tímabundið af launþegaskrá til að geta sótt um atvinnuleysisbætur.

Hvenær fæ ég bæturnar?
Afgreiðslutími umsóknar getur verið milli 4-6 vikur en greiðsla er tryggð ef viðkomandi hefur áskilin réttindi.


 

Nýlegar fréttir