- Fréttir, Uncategorized

Frá vinstri: Rósa Dögg Þorsteinsdóttir úr stjórn Myndstefs, Ragnar Th. Sigurðsson stjórnarformaður Myndstefs og Vera Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri.

Vera Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Myndstefs. Hún kemur til með að stýra skrifstofu Myndstefs og halda utan um daglegan rekstur samtakanna, ásamt því að sinna fjölmörgum öðrum verkefnum.

Vera hefur afar mikla reynslu af stjórnsýslu og verkefnastjórnun, en áður starfaði hún hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og hefur starfað innan stjórnarráðs Íslands frá árinu 2009. Hún er menntaður lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur víðtæka reynslu af sérfræðistörfum á sviði lögfræði, alþjóðasamskipta og stefnumótunar. Þá hefur Vera fjölbreytta reynslu af félagsstörfum sem og stjórnunarreynslu og hefur setið í hinum ýmsu nefndum, ráðum og stjórnum.

Vera segist hlakka til að takast á við hin fjölbreyttu og áhugaverðu verkefni sem Myndstef kemur að, enda mikil áhugamanneskja um íslenska myndlist og menningu.

„Myndstef vinnur afar mikilvægt starf í þágu félagsmanna sinna. Mikilvægt er að styðja við starfsemi myndhöfunda, enda geta myndverk, endurbirting myndverka og umsýsla með þau verið afar margbreytileg. Það gefur augaleið að sjónlistir gegna veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi og hagsmunasamtök á borð við Myndstef eru lykilþáttur í að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna“ segir Vera.

Vera hefur þegar hafið störf og býður Myndstef hana velkomna. Um leið þakkar Myndstef fráfarandi framkvæmdastjóra, Aðalheiði Dögg Finnsdóttur Helland kærlega fyrir vel unnin störf.

 

Um Myndstef:

Myndstef eru höfundaréttarsamtök sem standa vörð um höfundarétt höfunda og höfundarétthafa sjónlista, þar með talið myndlistarfólks, ljósmyndara, arkitekta og hvers kyns hönnuða. Auk þess að stuðla að almennri höfundaréttargæslu á þessu sviði er tilgangur samtakanna er að fara með höfundarétt félagsmanna vegna opinberra endurbirtinga á verkum þeirra. Myndstef er umsýslustofnun um höfundarétt og innheimtir réttindatekjur fyrir hönd félagsmanna sinna og greiðir út til rétthafa. Myndstef veitir jafnframt félagsmönnum sínum lögfræðiráðgjöf um réttindi sín. Þá veitir Myndstef árlega verkefnastyrki og ferða- og menntunarstyrki til myndhöfunda.

Innan Myndstefs eru fjölmörg aðildarfélög úr listageiranum, en aðildarfélög Myndstefs eru: Arkítektafélag Íslands, Fatahönnunarfélag Íslands, Félag húsgagna- og innanhúsarkitekta, Félag leikmynda- og búningahöfunda, Félag íslenskra gullsmiða, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félag íslenskra myndlistarmanna, Félag íslenskra samtímaljósmyndara, Félag íslenskra teiknara, Félag vöru- og iðnhönnuða, Grafía, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Íslensk grafík, Leirlistafélagið, Ljósmyndarafélag Íslands, Myndhöggvarafélagið, Myndlistarfélagið, Samband íslenskra myndlistarmanna og Textílfélagið.

Myndstef er staðsett að Skólavörðustíg 12.

Nýlegar fréttir