Myndstef og Borgarsögusafn undirrituðu í dag samningskvaðasamning sem heimilar birtingu á stafrænum afritum af höfundavörðum verkum í safneign á rafrænum miðlum safnsins. Með samningnum er ætlunin að bæta aðgengi að menningararfi þjóðarinnar til kynningar, menntunar og fræðslu til skóla og almennings.
Til Borgarsögusafns tilheyra Árbæjarsafn, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Viðey og Viðeyjarstofa sem og Landnámssýningin í Aðalstræti 16 og Reykjavík … sagan heldur áfram í Aðalstræti 10. Hlutverk Borgarsögusafns er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans. Safnið sinnir minjavörslu í Reykjavík og heldur skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í borginni.
Þrátt fyrir að höfundaréttur falli úr gildi 70 árum eftir lát höfundar, og mörg verk á Borgarsögusafni því ekki lengur undir höfundaréttarvernd, þá eru þó fjölmörg verk á Borgarsögusafni enn eru í vernd. Samningskvaðasamningurinn er því mikilvægur til þess að tryggja aðgengi að höfundavörðum verkum á rafrænum miðlum safnsins. Hægt er að lesa nánar um safnasamninga hér.
Myndstef fagnar þessum áfanga og óskar Borgarsögusafni til hamingju með að vera komin í hóp þeirra safna sem hafa undirritað samning um rafrænt aðgengi að safnkosti.