- Fréttir

Umsóknafresti styrkja Myndstefs lauk á miðnætti 17. ágúst, en opnað var fyrir umsóknir þann 17. júní.

Í heildina bárust 156 umsóknir um verkefnastyrk og 73 umsóknir um ferða-og menntunarstyrk. Ekki hafa jafn margar umsóknir borist síðan árið 2018, en það mátti glögglega sjá fækkun á umsóknum vegna covid.

Úthlutunarnefndin hefur 17 milljónir til þess að veita í styrki þetta árið, sem er 2 milljóna króna hækkun frá síðustu tveimur árum, en aldrei hefur heildarfjármagn sem Myndstef veitir í styrki til myndhöfunda verið eins hátt.

Ný úthlutunarnefnd tekur til starfa núna, en hver nefnd situr í tvö ár. Starfar nefndin eftir sérstökum starfsreglum. Störf úthlutunarnefndar eru sjálfstæð, og óháð störfum stjórnar. Niðurstöður úthlutunarnefndar um styrkir eru ákvarðandi og endanlegar.
Samþykkt var á fulltrúaráðsfundi fyrr á árinu að úthlutunarnefnd styrkja Myndstefs skuli vera svo skipuð: 1 af sviði myndlistar, 1 af sviði ljósmyndunnar og 1 af sviði hönnunar og arkitektúrs.
Nefndin sem starfar 2022-2023 er tilnefnd af  Félagi íslenskra samtímaljósmyndara (FÍSL), Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Það er ljóst að mikil vinna er fram undan hjá nefndinni og því ekki hægt að lofa niðurstöðum á ákveðnum tíma, nema því sem getið er á um í úthlutunarreglum. Þar stendur „úthlutun fer eigi síðar fram en 2 mánuðum eftir auglýsingar umsóknarfrest“ – sem þýðir að styrkir verða greiddir út í síðasta lagi þann 17. október.

Athygli er vakin á því að vegna álags á vef Myndstefs síðustu daga (sérstaklega þann 17. ágúst) virðist sem svo að ekki fengu allir umsækjendur afrit umsókna á uppgefið netfang. Ef umsækjandi fékk ekki afrit sent til sín er viðkomandi vinsamlegast beðinn um að senda tölvupóst á myndstef@myndstef.is með fullu nafni umsækjanda og hvort sótt hafi verið um verkefnastyrk eða ferða-og menntunarstyrk. Þá verður afrit umsókna(r) sent til baka.

Nýlegar fréttir