Höfundaréttarfróðleikur – yfirtökulist og aðlaganir: Samantekt eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur.
Yfirtökulist, eða listræn yfirtaka, endurvinnsla eða lántaka án leyfis (e. adaptation and appropriation) er að verða þekkt fyrirbæri í listfræðinni.
Með listrænni yfirtöku er spurning um að endurhugsa þær myndir sem birtast okkur í hinu daglega lífi eða í gegnum listasöguna og endurmeta skilaboðin sem liggja þar að baki (heimild: Stjörnupopp Listræn yfirtaka í dægurmenningu, BA ritgerð, Inga Haraldsdóttir).
En hvernig koma hugtök höfundaréttarins og rétturinn sjálfur til álita við listræna yfirtöku?
Samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972, einkum 1. – 3. gr. þeirra laga, hefur höfundur einkarétt til notkunar verka sinna og eftir atvikum rétt til sanngjarnrar þóknunar vegna slíkra nota. Ef gera á eintök af verkum höfundar þarf því að afla leyfis, og greiða þóknun þar sem við á, og einnig þarf að geta nafns höfundar við slík not, sbr. 4. gr. laganna. Sama ákvæði leggur einnig bann við notkun sem að breytir verkinu eða misfer með það þannig að skert geti heiður höfundar og sérkenni. Um aðlögun er svo fjallað í 5. gr. laganna:
Sá, sem þýðir verk, aðhæfir það tiltekinni notkun, breytir því úr einni grein bókmennta eða lista í aðra eða framkvæmir aðrar aðlaganir á því, hefur höfundarétt að verkinu í hinni breyttu mynd þess. Ekki raskar réttur hans höfundarétti að frumverkinu.
Nýr höfundur öðlast þá höfundarétt á verkinu í breyttri mynd þess, en ekki raska slík not rétti frumhöfundar að frumverkinu. Það þýðir að aðlögun verka er einungis heimild að fyrir liggi samþykki höfundar, og eftir atvikum greiðslur vegna notanna.
Þó er heimilt fyrir nýja höfunda að verða fyrir áhrifum frá eldri verkum, en um það fjallar síðari málsgrein 5. gr. höfundalaga:
Nú hefur verk verið notað sem fyrirmynd eða með öðrum hætti við gerð annars verks, sem telja má nýtt og sjálfstætt, og er þá hið nýja verk óháð höfundarétti að hinu eldra. Í 6. gr. er einnig fjallað um safnverk, sbr.
Athuga skal að það er blæbrigðamunur á aðlögun og yfirtöku (adaptation and appropriation), þó vissulega geti verið þarna um nokkur svipuð höfundaréttarleg sjónarmið að ræða.
Aðlögun er skilgreind sem breyting á verki í annað form eða annan miðil, og getur einnig verið yfirfærsla af einum stað til annars, eða úr öðru samhengi í annað.
Yfirtökulist, eða lántaka án leyfis, gengur þó aðeins lengra, þar sem verk sem er þegar til í e-u samhengi, er afritað og sett í annað samhengi eða umhverfi og hefur þar sjálfstætt listrænt gildi. Verkið í sinni frummynd er því ákveðinn hluti af nýja verkinu, sem er með útkomu sinni að leiða í ljós nýja merkinu, og er td ætluð sem ádeila eða pólitískur listgjörningur, og á því td að fela í sér umbreytingu á þekktum hugmyndum, fyrirmyndum og hlutum, menningarlegum og félagslegum siðvenjum (Nwosu & Uchegbu og Þuríður Stefánsdóttir , „Eftirlíkingarskeiðið“ í hugmyndafræði Jean Baudrillard og hvernig það endurspeglast í gegnum myndlistarformið m.a. hjá René Magritte).
Athuga skal að Myndstef tekur almennt ekki afstöðu í málum er reyna á þessi mörk, og leggur ekki opinbert mat á hvort um eintakagerð eða aðlögun sé að ræða, né á líkindi umræddra verka, verkshæð eða frumleika, sjálfstæði og sérkenni eða annað sem getur skipt máli við mat á því hvort brotið sé á höfundarétti frumhöfundar eða hvort ný verk falli fremur undir áhrif frá eldri verkum eða höfundur hafi leitað þangað fyrirmyndar. Það er dómstóla að leggja mat á slíkt. Hlutverk Myndstefs er einkum að veita almennar og lögfræðilegar ábendingar vegna notkunar sjónlistaverka og varðandi höfundarétt sjónlistarfólks.
Þó ber þess sérstaklega að geta að Myndstef veitir ráðgjöf og gefur upplýsingar um fyrirhugaðar aðlaganir, og veita samtökin myndhöfundum upplýsingar og óformlegt mat á það hvort fyrirhuguð yfirtökulist eða aðlögun kunni að ganga of nærri frumverki frumhöfunda/r þannig að brot á höfundalögum komi til álita. Ef svo er getur myndhöfundur þá gripið til viðeiganda ráðstafana áður en til eintakagerðar eða birtingar nýs verks ræðir. Í öllum tilvikum mæla samtökin með því að höfundar leiti til samtakanna fyrirfram, til að taka af allan vafa í þessum efnum, og einnig mæla samtökin með því einkum af virðingu við sjónlistir almennt, að leyfa frumverkinu að njóta vafans. Ávallt er hægt að leita ókeypis óformlegrar ráðgjafar í þessum efnum hjá lögfræðingi Myndstefs.
Myndstef vill í því samhengi vekja sérstaka áherslu á að þó um yfirtökulist eða aðlögun sé að ræða, og ef leyfis er aflað og greiðslur greiddar fyrir aðlögunina (eftir atvikum), rýrir slíkt á engan hátt listrænt gildi nýja verksins, og hlýtur nýr höfundur höfundarétt að verkinu í hinni breyttu mynd þess.
Að lokum er mikilvægt að taka fram að ávallt er um mat að ræða, eins og fyrr segir, og geta skilin á milli aðlögunar og fyrirmyndar oft verið fremur óljós, og sjónarmið listfræðinnar um yfirtökulist og ádeilu, sem og paródíu og lántöku án leyfis, hafa hér einnig vægi.
Lögfræðingur Myndstefs hefur reynt að gera þessum skilum betri grein í kynningum og erindum, til dæmis við Listaháskóla Íslands, þar sem meðal annars var fjallað um málarekstur og ágreining vegna verka Andy Warhol, Jeff Koon, Damien Hirst, Scott Blake, ofl., en einnig var farið yfir framkvæmd og mál sem Myndstef hefur haft til afspurnar eða meðhöndlunar. Fyrirlesturinn ber heitið: “Kynning á höfundarétti í tengslum við aðlaganir í sjónlist – Lántaka án leyfis (e. appropriation), paródíur, almennur höfundaréttur og fair use”.
Í þeirri kynningu er freistað þess að skoða nokkur atriði til að skilja betur á um mörkin þarna milli. Ýmsir þættir geta skipt þar máli sem þó eru ekki lögfestir beint í íslenskan rétt, en er þó hægt að nota sem ágætis mælistiku, með ákveðnum fyrirvara. Lögfræðingur Myndstefs tekur þó fram að einungis er um ákveðin sjónarmið og atriði að ræða sem hægt er að líta til, en engar fastar reglur eru til í íslenskum rétti um mörkin á milli aðlögunar og fyrirmyndar.
Þau atriði sem geta skipt máli eru:
– “Fair use” sjónarmið, sbr. sambærileg sjónarmið og um sanngjörn not á íslensku, t.d. er nýja verkið notað í skólaverkefni, á sýningu í viðurkenndu listasafni, eða í keypta markaðsherferð, í auglýsingu eða framan á strætó?
– Staða frumhöfundar og nýs höfundar. Hafa höfundar notið mikillar velgengni og eru þekktir fyrir verk sín?
– Hver er tilgangur aðlögunar/yfirtökunnar? Háð, list í pólitískri merkingu, paródíur, osfrv.
– Hver er miðill frumverksins vs. nýja verksins? Hversu mikil er breyting á nýjum miðli frá frummiðli?
– Hver er framsetning nýja verksins? Listasýning, verk í opinberu rými eða er það verk eftir pöntun (e. commissioned work)?
– Hversu stór hluti af frumverkinu er notað? Hluti verks eða allt verkið?
– Hversu mikið er breytt af frumverkinu? Er um verulega eða óveruleg breytingu að ræða?
– Ruglingshætta. Getur almenningur ruglast á nýja verkinu og frumverkinu?
– Eigin rödd höfundar nýja verksins?
– Sæmdarréttur. Er sæmdarréttur brotinn, þó ekki hafi verið brotið á einkarétti frumhöfundar?
Eftir sem áður eru það ávallt dómstólar sem hafa síðasta orðið.
/HFS