- Fréttir

Myndstef og Listasafn Reykjavíkur undirrituðu í dag samningskvaðasamning sem heimilar birtingu á stafrænum afritum af höfundavörðum verkum í safneign á rafrænum miðlum safnsins. Með samningnum er ætlunin að bæta aðgengi að menningararfi þjóðarinnar til kynningar, menntunar og fræðslu til skóla og almennings.

Listasafn Reykjavíkur gegnir lykilhlutverki í því að auka menningarlæsi og vitund um gildi myndlistar, stendur fyrir umfangsmikilli safnfræðslu allt árið um kring, auk þess sem safnið er vettvangur söfnunar, rannsókna og miðlunar á íslenskri myndlist. Samningskvaðasamningurinn er því mikilvægur til þess að tryggja aðgengi að höfundavörðum verkum á rafrænum miðlum safnsins.

Myndstef fagnar þessum áfanga og óskar Listasafni Reykjavíkur til hamingju með að vera komin í hóp þeirra safna sem hafa undirritað samning um rafrænt aðgengi að safnkosti.

Listasafn Reykjavíkur

Sigurður Trausti Traustason deildarstjóri í Listasafni Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ragnar Th. Sigurðsson, stjórnarformaður Myndstefs og Vera Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Myndstefs.

 

Opinber skjalasöfn, almenningsbókasöfn, háskólabókasöfn og önnur bókasöfn sem njóta opinberra styrkja í starfsemi sinni, önnur opinber söfn og söfn sem falla undir safnalög geta öðlast heimild til birtingar á stafrænum afritum höfundavarinna verka í safneign sinni, að því gefnu að gerður sé samningur um samningskvaðaleyfi á grundvelli höfundalaga (12. gr. b, sbr. einnig 26. gr. a), en það er safnaráð sem ákveður þóknun vegna slíkrar birtingar safna á grundvelli umfangs starfsemi viðkomandi safns.

Myndstef tekur vel á móti öllum söfnum sem vilja nýta heimild til birtingar á grundvelli samningskvaðasamnings.

Nýlegar fréttir