Þann 2. febrúar 2024 undirrituðu Myndstef og Listasafn Reykjanesbæjar samning um eintakagerð, stafræna birtingu og aðgengi að afritum af safnkosti safnsins. Um er að ræða svokallaðan samningskvaðasamning sem heimilar birtingu á höfundavörðum verkum í safneign á rafrænum miðlum safnsins. Með samningum sem þessum er ætlunin að bæta aðgengi að menningararfi þjóðarinnar til kynningar, menntunar og fræðslu til skóla og almennings á grundvelli menningarstefnu stjórnvalda og safnalaga nr. 141/2011.
Myndstef fagnar bættu aðgengi almennings að verkum safnsins og óskar Listasafni Reykjanesbæjar til hamingju með að vera komin í hóp sístækkandi hóps safna sem undirritað hafa slíka samninga um rafrænt aðgengi.

Guðrún Erla Geirsdóttir stjórnarformaður Myndstefs og Helga Þórsdóttir forstöðukona Listasafns Reykjanesbæjar skrifuðu undir samninginn, með þeim á myndinni er Helga Arnbjörg Pálsdóttir sérfræðingur á Listasafni Reykjanesbæjar.