Ágrip af sögu Myndstefs

Myndstef hefur í yfir þrjá áratugi staðið vörð um réttindi myndhöfunda á Íslandi. 

Upphafið

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar fór umræðan um höfundarétt myndhöfunda að verða háværari, sérstaklega með tilkomu fjölmiðlunar og aukinnar dreifingar myndefnis í bókum, auglýsingum og fjölmiðlum. Myndlistafólk, ljósmyndarar og hönnuðir stóðu gjarnan frammi fyrir því að verk þeirra voru notuð, oft án leyfis, án endurgjalds og án skýrra reglna. Þriðji aðili gat því hagnast á verkum listamanna án þess að listamaðurinn fengi nokkuð fyrir sinn hlut.

Þörfin fyrir sameiginlega hagsmunagæslu, fræðslu og kerfisbundna réttindagæslu varð ljós. Frá stofnun Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM, árið 1982 hafði verið umræða um þessi málefni. Knútur Bruun, hæstaréttarlögmaður, hafði stundað nám í höfundarrétti í Kaupmannahöfn er þáverandi formaður SÍM, Guðný Magnúsdóttir, bauð honum stöðu sem lögfræðilegur ráðunautur SÍM, sem hann þáði. Þremur árum síðar, í febrúar árið 1991 var Myndstef stofnað sem samtök rétthafa myndverka á Íslandi. Tilgangurinn var að berjast fyrir því að höfundarréttur sjónlistafólks væri tekinn alvarlega og honum sýnd virðing, í samræmi við höfundalög (sjá hlekk).

Upphaflega átti Myndstef að vera hagsmunasamtök myndlistarmanna en ákveðið var að samtökin skyldu vera regnhlífarsamtök sem myndu ná utan um alla myndhöfunda og sjónlistafólk, sem gerði samtökin öflugri fyrir vikið. Knútur Bruun var fyrsti formaður samtakanna og jafnframt framkvæmdastjóri Myndstefs. Hann lagði áherslu á að fjármagn Myndstefs skyldi renna til sjónlistafólks. Við stofnun Myndstefs var þó lítið sem ekkert fjármagn til staðar og því var, eins og gefur að skilja, uppdráttur félagsins nokkuð erfiður. Þökk sé seiglu og þrautseigju þeirra sem komu að starfseminni í upphafi náði Myndstef fótfestu hér á landi. Í kjölfarið voru gerðir samningar við ýmsa aðila um höfundarétt myndhöfunda. Um svipað leyti var jafnframt háð barátta um að tryggja löggjöf hér á landi um fylgirétt, höfundaréttargjald við endursölu og uppboð listaverka. Náðist það með góðu samstarfi við stjórnvöld og lög um fylgirétt tóku gildi hér á landi til hagsbóta fyrir listafólk. Frá upphafi stofnunar Myndstefs hefur verið leitast við að greiða sem mest af innheimtu fjármagni beint til myndhöfunda. 

Fljótlega eftir stofnun Myndstefs fengu samstökin aðild að Fjölís, og í kjölfarið að Innheimtumiðstöð rétthafa, IHM. Það voru miklir áfangasigrar í starfsemi Myndstefs. Í kjölfarið jókst það fé sem Myndstef var falið að koma áleiðis til sjónlistafólks. Myndstef hóf því að koma þessu fjármagni til myndhöfunda með því að auglýsa eftir umsóknum til verkefna og var fjármagni lengi vel úthlutað sem styrkjum til myndhöfunda. Á síðari árum fer úthlutun ávallt fram beint til höfunda þar sem því verður við komið, en þegar um er að ræða óhöfundagreinanlegar höfundaréttartekjur, er þeim úthlutað úr höfundaréttarsjóði Myndstefs, samkvæmt stefnum Myndstefs um úthlutanir hverju sinni. Er bæði úthlutað vegna verkefna, en einnig er úthlutað styrkjum vegna ferða, menntunar- og vinnustofustyrkja. Stór áfangi náðist þegar Myndstef náði samkomulagi við flest starfandi söfn hér á landi og eru nú flest söfn með safnasamninga við Myndstef, vegna birtingu verka á netinu. 

Frá gildistöku laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar, árið 2020, hefur Myndstef lagt mikið upp úr því að fylgja lögunum í hvívetna og liður í því hefur verið að gefa út árlega gagnsæisskýrslu um starfsemi samtakanna (hlekkur). Jafnframt sótti Myndstef um aðild að CISAC sem eru alþjóðleg samtök höfundaréttarsamtaka. Myndstef leggur mikið upp úr því að gera samstarfsamninga við erlend systurfélög. Frá upphafi hefur það verið mikilvægur liður í starfsemi Myndstefs að eiga gott samstarf við systursamtökin á Norðurlöndunum.

Myndstef starfar á grundvelli laga um höfundarétt og hefur starfað samkvæmt viðurkenningu ráðuneytis höfundarréttarmála frá upphafi, en Myndstef hlaut síðast formlega viðurkenningu Menningar- og viðskiptaráðuneytis til sameiginlegrar umsýslu höfundaréttinda þann 7. október 2024. Myndstef hefur því heimild til að veita leyfi og innheimta gjöld fyrir hönd höfunda sem hafa veitt samþykki sitt, og getur í sumum tilvikum gert samningskvaðasamninga fyrir alla myndhöfunda. 

Frá upphafi hefur meginhlutverk Myndstefs verið tvíþætt:

  1. Að gæta höfundarréttar og veita upplýsingar til þeirra sem skapa myndverk og erfingja þeirra.
  2. Að semja um, innheimta og úthluta greiðslum fyrir notkun myndverka, m.a. í fjölmiðlum, bókaútgáfu, auglýsingum og birtingu á netinu.

Flestir meðlimir Myndstefs eru jafnframt meðlimir í öðrum fagfélögum sjá: (hlekk). Aðildarfélögin sem komu að stofnun Myndstefs voru SÍM, Ljósmyndarafélag Íslands, Grafískir teiknarar, Félag íslenskra teiknara og Ljósmyndamiðstöð. 

Fyrsti formaður Myndstefs og jafnframt framan af framkvæmdarstjóri, var Knútur Bruun (1991-2013) síðan tók Ragnar Th. Sigurðsson við formannshlutverkinu á árunum 2014-2022 og núverandi formaður er Gerla, Guðrún Geirsdóttir, síðan árið 2023. Knútur Bruun var gerður að heiðursfélaga Myndstefs árið 2014 (sjá hlekk) og var hann jafnframt sæmdur Gullmerki félagsins árið 2018.


(Ragnar Th. Sigurðsson og Knútur Bruun)

Fjöldi góðra starfsmanna hefur starfað hjá Myndstef í gegnum tíðina og hjálpað til við að byggja upp starfið, þar á meðal Linda Rós Thorarensen framkvæmdastjóri, Þórhildur Laufey Sigurðardóttir framkvæmdastjóri, Ólöf Pálsdóttir framkvæmdastjóri, Aðalheiður Dögg Finnsdóttir framkvæmdastjóri og Harpa Fönn Sigurjónsdóttir lögfræðingur. Núverandi framkvæmdastjóri Myndstefs er Vera Sveinbjörnsdóttir, lögfræðingur. 

Framtíðin

Í upphafi snerist starf Myndstefs að miklu leyti um prentaðar bækur, tímarit og sýningar. Í dag er stór hluti verkefna tengdur stafrænum vettvangi: samfélagsmiðlum, netmiðlum, vefútgáfu og dreifingu efnis á netinu. Með tilkomu gervigreindar, sjálfvirkrar myndgerðartækni og örri miðlun á netinu hafa verkefnin og áskoranir Myndstefs breyst. Samtökin sinna nú einnig ráðgjöf til listafólks um stafræna miðlun, úrvinnslu mála vegna óleyfilegrar notkunar myndefnis á netinu, fræðslu fyrir bæði listafólk og notendur varðandi réttindi og skyldur þeirra sem nota myndefni frá myndhöfundum á netinu. Einnig hefur Myndstef í gegnum tíðina verið mikilvægur málsvari myndhöfunda í lagasetningu og stefnumótun. Samtökin hafa m.a. tekið þátt í endurskoðun höfundalaga, átt í samráði við ráðuneyti, menningarstofnanir og samtök. Einnig hefur Myndstef  greint bæði tekjumöguleika listafólks og þörfina fyrir umbætur á stafrænum markaði. Sú mynd sem við lifum með í dag, bæði í raunheimum og stafrænum, er mótuð af höfundum. Myndhöfundar standa á tímamótum með nýrri tækni og nýjum áherslum. Myndstef heldur áfram að þróast með nýjum tímum, en kjarni starfsins breytist ekki: að standa vörð um réttinn til að skapa, eiga og að myndhöfundar njóti ávaxta verka sinna.