- Fréttir

Aðalfundur Myndstefs var haldinn í dag, 7. júní. Fundurinn fór fram í Grósku, hvar Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er staðsett.
Þar var m.a. farið yfir ársreikning með endurskoðanda samtakanna og skýrsla stjórnar lesin upp, en þau skjöl eru hluti af árlegri gagnsæisskýslu, sem eru nú aðgengileg á heimasíðu Myndstefs hér.

Samþykktar voru breytingar á samþykktum Myndstefs. Flestar breytinganna eru vegna breytinga á lögum (sérstaklega með tilkomu laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar), til þess að skýra ákvæði betur og tilvitnanir í rétt lög. Aðrar smávægilegar breytingar voru einnig gerðar. Ný grein var samþykkt inn í samþykktir, sem fjallar sérstaklega um verðskrá yfir höfundarétt vegna endurnota verka. Með nýju greininni var heitinu breytt úr gjaldskrá og í verðskrá. Uppfærðar samþykktir Myndstefs má finna hér.

Á fundinum voru einnig samþykktar breytingar á sjálfri verðskránni, en samþykktur var nýr verðflokkur undir Internet sem nefnist „Efnisdeiliþjónustur“. Þeim flokki er svo hægt að skipta í þrennt;

  • Til almennra opinbera nota
  • Í beinum viðskiptalegum tilgangi
  • Til einkanota

Ekki eru allir undirflokkarnir opinberir, en hann er þó til fyrir innri starfsemi samtakanna og verður notaður þegar DSM tilskipunin verður innleidd í íslensk lög.
Samþykkt var einnig breyting á heiti gjaldflokknum „myndbönd“, sem nefnist eftir breytingarnar „Hljóð-og myndmiðlaverk“. Þessar breytingar og verðskrá Myndstefs í heild sinni má finna hér.

Breytingar voru gerðar á „Reglum vegna skipan stjórnar og fulltrúaráðs Myndstefs“ þar sem sérstaklega var tilgreint að félög sem tilnefna í stjórn Myndstefs og fulltrúaráð skuli einnig tilnefna varamenn stjórnarsæta. Þá eru engin tímatakmörk á setu varamanna.

Niðurstöður úr gerðardómi IHM voru ræddar á fundinum, en dómur var úrskurðaður þann 27. maí. Frá því að ágreiningur hófst árið 2017 barðist Myndstef fyrir því að hlutur myndhöfunda af bótum vegna eintakagerðar til einkanota skyldi hækka, en önnur aðildarfélög IHM töldu hlutinn ætti frekar að lækka – og það umtalsvert. Skv niðurstöðu gerðardóms var hlutur myndhöfunda hækkaður úr ca 5,8% í 7%, sem er um 20% hækkun. Þetta var sigur sem var unninn með mikilli vinnu starfsmanna og lögfræðingi sem Myndstef réð sérstaklega fyrir þetta verkefni.

Á fundinum var engin stjórnarbreyting gerð en tilnefning Ljósmyndarafélags Íslands um áframhaldandi stjórnarsetu Guðmundar Skúla Viðarssonar til næstu þriggja ára var samþykkt.

Myndstef þakkar fundarfólki fyrir góðan og fróðlegan fund og fagnar almennum áhuga á höfundarétti og vitundarvakningu þar um.

Hér má finna ljósmyndir frá fundinum sem Ragnar Th. Sigurðsson tók:

Nýlegar fréttir