Í tilefni af sýningu Listasafns Íslands, Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir 12.4.2025-14.9.2025 hefur Myndstef unnið í samstarfi við Listasafn Íslands við að afla upplýsinga um falsanir og sérstaklega um hið svonefnda stóra málverkafölsunarmál og þau listaverk sem lágu til grundvallar í málinu. Sjá má verkin og umfjöllun dómstóla um þau hér.
Í gegnum aldirnar hafa list og listaverk gegnt lykilhlutverki í menningu, sögu og sjálfsmynd samfélaga. Þau eru ekki aðeins birtingarmynd skapandi hugsunar, heldur einnig spegilmynd mannlífs og menningar. Í þessu ljósi er fölsun listaverka ekki bara saklaus blekking, heldur ógn við heiðarleika listarinnar og menningarlegs trausts.
Út frá sjónarmiðum höfundarréttarins og höfundarlaga nr. 73/1972 getur fölsun listaverks falið í sér margþætt brot.
Í fyrsta lagi getur sá verknaður að eigna tilteknum listamanni verk með því að falsa höfundamerkingu talist vera brot á sæmdarrétti viðkomandi listamanns skv. 2. mgr. 4. gr. höfundalaga.
Í öðru lagi kann að vera að fölsun byggi á því að verki eins listamanns sé breytt og tileinkað öðrum, eða jafnvel að málað sé yfir verk eins listamanns til þess að verkið líti út fyrir að vera frá tilteknu tímabili. Í sumum tilvikum getur því verið um að ræða skemmdarverk á verkum eins listamanns, sem skaðar höfundaheiður hans og hugsanlega möguleika á höfundarréttartekjum vegna endurnota eða endursölu verks, um leið og brotið er á sæmdarrétti annars listamanns.
Í þriðja lagi kann fölsun að varða við 155. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Fölsun getur varðað fangelsi allt að 8 árum og því ljóst að löggjafinn lítur slíkt brot alvarlegum augum.
Fölsun listaverka er þó ekki aðeins skaðleg fyrir listamenn, heldur einnig fyrir neytendur, listaverkamarkaðinn og í raun samfélagið í heild. Segja má að traust sé hornsteinn listheimsins þegar kemur að viðskiptum með list. Hvort sem um ræðir verk í höndum safnara, sýningastjóra, safns eða fræðimanns, þá byggja viðskipti með list og umræða um list á gagnkvæmu trausti. Fölsuð listaverk raska þessu jafnvægi. Þegar verk er ranglega eignað frægum listamanni, er ekki aðeins verið að villa um fyrir kaupanda, heldur einnig að spilla fyrir heiðri listamannsins og hugsanlega rýra trúverðugleika þeirra sem koma að málum, t.d. sýnendur eða seljendur.
Slík svik hafa keðjuverkandi áhrif, traust almennings á listheiminum minnkar og spurningar vakna um trúverðugleika aðila á listaverkamarkaði, og getur slík háttsemi verið eins og segir í dómi Hæstaréttar nr. 161/1999 “skaðleg fyrir viðskiptaöryggi á listaverkamarkaði”.
Markaðsvirði listaverka byggist að miklu leyti á uppruna, einstökum stíl og mikilvægi innan listasögunnar. Þegar fölsun kemst í hendur safnara sem telur sig vera að fjárfesta í verðmætu verki, þá verður hann fyrir fjárhagslegu tjóni, sem getur numið háum fjárhæðum.
Listaverkafalsanir geta einnig falið í sér skaðleg áhrif á ýmsa aðra þætti, því list er mikilvæg heimild. Verk sem skapað er á ákveðnum tíma segir oft meira en skriflegar heimildir um samfélagið sem það spratt úr. Þegar falsað verk kemst í umferð og jafnvel í rannsóknir, sýningar eða fræðirit, getur það leitt til rangra ályktana um stíl, áhrif eða þróun viðkomandi listamanns eða listastefnu. Þannig getur fölsun haft skaðleg áhrif á akademískar rannsóknir, menntun og sögu.
Listaverkafalsanir geta haft í för með sér ýmis konar tjón fyrir listamenn, listaverkasala, kaupendur og samfélagið í heild, með því að blekkja, rýra traust og eyðileggja tengsl okkar við menningarlega arfleifð.
“Stóra málverkafölsunarmálið” skók listaverkamarkaðinn hér á landi fyrir rúmum tuttugu árum, en enn eimir eftir af afleiðingum þess og ætla má að talsvert sé um fölsuð verk í umferð. Þegar rætt er um stóra málverkafölsunarmálið er í raun um að ræða tvö dómsmál. Hægt er að lesa um málin og sjá þau verk sem fjallað var um fyrir dómi hér.
Það er umhugsunarvert að málið hafi ekki verið rannsakað né sótt á grundvelli höfundalaga, þrátt fyrir að til staðar hefði verið skýr lagaheimild þess efnis. Velta má fyrir sér hvort að önnur staða væri nú uppi ef tekið hefði verið á málinu á þeim grundvelli, og tekin afstaða til þess hvort gera skyldi fölsuð verk upptæk, eða að minnsta kosti falsaðar höfundamerkingar yrðu fjarlægðar.
Að mati Myndstefs þyrfti að skoða hvernig megi betur vernda listamenn fyrir fölsunum, sem og neytendur og listaverkamarkaðinn í heild. Til að mynda mætti styrkja regluverk á þann veg að seljendum (listaverkagalleríum og uppboðshöldurum) sé gert skylt að skrásetja eigendasögu listaverka ef mögulegt er. Þá telur Myndstef mikilvægt að efla fræðslu um höfundarétt, bæði til neytenda og til myndhöfunda. Loks er afar mikilvægt að hvetja starfandi listamenn til að halda skrár yfir verk sín og merkja þau með óyggjandi hætti.

Nature morte med blomster? eftir Wilhelm Wils.