- Fréttir

Hér er að finna samantekt á tveimur málum sem hafa og munu hafa áhrif á réttindi höfunda.

Gerðardómur IHM

Niðurstöður Gerðardóms í svokölluðu IHM máli liggur nú fyrir.

Ágreiningur um skiptingar bóta vegna eintakagerðar til einkanota, milli rétthafasamtaka höfunda, framleiðenda og flytjenda, hefur staðið yfir síðan höfundalögum var breytt, árið 2016. Bæturnar skulu greiðast árlega til samtaka höfundaréttarfélaga með fjárveitingu samkvæmt fjárheimild í fjárlögum. Um 250 milljónir eru greiddar árlega til sameiginlegra samtaka höfundaréttarfélaga sem bera nafnið IHM. Þar eiga aðild 11 rétthafasamtök.

Sáttarmaður, Viðar Már Matthíasson, skilaði niðurstöðum um skiptingu þann 27. mars 2021, sem náði ekki samþykki 2/3 aðildarfélaga og var því felld. Var málið því sent til meðferðar gerðardóms.

Þann 9. og 10. maí 2022 fór fram aðalmeðferð í gerðardómi rétthafasamtaka IHM. Dómarar voru Helgi Ingólfur Jónsson, Hulda Árnadóttir og Kjartan Bjarni Björgvinsson. Dómsorð féll 25. maí s.l. og mun niðurstaða dómsins ná aftur til þess tíma, og gilda samanlagt í 10 ár. Fullnusta dómsins og uppgjör hans standa nú yfir, og fer vonandi fram næsta haust.

Hér er niðurstaða dómsins:

Blaðamannafélag Íslands 2%
Félag kvikmyndagerðarmanna (FK) 3,5%
Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ) 2,5%
Hagþenkir 4%
Myndstef 7%
Rithöfundasambandið (RSÍ) & Félag leikskálda og handritshöfunda 11%
Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) & Félag íslenskra leikara (FÍL) 28%
Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL) 10%
Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) 14%
Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) 18%

Aðildarfélögum Myndstefs er frjálst að áframsenda þessa tilkynningu og niðurstöðu til allra þeirra sem hlut eiga að máli, og hafa samband við  Myndstef ef frekari upplýsinga er þörf, eða til að fá aðgang að dóminum í heild sinni.

Myndstef fagnar þessum merkilegu tímamótum í sögu höfundaréttar, og þessari mikilvægu réttindabáráttu sjónlistarmanna, og fagnar því að mál þetta hafi loksins fengið sanngjarna og gagnsæa úrlausn óháðra dómara. Við óskum sjónlistamönnum til hamingju með niðurstöðuna, og þökkum sýndan stuðning og baráttuþrek.

 

DSM tilskipunin

DSM tilskipun Evrópusambandsins svokölluð (https://eur-lex.europa.eu/eli/dir/2019/790/oj) , var samþykkt á Evrópuþinginu árið 2019. Nokkur lönd hafa lögfest og innleitt hluta hennar inn í sín landslög, en sú vinna stendur nú yfir á Íslandi. Ætla má að tilskipunin verði innleidd í íslensk lög á næstu tveimur árum. Nú stendur yfir samráð við hagmunafélög, rétthafa, notendur, samskiptaveitur og aðra tæknirisa, um innleiðinguna og má nálgast umsagnir hagsmunaaðila hér, á samráðsgátt ráðnuneytisins: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3195 Myndstef hefur skilað inn ítarlegri umsögn um innleiðinguna sem nálgast má á ofangreindri vefslóð. Að auki hafa önnur hagsmunasamtök og aðildarfélög Myndstef skilað inn umsögn, sem einnig má nálgast á hlekknum.

Tilskipuninni er ætlað að samræma ýmsar reglur um höfundarétt og skyld réttindi sem varða hinn stafræna innri markað og notkun verndaðra verka yfir landamæri.

Hún tekur til ýmissa mikilvægra og tæknilegra atriða, eins og undanþágu frá einkarétti höfunda til að tryggja að texta- og gagnanám geti farið fram, sérstaklega hjá rannsókna- og menningarstofnunum; undanþágu vegna notkunar menntastofnana á höfundaréttarvörðu efni við fjarkennslu á netinu; ákvæða sem eiga að tryggja varðveislu menningararfs; ákvæða sem eiga að tryggja notkun menningarstofnana á höfundaréttarvernduðum verkum í þeirra umsjá sem eru ekki lengur fáanleg á almennum markaði (e. out-of-commerce) og heimildarákvæði um rétt útgefenda til hlutdeildar í tekjum vegna notkunar verka sem nýtt eru skv. undanþágum frá höfundarétti.

Þá eru í tilskipuninni:

  • Ákvæði (15. gr.) um nýjan tveggja ára einkarétt vegna útgefins fréttaefnis, vegna netnotkunar á greinum dagblaða og fréttaveitna gegn skyldu til að tryggja öllum höfundum innan fréttefnis viðeigandi hlutdeild í þóknun vegna endurnotkunar fréttaefnis á fjölmiðlavöktum og öðrum fréttaveitum. Þessi nýji einkaréttur á meðal annars að tryggja sjálfbærni fréttaveita og ýta þannig undir aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum.
  • Ákvæði (17. gr.) er ætlað að einfalda leyfisveitingar á milli rétthafa höfundaréttar og veitenda efnisdeiliþjónustu (efnisveitur og samfélagsmiðlar, t.d. Youtube, Google og Facebook/Instagram, Pinterest, Tumblr ofl). Slíkar efnisveitur veita aðgang að miklu magni höfundaréttarvarins efnis sem notendur hlaða upp, og má segja að slíkar efnisveitur séu orðin ein meginvettvangur til að nálgast skapandi efni. Ákvæðið setur einfaldari og skýrari reglur um leyfisveitingar milli efnisveita og rétthafa, og að slíkir leyfissamningar séu yfirleitt til staðar og virtir,ef efnisveitan reynist ekki hafa gert viðeigandi tilraunir til að stöðva meint höfundaréttarbrot. Eins tryggir ákvæðið að rétthafar geti bannað not ákveðinna verka innan efnisveitu.
  • Að lokum er að finna ákvæði um sanngjarnt, hlutfallslegt og viðeigandi endurgjald til höfundaog flytjenda í samningum til hagnýtingar á verkum þeirra eða listflutningi (t.d. vinnusamningar, uppkaupsamningar, útgáfusamningar, framleiðslusamningar og aðrir framsalssamningar), en í aðfararorðum tilskipunarinnar er viðurkennt að höfundar og listflytjendur eru oft í veikari samningsstöðu þegar þeir veita nytjaleyfi eða framselja réttindi sín og því sé mikilvægt að auka og skýra vernd rétthafa að því leyti. Kaflinn tiltekur skyldu um gagnsæi við slíka framsalssamninga og sölu og dreifingu verka sem innihalda verk höfunda, og réttur til að krefjast viðbótarendurgjalds ef nýting fer fram úr upphaflegum áformum. Þetta hefur verið kallað 3. kafli DSM tilskipunarinnar hér á landi.
Nýlegar fréttir