Stóra málverkafölsunarmálið

Svokallað “Stóra málverkafölsunarmálið” eins og það hefur verið kallað á rætur að rekja til þess að grunur vaknar um að fölsuð verk hafi ratað á íslenskan listaverkamarkað. Ólafur Ingi Jónsson,  forvörður sem starfaði á þessum tíma sem sjálfstætt starfandi forvörður vakti fyrst athygli á þessum grundsemdum og kærði verk til lögreglu árið 1997. Taldi Ólafur að allt að 900 verk á íslenskum listaverkamarkaði væru fölsuð.

Í kjölfarið fór fram ítarleg greiningarvinna á fjölmörgum listaverkum. Margir komu að rannsókninni hjá lögreglu, listfræðingar, efnafræðingar, forverðir og fleiri en hlutur forvarðanna Viktors Smára Sæmundssonar og Rannvers H. Hannessonar var mjög þýðingarmikill. Viktor Smári hafði sérhæft sig í málverkum en Rannver í pappírsverkum.

Í raun er um að ræða tvö dómsmál og er hér að neðan hægt að sjá þau verk sem fóru fyrir dóm.

Stóra málverkafölsunarmálið – fyrri hluti

Í hinu fyrra dómsmáli, féll dómur Hæstaréttar þann 4. nóvember 1999 (Hrd. 161/1999), og var sakfellt fyrir sölu á þremur fölsuðum málverkum sem eignuð voru Jóni Stefánssyni. Rannsókn verkanna leiddi í ljós óyggjandi sannanir fyrir því að verkin hefðu í raun verið gerð af dönskum samtíðarmanni Jóns Stefánssonar, Wilhelm Wills.

Í málinu var talið sannað að þrjú verk sem ákærði í málinu keypti á uppboðum hjá danska uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen, og öll voru verk danska málarans Wilhelm Wils og auðkennd honum, voru seld hjá Gallerí Borg árituð nafni íslenska málarans Jóns Stefánssonar. Var talið sannað að áritun Wils hefði verið slípuð niður með sandpappír og hulin málningu og verkið merkt á ný. Sýndu rannsóknir að málningin á árituninni og undir henni innhéldu alkýðbundin efni sem var yngri gerðar en svo að Jón Stefánsson hefði haft tök á að nota það. Báru kaupendur verkanna allir að það hefði verið ákvörðunarástæða kaupanna að þau voru talin eftir íslenska málarann.

Ekki reyndist mögulegt að sanna hver hefði falsað verkin.

 

Niðurstöður úr dómi Hæstiréttar Íslands frá 4. nóvember 1999, í máli nr. 161/1999

Opstilling med potteplante samt liggende nögen model e. Wilhelm Wils.

Opstilling med potteplante samt liggende nögen model e. Wilhelm Wils.

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök að hafa keypt málverkið „Opstilling med potteplante samt liggende nögen model“ eftir danska málarann Wilhelm Wils á uppboði nr. 33 í Vejle 18. ágúst 1994, afmáð höfundarmerkingu listamannsins og selt það með blekkingum sem verk Jóns Stefánssonar listmálara á uppboði nr. 6 á Akureyri 21. maí 1995, eins og nánar er lýst í ákæru.

Verkið var slegið kaupanda á uppboðinu á 50.000 krónur. Þegar hann fór með verkið til viðgerðar í Morkinskinnu vöknuðu grunsemdir um að verkið væri ekki eftir Jón Stefánsson og í framhaldi kæru hófst rannsókn málsins, eins og fram er komið.

Hér að framan hefur verið lýst hvaða sérfræðingar komu að rannsókn málverksins að beiðni ríkislögreglustjóra og niðurstöðu þeirra rækilega lýst. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa, sem skimaði litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi, gáfu þær rannsóknir til kynna, „að höfundarnafnið „Wils 12“ hafi annað hvort verið máð út eða að málað hafi verið yfir það, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og nánar er lýst hér að framan.“ Að sambærilegri niðurstöðu komst Viktor Smári Sæmundsson, forvörður hjá Listasafni Íslands, er hann rannsakaði og tók ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og kannaði einnig hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálingu væri eldri undirritun finnanleg. Kemur þar fram að ofan á „gamalt“ fernislag, sem lykur yfirborð litalags, sé víða búið að mála í verkið án sýnilegs tilgangs nema e.t.v. til að dreifa athygli frá yfirmálun á höfundarmerkingu. Reynt hafi verið að eyða höfundarmerkingunni „Wils 12“ af yfirborði málverksins, en höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ virtist að hluta hafa verið máluð ofan á yfirmálunarlit, sem samkvæmt flúrljómun í útfjólubláu ljósi, sé ekki ýkja gamall. Yfirgnæfandi líkur séu á því að málverk þetta, sem sýnilega er höfundamerkt „Jón Stefánsson“, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins sé að öllum líkindum Wilhelm Wils, sem var danskur málari fæddur í Danmörku árið 1880.“

Haraldur og Viktor Smári hafa báðir komið fyrir dóminn og staðfest verk sín og útskýrt nánar rannsóknir sínar og niðurstöður þeirra, meðal annars með VSC tækinu og myndskyggnum. Gafst dómendum og sakflytjendum færi á því að sjá með berum augum í VSC tækinu framhlið myndarinnar, einkum svæðin þar sem undirritunin „Jón Stefánsson“ er á verkunum og á önnur svæði, sem sérstaklega er vikið að í rannsóknum Haraldar og Viktors Smára. Dómendur eru sammála um það að ljóslega mátti greina með berum augum áletrunina Wils 12. Þá var framburður þeirra beggja trúverðugur og þeir sjálfum sér samkvæmir. Þeir tóku sýnishorn úr málverkinu og sendu dr. Sigurði Jakobssyni til litrófsrannsóknar, eins og lýst er hér að framan. Staðhæfði dr. Sigurður fyri dóminum að sú aðferð, sem hann notaði við rannsókn sína á bindiefnum þeim sem fundust í sýnunum, litrófsgreining með innfrarauðum geisla, væri mjög áreiðanleg og niðurstaða hennar ótvíræð. Eins og fram er komið greindi dr. Sigurður alkýð í svörtum lit sem tekinn var úr áritun neðst til hægri á myndinni og einnig neðarlega á vinstri jaðri, þar sem grunur lék á yfirmálun. Fram kom í vætti hans fyrir dóminum að olíulitir sem listamenn noti, væri lengi að þorna, jafnvel ár. Alkýð þornaði hins vegar mjög fljótt og væri það sett út í olíuna til þess að hún þorni fyrr. Við prófun vitnisins hafi komið í ljós að yfirborð, málað með alkýð, væri orðið hart á sólarhring. Viktor Smári bar á sama veg um þetta atriði, en hann sagði einnig að alkýðlitir, sem notaðir hafi verið af listamönnum, hafi fyrst komið á markað í túbum um 1978, en efnið hafi verið þekkt áður í iðnaðarmálningu og komið sem slíkt hingað lands í kringum 1930. Litabindir til að setja í olíu hafi verið til hér á landi frá árinu 1973. Alkýð hafi einni verið notað í afar þunna liti, „tómstundaliti“. Taldi vitnið ólíklegt að Jón Stefánsson hafi notað iðnaðarmálningu eða slíka liti til að undirita málverk sín, sérstaklega að svo hafi hann gert í mörgum mynda sinna.

Skimun málverksins, sem lýst hefur verið hér að framan og dómendur sáu sjálfir í dóminum, er í samræmi við rannsóknir og niðurstöður sérfræðinganna Viktors Smára Sæmundssonar og dr. Sigurðar Jakobssonar, sem lýst hefur verið rækilega í I. kafla A. Rannsóknir þeirra sýna að mjög sterk fylgni var milli ljómageislunar sem fram kom við ljósmyndun af málverkinu undir útfjólubláu ljósi og niðurstöðu litrófsrannsókna á bindiefninu.

Af þessum rannsóknum og trúverðugum framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega í ljós leitt að höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ sem var á málverkinu þegar það var selt 21. maí 1995 á uppboði nr. 6 á Akureyri var ekki máluð af Jóni Stefánssyni. Sú niðurstaða styðst einnig við vitnisburð Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og greinargott álit og vætti Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings, sem sérstaklega hefur lagt sig eftir list Jóns og annarra frumkvöðla í íslenskri myndlist, en þau hafa bæði borið að fátt í þessu verki beri höfundareinkenni Jóns Stefánssonar og verkið fari mjög á skjön við það sem sé rauður þráður í verkum hans. Þetta kemur bæði fram í áliti Júlíönu og trúverðugum og greinargóðum framburði hennar fyrir dóminum, sem hún meðal annars útskýrði með sýningu litskyggna af verkum höfundarins til samanburðar þessu verki.

Framburður þessara vitna kemur einnig heim og saman við gögn og vætti annarra vitna, sem renna sterkum stoðum undir það að málverk þetta sé eftir Wilhelm Wils og hafi verið selt á uppboðinu nr. 33 í Vejle 18. ágúst 1994, eins og nú verður rakið.

Stærð málverksins og lýsing á fram- og bakhlið málverksins „Opstilling med potteplante samt liggende nögen model. Dobbeltmaleri“, sem merkt er nr. 1125 á uppboðsskránni á uppboði nr. 33 í Vejle eftir Wilhelm Wils, kemur kemur heim og saman við málverkið „Uppstilling“, sem merkt var nr. 69 á uppboðsskrá uppboðs Gallerís Borgar nr. 6 á Akureyri 21. maí 1995. Aftan á málverkinu, sem málað er á þykkpappa, er mynd af nakinni konu, en það kemur einnig fram í lýsingu á verkinu í uppboðsskrá uppboðsins í Vejle. Svo sem lýst er hér að faman hefur vitnið Hans Jensen komið fyrir dóminn og staðfest að hann hafi selt þessa mynd á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Er sá framburður í samræmi við vitnisburð Sven Juhl Jörgensen, starfsmanns Bruun Rasmussen í Vejle, sem staðfesti og lagði fram gögn um að Hans hefði afhent mynd nr. 1125 og aðra mynd (1126, sbr. síðar) til sölu á uppboði nr. 33. Hans Jensen sýndi lögreglumönnum við rannsókn málsins uppboðsskrá þessa uppboðs og kvað myndina þar vera nr. 1125. Lýsti hann einnig myndinni og kom lýsingin heim og saman við málverkið „Uppstilling“. Við skoðun þessarar skrár, er engin önnur mynd, sem hér getur átt við. Hans Jensen hefur fullyrt, að myndina, sem hann sá í dómsalnum, sé eftir Wilhelm Wils, og hana hafi hann keypt fyrir fyrirtæki sitt á uppboði hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn nr. 489 árið 1986. Þessu til staðfestingar hefur hann lagt fram fylgiskjal úr skrám fyrirtækisins. Sagðist Hans meðal annars bera kennsl á myndina, þar sem þetta væri eina myndin sem hann hafi átt, er Wils hafi málað á svona plötu, og sú eina sem hann hefði átt eftir Wils þar sem mynd væri af nakinni konu á bakhliðinni. Afhenti hann auk ljósrita úr báðum uppboðsskránum, nokkrar polaroidmyndir, sem hann kvaðst eiga af málverkunum eftir Wils. Bersýnilegt er af stækkuðum litljósritunum þessara mynda að þær eru merktar „Wils“ í hæra horni að neðanverðu með rauðu. Þessar myndir eru mjög áþekkar að allri gerð myndunum sem mál þetta snýst um og ein þeirra er nauðalík myndinni í 1. lið ákæru, svo sem síðar verður vikið að.

Stærð málverksins kemur einnig heim og saman við lýsingu og stærð á málvekinu nr. 422, er selt var á uppboðinu hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn nr. 489, sem fram fór dagana 9. og 10. desember 1986, en þar er myndin sögð vera eftir Vilh. Wils, og heita „Pelargonie på et bord“. Kemur fram í uppboðsskránni að myndin sé árituð „Wils“. Þar að auki hefur vitnið Claus Poulsen forstjóri hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn staðfest við meðferð málsins að númerin í horni aftan á ytri ramma myndarinnar, sem hann skoðaði í dóminum, 422/489 með hring utan um, þýddu að þetta málverk hafi verið nr. 422 í uppboðsskrá á uppboði fyrirtækisins síns nr. 489 og staðhæfði að fyrirtæki hans merkti allar innkomnar myndir með þessum hætti, þ.e. hring utan um númer myndar fyrir ofan strik og númer uppboðsin fyrir neðan það strik. Annað þeirra ljósrita, sem Hans Jensen afhenti við rannsókn málsins, var úr uppboðsskrá þessa uppboðs og benti hann jafnframt á, að myndin sem hann keypti á uppboði nr. 489 væri merkt nr. 422 á uppboðsskránni. Vitnið sagði jafnframt að litljósmyndirnar tvær af áþekku málverki á heimili Jónasar Freydal, sem ákærði afhenti við rannsókn málsins, væru ekki af málverkinu, sem hann keypti á uppboði nr. 489 hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn og seldi á uppboðinu í Vejle.

Verður nú vikið að framburði ákærða um málverkið og þeirri staðhæfingu hans að það sé allt annað en málverkið, sem selt var nr. 1125 á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994.

Eins og rakið hefur verið var ákærða ítrekað gefinn frestur á því að svara fyrirspurnum lögreglu um þetta verk. Í svarbréfí lögmanns hans 29. október 1997 um verkið kemur fram að myndin hafi verið keypt í Kaupmannahöfn, en engin frekari gögn væru því til staðfestingar. Í fyrstu lögregluyfirheyrslu 11. nóvember sama ár kvaðst ákærða ráma í að hafa keypt myndina í Kaupmannahöfn, en ekki í Vejle. Er honum var bent á að grunur léki á því að myndin væri höfundararmerkt öðrum listmálara sagði hann, að honum dytti helst í hug að hann hafi keypt ódýra mynd í stórum góðum ramma á uppboðinu í Vejle árið 1994, en síðan sett mynd eftir Jón Stefánsson í rammann. Við skýrlsugjöf um hálfum mánuði síðar var honum kynnt niðurstaða Haraldar Árnasonar á höfundarmerkingu málsverksins. Kvaðst hann þá minnast þess að hafa keypt nokkrar myndir eftir Júlíönu Sveinsdóttur í Vejle á uppboði 1994, en mundi ekki sérstaklega eftir mynd nr. 1125 eða hvernig sú mynd leit út. Síðar í sömu yfirheyrslu er haft eftir ákærða, að hann hafi tekið myndina eftir Wilhelm Wils, nr. 1125 á uppboðinu, úr rammanum ásamt annarri mynd eftir sama höfund (sjá síðar í kafla B, um 1. lið ákæru), en skilið sjálf málverkin eftir hjá Jónasi Freydal í Kaupmannahöfn og farið síðar með rammana heim til Íslands í þeim tilgangi að nota þá utan um aðrar myndir hér heima og taldi að rammarnir hafi verið notaðir utan um einhverjar myndir sem Gallerí Borg eða hann sjálfur átti. Það var fyrst í þessu þinghaldi sem ákærði sýndi ljósrit af greiðslukvittun, sem lýst var hér að framan, sem hann taldi vera vegan sölu myndarinnar, sem hér er fjallað um. Sagðist hann hafa keypt myndina af einhverjum manni, S. Hansen, eins og kvittunin bæri með sér, sem hann ekki þekkti. Nokkrum dögum síðar fullyrti ákærða í yfirheyrslu lögreglu að verjanda sínum viðstöddum, að hann hafi keypt myndina sem númeruð er nr. 1125 á uppboðinu í Vejle og skilið hana efir hjá Jónasi Freydal, en hann sagðist ekki vera viss um hvort hann tók rammana af myndinni og tók með sér heim eða skildi myndina eftir í rammanum hjá Jónasi. Eins og lýst er hér að framan sagði ákærði í þessari yfirheyrslu að hann væri nú með undir höndum litljósmyndir af ljósmyndum sem hann kvað teknar í íbúð Jónasar í Kaupmannahöfn. Þessar ljósmyndir afhenti hann tveimur dögum síðar og ítrekaði í yfirheyrslu þann dag að hann hafi látið Jónas fá málverkið nr. 1125 sem hann keypti í Vejle. Hann vildi ekki segja hvar eða hvenær hannn fékk þessar myndir. Enn ítrekaði ákærði þennan framburð í yfirheyrslu 11. desember sama ár og hér fyrir dómi og staðfesti að famangreind kvittun Bruun Rasmussen, frá 18. ágúst 1994 stíluð á hann, væri vegna kaupa sinna á myndinni nr. 1125, sem hann afhenti Jónasi Freydal. Eins og að framan er lýst ber sú kvittun með sér að mynd nr. 1125 sé eftir Wilhelm Wils og seld á 1.600 D. kr.

Ofangreindur framburður ákærða er bæði óstöðugur og afar ótrúverðugur. Hann er einnig í andstöðu við annað, sem fram er komið í málinu um þetta málverk, sem lýst hefur verið hér að framan. Gögn þau sem hann hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, ofangeind kvittun og litljósmyndir, eru heldur ekki traustvekjandi eða trúverðug. Tvær þeirra litljósmynda sem ákærði afhenti og sagði vera af mynd nr. 1125 á uppboðinu í Vejle, teknar á heimili Jónasar Freydal, eru í fljótu bragði eins og málverkið sem hér er fjallað um og selt var á uppboðinu á Akureyri. Við nánari skoðun sést hins vegar að svo er alls ekki. Þannig er eitt blóm á pottablóminu á málverkinu, en tvö á ljósmyndinni og blá krús er ekki á sama stað á verkunum. Ákærði framvísaði kvittunina frá einhverjum S. Hansen, sem hann vissi engin deili á, seint og síðar meir. Þessi kvittun fannst ekki í bókhaldi Gallerís Borgar eða öðrum gögnum þess, en á kvittunina er stimplað heiti gallerísins. Eins og hér er í pottinn búið og litið til annars sem fam er komið verður ekki annað séð en að þessi kvittun sé tilbúningur einn. Framburður vitnisins Jónasar Freydal um litljósmyndirnar tvær af því verki, sem hann og ákærði segja að sé af myndinni, sem keypt var á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994, er einnig mjög ótrúverðugur og stenst ekki þegar litið er til þess, sem lýst hefur verið hér að framan. Vætti hans um sakarefnið í máli þessu var með miklum ólíkindum og frásögn hans lítt trúverðug, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Þótt ákærði hafi greitt virðisaukaskatt af myndinni samkvæmt ofangreindri kvittun breytir það engu um þessa niðurstöðu, enda er ekki ólíklegt að það hafi hann einmitt gert til þess að svo liti út sem myndin nr. 1125, og einnig mynd nr. 1126 eins og síðar verður rakið, sem hann keypti á uppboðinu í Vejle hafi ekki farið frá Danmörku og hingað til Íslands.

Þegar allt framangreint er virt þykir fram komin lögfull sönnun þess að mynd sú sem seld var nr. 69 á uppboði Gallerí Borgar nr. 6 á Akureyri, 21. maí 1995, var sama verk og selt var nr. 1125, eftir Wilhelm Wils, á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994, svo og að myndina keypti ákærði sjálfur á sínum vegum eða vegum fyrirtækis síns, Gallerís Borgar.

Ákærði keypti myndina á 1.600 danskar krónur á uppboðinu í Vejle, en fram er komið að verk Wils eru ódýr verk, og seldi hana síðar á uppboðinu á Akureyri, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, á 50.000 íslenskar krónur. Kaupandi myndarinnar, hefur borið að þótt honum hafi litist vel á myndina hafi forsenda kaupanna verið sú að myndin var merkt Jóni Stefánssyni. Kaupandi hefur ekki lagt fram skaðabótakröfu í málinu.

Ekki hafa verið lögð fram gögn um það af hálfu ákæruvalds sem sýna fram það, að ákærði hafi sjálfur afmáð höfundarmerkinguna af málverkinu og sett á það höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar, eins og honum er að sök gefið í ákæru. Verður hann því ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þó má telja víst að það hafi hann getað gert, þar sem ákærði er lærður myndlistarmaður. Hins vegar þykir fullsannað af því sem rakið hefur verið hér að framan, að ákærði seldi málverkið með blekkingum og í auðgunarskyni, eftir að hann eða einhver annar sem hann fékk til þess, breytti málverkinu með ofangreindum hætti. Ónákvæmni í ákæru að því er þetta varðar kemur ekki að sök, enda var vörn ekki áfátt um þetta atriði, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þótt fallast megi á það að ágóði ákærða af sölu þessarar myndar hafi ekki verið ýkja mikill, þegar tekið er tillit til greiðslu uppboðskostnaðar og virðisaukaskatts, sem greiddur var í Vejle og ýmiss kostnaðar við uppboðið hér á landi, þykir allt að einu ljóst að málverkið var selt í auðgunar- og blekkingarskyni, þar sem verkið var ranglega höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, sem er einn virtasti málari okkar Íslendinga og frumkvöðull á sínu sviði. Myndir þessa látna málara hafa verið margfalt dýrari en verk Wilhelms Wils og hlaut það að vaka fyrir ákærða að fá hærra verð fyrir myndina af þeim sökum svo sen raunin varð.

Sú háttsemi, sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir, varðar við 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998, og 248. fyrrgreindra laga. Af hálfu verjanda hefur því verið haldið fram að sök sé fyrnd á broti gegn 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna, sbr. nú 1. gr. laga nr. 63/1998. Verður ekki fallist á að svo sé, þar sem háttsemi ákærða er jafnframt færð undir 248. gr. laganna og ber því að miða fyrningarfrest brotanna við það ákvæði, sbr. 3. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981. Refsimörk fjársvikaákvæðis 248. gr. eru 6 ára fangelsi og fyrnast brot gegn þeirri grein á 10 árum, sbr. 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna.

 

 

Opstilling med vin, krus samt frugter“ eftir Wilhelm Wils.

Opstilling med vin, krus samt frugter“ eftir Wilhelm Wils.

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök að hafa keypt málverkið „Opstilling med vin, krus samt frugter“ eftir danska málarann Wilhelm Wils á sama uppboði og málverkið sem getið er um í A kafla hér að framan, í Vejle 18. ágúst 1994, afmáð höfundarmerkingu listamannsins og selt það með blekkingum sem verk Jóns Stefánssonar listmálara á uppboði nr. 12 í Reykjavík 1. september 1994, eins og nánar er lýst í ákæru. Verkið var slegið kaupanda á uppboðinu á 360.000 krónur.

Hér að framan hefur verið lýst hvaða sérfræðingar komu að rannsókn málverksins að beiðni ríkislögreglustjóra og niðurstöðu þeirra rækilega lýst. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa, sem skimaði litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi, gáfu þær til kynna, „að höfundarnafnið „Wils“ hafi annað hvort verið máð út eða að málað hafi verið yfir það á framangreindu málverki, sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan.“ Að sömu niðurstöðu komst Viktor Smári Sæmundsson forvörður hjá Listasafni Íslands, er hann rannsakaði og tók ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og kannaði einnig hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálingu væri eldri undirritun finnanleg. Í samantekt rannsóknar hans segir að málverkið sé að hluta yfirmálað og komi yfirmálunin glögglega fram í útfjólubláu ljósi. Svo virðist sem reynt hafi verið að má brott eldri áritun verksins og hylja ummerki um þann verknað. Málverkið sé nú sýnilega merkt höfundi sem að öllum líkindum hafi ekki málað það. Búið sé að fjarlægja þrjá miða af bakhlið verksins sem e.t.v. höfðu að geyma einhverjar upplýsingar um sögu þess. Þá segir í niðurstöðukafla rannsókna hans að af rannsókninni og gögnum sem hún styðst við séu yfirgnæfandi líkur á að málverk þetta, sem sýnilega er höfundarmerkt Jón Stefánsson, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins sé að öllum líkindum Wilhelm Wils, sem var samtímamaður Jóns búsettur í Danmörku.

Haraldur og Viktor Smári staðfestu einnig fyrir dóminum verk sín og rannsóknir á þessu málverki og útskýrðu nánar rannsóknir sýnar og niðurstöður þeirra, meðal annars með með VSC tækinu og myndskyggnum. Sáu dómendur og sakflytjendur einnig með berum augum í VSC tækinu framhlið myndarinnar, einkum svæðin þar sem undirritunin „Jón Stefánsson“ er á verkinu og á önnur svæði, sem sérstaklega er vikið að í rannsóknum Haraldar og Viktors Smára. Dómendur eru sammála um það að ljóslega mátti greina með berum augum áletrunina Wils. Framburður þeirra beggja var sem fyrr trúverðugur og þeir sjálfum sér samkvæmir. Þeir tóku einnig sýnishorn úr málverkinu, eins og lýst hefur verið, og sendu dr. Sigurði Jakobssyni til litrófsrannsóknar. Er vísað til framburðar hans hér að framan um áreiðanleika þessarar rannsóknar. Eins og fram er komið greindi dr. Sigurður alkýð í svörtum lit sem tekinn var úr áritun neðst til hægri á myndinni og einnig svæði ofan við áritun og loks á bletti neðan við disk á málverkinu. Við ljósmyndum Viktors Smára í útfjólubláu ljósi vöknuðu einmitt grunsemdir um að á þessum stöðum væri yfirmálum og að alkýð væri í áritun. Vísast hér til fyrrgreinds vættis dr. Sigurðar um þornunartíma olíulita sem listamenn nota og alkýðs og vitnisburðar Viktors Smára um þessa liti. Fram er komið í málinu að alkýð var ekki notað í listamannaliti fyrr en mörgum árum eftir lát Jóns Stefánssonar.

Skimun málverksins, sem lýst hefur verið hér að framan og dómendur sáu sjálfir í dóminum, er í samræmi við rannsóknir og niðurstöður sérfræðinganna Viktors Smára Sæmundssonar og dr. Sigurðar Jakobssonar, sem lýst hefur verið rækilega í I. kafla B. Rannsóknir þeirra sýna að einnig í þessu tilviki var mjög sterk fylgni milli ljómageislunar sem fram kom við ljósmyndun af málverkinu undir útfjólubláu ljósi og niðurstöðu litrófsrannsókna á bindiefninu.

Af þessum rannsóknum og trúverðugum framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega í ljós leitt að höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ sem var á málverkinu þegar það var selt 1. september 1994 á uppboði nr. 12 í Reykjavík var ekki máluð af Jóni Stefánssyni.

Sú niðurstaða styðst einnig við vætti Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og greinargott álit og vitnisburð Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings. Ólafur hefur borið að hann telji að ekki verði séð að tekist sé á við grundvallareinkenni í list Jóns í þessari mynd sem og hinum tveimur, sem mál þetta snýst um, bæði að því er varðar litræna endurtekningar eða tengingar og formmótun, sem tengist andstæðuríkri litanotkun Jóns. Hann sagði einnig að myndirnar þrjár væru mjög á skjön við það sem væri rauður þráður í allri myndlist Jóns Stefánssonar og taldi að þegar litið væri til þeirra sterku höfundareinkenna gæti Jón ekki hafa málað þessar myndir eða tekist svona illa upp með eigin stíl. Þetta væri augljóst þegar litið væri á myndirnar. Í áliti Júlíönu kom meðal annars fram að ýmis atriði mætti finna í myndinni sem kæmi fram í verkum Jóns, en það, sem greindi á milli þessa verks og verka Jóns, væru hins vegar sértæk atriði er varða túlkun listamannsins á efninu, listrænan ásetning hans og gæði verksins. Framburður hennar fyrir dóminum um þetta verk var trúverðugur og greinargóður. Eins og fram er komi í umfjöllun verksins í kafla A útskýrði hún með sýningu litskyggna verk höfundarins til samanburðar þessu verki.

Vitnisburður framangreindra vitna kemur einnig heim og saman við gögn og framburð annarra vitna, sem renna sterkum stoðum undir það að málverk þetta sé eftir Wilhelm Wils og hafi verið selt á uppboðinu nr. 33 í Vejle 18. ágúst 1994, eins og nú verður rakið.

Lýsing og stærð málverksins „Opstilling med vin, krus samt frugter“ sem merkt er nr. 1126, eftir Wilhelm Wils, á skrá uppboðsins nr. 33 í Vejle, kemur kemur heim og saman við málverkið „Uppstilling“, sem merkt var nr. 82 á uppboðsskrá uppboðs Gallerís Borgar í Reykjavík 1. september 1994. Vitnið Hans Jensen staðfesti einnig fyrir dóminum, að hann hafi selt þessa mynd á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Er sá framburður í samræmi við vætti Sven Juhl Jörgensen, starfsmanns Bruun Rasmussen í Vejle, sem staðfesti og lagði fram gögn um að Hans hefði afhent myndina ásamt myndinni nr. 1125, sem fjallað var um í I. kafla A, til sölu á uppboði nr. 33. Fram er komið að Hans afhenti lögreglu einnig ljósrit úr uppboðsská þessa uppboðs og kvað myndina þar vera nr. 1126. Lýsti hann einnig myndinni og kom lýsingin heim og saman við málverkið „Uppstilling“. Hans Jensen fullyrti að þessa mynd hafi hann keypt á uppboði nr. 371 hjá Kunsthallen í Kaupmannahöfn árið 1988, þar hafi hún verið skráð á uppboðskránni nr. 223. Við það númer á skránni stendur: „Nature morte. Sign. Wils. 50x 65. 5.000.“ Því var lýst hér að framan, að Hans hafi afhent lögreglu nokkrar polaroidmyndir, sem hann kvað vera teknar af nokkrum málverkum Wils í eigu fyrirtækis síns. Hann hefur fullyrt að ein þessar polaroidmynda sé af myndinni sem hann keypti nr. 223 í Kunsthallen árið 1988 og seldi á uppboðinu í Vejle, þar mynd nr. 1126. Jafnframt hefur hann staðhæft að þetta væri sama mynd og væri í dóminum. Hann kvaðst einnig bera kennsl á ramma hennar. Vitnið sagði jafnframt að litljósmyndirnar tvær af áþekku málverki í íbúð Jónasar Freydal, sem ákærði afhenti við rannsókn málsins, væru ekki af þessu málverki.

Þegar litið er á ofangreinda polaroidmynd og litljósrit af stækkun hennar verður ekki betur séð en hér sé um sömu mynd að ræða og myndin „Uppstilling“, enda má glöggt sjá á stækkaða litljósritinu áritunina „Wils“ með rauðum lit, þótt það sé ekki eins greinilegt að sjá á polaroidmyndinni sjálfri. Á henni má hins vegar glöggt sjá móta fyrir á sama stað rauðum flekk, en hvergi er þar áritunin „Jón Stefánsson“ Þetta er í samræmi við rannsókn Haraldar Árnasonar á höfundarmerkingu málverksins á polaroidmyndinni, en samkvæmt niðurstöðu hans er höfundarnafnið „Wils“ í hægra neðra horni málverksins, sem ljósmyndin er af.

Á ytri ramma málverksins „Uppstilling“ er talan 223 skrifuð með svörtum tússpenna og á bakhlið blindramma hennar er talan 1126, skrifað með hvítum stöfum Kemur það heim og saman við þann framburð Hans Jensen að hér sé komin myndin sem hann keypti nr. 223 á uppboðinu í Kunsthallen en seldi í Vejle, þar merkt nr. 1126. Það er einnig í samræmi við framburð vitnisins Svend Juul Jörgensen, að áritunin 1126 væri skrifuð með krít, eins og tíðkist hjá Bruun Rasmussen í Vejle, en annar háttur væri hafður á hjá fyrirtækinu í Kaupmannahöfn, en þar væru myndir merktar með blýanti. Sagði hann að þessi krítaráritun á blindrammanum væri einnig í samræmi við lýsingu myndarinnar og númerið á uppboðsskránni á uppboði nr. 33 í Vejle.

Verður nú vikið að framburði ákærða um málverkið og þeirri staðhæfingu hans að það sé allt annað en málverkið, sem selt var nr. 1126 á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994.

Ákærði var fyrst yfirheyrður um þessa mynd hjá lögreglu 10. desember 1997, en hér að framan er lýst aðdraganda þess að grunur lék á að mynd þessi væri fölsuð. Hann sagðist þá ekki vera viss um hver seldi honum myndina, en hann hafi keypt hana ásamt annarri mynd af ókunnugum manni í Kaupmannahöfn eftir svari við auglýsingu frá honum sjálfum í dönsku blaði. Mynd þessa mætti sjá af tveimur ljósmyndanna, sem teknar voru í íbúð Jónasar Freydal. Hann kvaðst ekkert muna eftir sölu myndarinnar á uppboðinu hjá Gallerí Borg og gat engar upplýsingar gefið um eigendasögu verksins, þar sem hann þekkti ekki seljandann. Er honum var sýndur ofangreindur reikningur frá Bruun Rasmussen í Vejle kvaðst hann ekki muna eftir kaupum þessarar tilteknu myndar. Hann sagðist hins vegar hafa skilið eftir tvær myndir eftir Wilhelm Wils, sem hann keypti á uppboðinu hjá Jónasi Freydal, svo sem lýst hefur verið áður, en ekki muna hvort önnur þeirra væri þessi tiltekna mynd. Daginn eftir fullyrti ákærði hins vegar í yfirheyrslu að myndina nr. 1126 í uppboðsskrá uppboðsins í Vejle hafi hann keypt og látið Jónas Freydal hafa, en myndina „Uppstilling“ nr. 82, sem hann seldi á uppboði Gallerí Borgar, hafi hann keypt af einhverjum, sem hann hafði engar upplýsingar um og sagðist hann heldur ekki muna hvort hann keypti myndina eða hvort hún kom í umboðssölu fyrir uppboðið. Fyrir dóminum sagðist ákærði muna að hann hafi keypt myndina af danskri konu, Patriciu Aagreen í maí eða júní ´94 í Kaupmannahöfn. Kvaðst hann hafa hitt hana á flóamarkaði, eins og nánar var lýst hér að framan. Hans kvaðst hins vegar hafa keypt myndina nr. 1126 á uppboðinu í Vejle og nú brá svo við að ákærði mundi eftir því að þetta var önnur þeirra mynda, sem hann tók rammana af, en skyldi svo eftir hjá Jónasi Freydal. Bætti ákærði um betur og sagðist hafa sagt þetta strax í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu. Ramma þessarar myndar hafi hann svo sett á myndina „Uppstillingu“og selt hana á uppboði Gallerí Borgar 1. sepember 1994, merkta á uppboðsskránni nr. 82. Benti hann á að sjá mætti myndina sem hann keypti í Vejle nr. 1126 og skildi eftir hjá Jónasi á margnefndum litljósritunum af myndunum, sem hann fékk hjá Jónasi.

Er ákærða var fyrir dóminum bent á uppboðsnúmerin á blindrammanum sagðist hann einnig hafa tekið myndina úr honum og sett þennan blindramma á myndina, sem hann keypti af Patriciu. Ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á því hvort myndin hafi verið færð úr blindrammanum, en að mati vitnisins Viktors Smára Sæmundssonar, forvarðar, kvað hann ekkert benda til þess að svo hefði verið. Dómurinn, sem einnig skoðaði nánar blindrammans, er sammála um það að fátt bendi til þessa.

Þessi framburður ákærða þykir, eins og framburður hans um myndina sem fjallað er um kafla A, bæði óstöðugur og mjög ótrúverðugur og í andstöðu við annað, sem fram er komið í málinu um þetta málverk, eins og lýst hefur verið. Gögn þau sem hann hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, margnefndar litljósmyndir eru heldur ekki traustvekjandi eða trúverðug. Tvær þeirra litljósmynda sem ákærði afhenti og sagði vera af mynd nr. 1126 á uppboðinu í Vejle, teknar á heimili Jónasar Freydal, eru líkt og myndirnar sem hann kveður vera af myndinni nr. 1125 frá sama uppboði í Vejle, í fljótu bragði eins og málverkið, sem hér er fjallað um og selt var á uppboðinu í Reykjavík. Við nánari skoðun sést hins vegar að svo er alls ekki. Á málverkinu „Uppstilling“ eru fjórir ávextir á diski á myndinni og hvítur bolli með haldi á miðri mynd við vinstri kant, en á litljósmyndinni eru þrír ávextir og enginn bolli, en í stað bollans eru tveir óljósir hlutir annars staðar á málverkinu. Ákærði framvísaði við meðferð málsins stækkaðri litljósmynd af málverkinu sem hann sagðist hafa keypt af Patriciu Aagreen með áritun þeirri sem gert var grein fyrir hér að framan. Þessi áritun og framburður hans um kaup myndarinnar og fundi hans og Patriciu Aagreen er skáldsögu líkastur. Þá er því við að bæta að ákærði fór utan án samráðs við verjanda sinn og hitti Patriciu á heimili móður hennar efir að henni hafði verið birt fyrirkall í máli þessu öðru sinni. Hún hafði leitað til lögmanns er henni var birt kvaðningin, en hafði ekkert samráð við hann um fund sinn og ákærða. Vitnið kom fyrir dóminn og var frásögn hennar á sama veg og ákærða um kaup þessarar myndar. Þó gat hún ekki fullyrt að hér væri um sama verk að ræða, en litljósritið er augljóslega af málverkinu „Uppstilling“. Frásögn ákærða um það að hann hafi hitt Patriciu til að leggja að henni að mæta fyrir réttinum er að engu hafandi, enda var ákærða ljóst að ráðstafanir höfðu verið gerðar af hálfu dómara, svo og lögreglu hérlendis og í Kaupmannahöfn, til að fá vitnið fyrir dóminn og var aðalmeðferð frestað í viku eingöngu í því skyni að yfirheyra þetta vitni.

Framburður nefndrar Patriciu fyrir dóminum var ekki trúverðugur og verður ekki á honum byggt, enda þykir sýnt að ákærði hafi eða hafi reynt að hafa áhrif á framburð þessa vitnis með ferð sinni til Kaupmannahafnar. Ákærði hefur heldur engin greiðslugögn getað sýnt um kaup þessarar myndar og það gat vitnið Patricia ekki heldur. Framburður vitnisins Jónasar Freydal um litljósmyndirnar tvær af því verki, sem hann og ákærði segja að sé af myndinni, sem keypt var á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994, er einnig mjög ótrúverðugur og stenst ekki þegar litið er til þess, sem lýst hefur verið hér að framan. Hefur áður verið fjallað um sannleiksgildi framburðar þessa vitnis og er vísað til þess. Eins og fjallað er um í kafla A breytir það engu um þessa niðurstöðu, þótt ákærði hafi greitt virðisaukaskatt af myndinni samkvæmt ofangreindri kvittun. Vísast til þess sem þar er fjallað um í þessu efni.

Tekið skal fram að famburður vitnisins Þórhalls Arnórssonar um það að hann hafi séð myndina í húsakynnum Gallerí Borgar í júlí1994 er að engu hafandi, enda var vætti hans ekki trúlegt og fór hann undan í flæmingi er á hann var gengið. Hann kvaðst ekki hafa vitað um það um hvað hann yrði spurður í yfirheyrslunni, en gat samt um það borið á örfáum andartökum, að einmitt þetta verk hafi hann séð í júlímánuði rúmum fjórum árum áður. Vitnið þetta kom ekki fram við rannsókn málsins en var kallað fyrir við aðalmeðferðina af hálfu ákærða. Þá upplýsti vitnið ekki fyrr en á hann var gengið að hann og ákærði hafi staðið saman að uppboðum á Akureyri, meðal annars að uppboðinu 21. maí 1995, en vitnið er eigandi fyrirtækisins Listhúsið Þings, sem útvegaði Gallerí Borg húsnæði til að halda uppboðin. Ekki getur því heldur talist að vitni þetta hafi verið óvilhallt.

Þegar allt framangreint er virt þykir fram komin lögfull sönnun þess að mynd sú sem seld var nr. 82 á uppboði Gallerí Borgar nr. 12 í Reykjavík 1. september 1994, var sama verk og selt var nr. 1126, eftir Wilhelm Wils, á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994, svo og að myndina keypti ákærði sjálfur á sínum vegum eða vegum fyrirtækis síns, Gallerís Borgar.

Ákærði keypti myndina á 2.600 danskar krónur á uppboðinu í Vejle og seldi hana tæpum hálfum mánuði síðar á uppboðinu í Reykjavík, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, á 360.000 íslenskar krónur, en auk þess greiddi kaupandi myndarinnar, 36.000 krónur, sem renna skyldu í starfslaunasjóð myndlistarmanna. Gunnar Snorri hefur borið að forsenda kaupa málverksins hafi verið sú, að hún var merkt Jóni Stefánssyni og seld sem mynd hans. Ekki er vafi á því að málverkið var selt í auðgunar- og blekkingarskyni, þar sem verkið var selt á margföldu því verði, sem hægt var að fá fyrir myndir Wilhelms Wils, og ranglega höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.

Það sama gildir um málverk þetta og málerkið, sem fjallað er um í kafla A, að ekki hafa verið lögð fram gögn því til sönnunar af hálfu ákæruvalds að ákærði hafi sjálfur afmáð höfundarmerkinguna af málverkinu og sett á það höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar, eins og honum er að sök gefið. Hins vegar þykir fullsannað af því sem rakið hefur verið hér að framan, að ákærða seldi málverkið með blekkingum og í auðgunarskyni, eftir að hann eða einhver annar sem hann fékk til þess, hafði breytti því með ofangreindum hætti. Ónákvæmni í ákæru að því er þetta varðar kemur ekki að sök, enda var vörn ekki áfátt um þetta atriði, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991.

Sú háttsemi, sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir varðar við 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998 og 248. fyrrgreindra laga.

 

Nature morte med blomster eftir Wilhelm Wils?

Nature morte med blomster eftir Wilhelm Wils?

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök að hafa keypt eitt tveggja málverka nr. 32, eftir danska málarann Wilhelm Wils á uppboði nr. 601 hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannhöfn 7. júní 1994, afmáð höfundarmerkingu listamannsins og selt það með blekkingum sem verk Jóns Stefánssonar listmálara, á uppboði nr. 12 í Reykjavík 1. september 1994, eins og nánar er lýst í ákæru. Verkið var slegið kaupanda á uppboðinu á 430.000 krónur.

Hér að framan hefur verið lýst hvaða sérfræðingar komu að rannsókn málverksins að beiðni ríkislögreglustjóra og niðurstöðu þeirra rækilega lýst. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa, sem skimaði litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi, gáfu þær til kynna, „að bókstafurinn „W“ hafi annað hvort verið máður út að hluta eða að málað hafi verið yfir hann, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan. Það er jafnframt niðurstaða hans að vísbendingar séu um, að aftan við „W“ hafi mögulega staðið „ils“ þannig að málverkið hafi upphaflega verið merkt „Wils“.“ Að sömu niðurstöðu komst Viktor Smári Sæmundsson forvörður hjá Listasafni Íslands, er hann rannsakaði og tók ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og kannaði einnig hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálingu væri eldri undirritun finnanleg. Í samantekt rannsóknar hans kemur fram að leiða megi að því sterk rök að rauðmáluð áritun hvers upphafsstafur var „W“ hefur að mestu verið slípuð eða máð brott og hið slípaða svæði endurmálað í tveimur til þremur litalögum. Fram kemur einnig að neðri hluti málverksins sé mikið yfirmálaður án sýnilegs tilgangs nema e.t.v. til að dreifa athyglinni frá yfirmáluninni í hægra horni verksins og/eða til að breyta útliti myndarinnar. Áritunin „Jón Stefánsson“ sé máluð yfir rispað (slípað) svæði, líklega í tveimur atrennum og að hluta til yfir endurmálað svæði, sem samkvæmt lit ljómageislunnar er ekki ýkja gamalt. Tveir límmiðar á bakhlið blindrammans hafa verið fjarlægðir en þeir gætu hafa geymt heimildir um sögu verksins. Er það niðurstaða rannsókna Viktors Smára að miklar líkur séu til þess að málverkið, sem sýnilega er höfundarmerkt „Jón Stefánsson“, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins sé líklega Wilhelm Wils. Þá kom fram í rannsókn Viktors Smára og vætti hans, að mörg atriði sem skoðuð voru hafi verið afar lík með mynd þessari og myndinni „Uppstilling“ í B kafla, t.d. væri rauði liturinn, sem vitnið lýsti nánar, eins í áritunun beggja myndanna. Það hafi einnig verið sammerkt myndunum að á svæðum í og umhverfis áritun, hafi mátt sjá í smjásjá að búið var að rispa og skrapa þar með einhvers konar oddhvössu verkfæri og hugsanlega eitthvað verið slípað líka með sandpappír.

Haraldur og Viktor Smári staðfestu einnig fyrir dóminum verk sín og rannsóknir á þessu málverki og útskýrðu nánar rannsóknir sýnar og niðurstöður þeirra, meðal annars með VSC tækinu og myndskyggnum. Sáu dómendur og sakflytjendur einnig með berum augum í VSC tækinu framhlið myndarinnar, einkum svæðin þar sem undirritunin „Jón Stefánsson“ er á verkinu og á önnur svæði, sem sérstaklea er vikið að í rannsóknum Haraldar og Viktors Smára. Dómendur eru sammála um það að ljóslega mátti greina með berum augum áletrunina W. Framburður þeirra beggja var sem fyrr trúverðugur og þeir sjálfum sér samkvæmir. Þeir tóku einnig sýnishorn úr málverkinu, eins og lýst hefur verið, og sendu dr. Sigurði Jakobssyni til litrófsrannsóknar. Sem fyrr vísast til framburðar hans hér að framan um áreiðanleika þessarar rannsóknar. Dr. Sigurður greindi alkýð í lit í áritun neðst til hægri á myndinni og einnig á svæði ofan við áritun og loks á blómakrónu eins túlípanans á málverkinu. Við ljósmyndum Viktors Smára í útfjólubláu ljósi vöknuðu einmitt grunsemdir um að á þessum stöðum væri grunur um yfirmálum og að alkýð væri í áritun. Vísast hér til fyrrgreinds vættis dr. Sigurðar um þornunartíma olíulita sem listamenn nota og alkýðs og vitnisburðar Viktors Smára um þessa liti.

Skimun málverksins, sem lýst hefur verið hér að framan og dómendur sáu sjálfir í dóminum, er í samræmi við rannsóknir og niðurstöður sérfræðinganna Viktors Smára Sæmundssonar og dr. Sigurðar Jakobssonar, sem lýst hefur verið rækilega í þessum kafla. Rannsóknir þeirra sýna að einnig í þessu tilviki var mjög sterk fylgni milli ljómageislunar sem fram kom við ljósmyndun af málverkinu undir útfjólubláu ljósi og niðurstöðu litrófsrannsókna á bindiefninu.

Af þessum rannsóknum og trúverðugum framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega í ljós leitt að höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ sem var á málverkinu þegar það var selt 1. september 1994 á uppboði nr. 12 í Reykjavík var ekki máluð af Jóni Stefánssyni.

Þessi niðurstaða styðst einnig við vitnisburð Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og greinargott álit og framburð Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings. Ólafur hefur borið, eins og áður er getið, að hann telji að ekki verði séð að tekist sé á við grundvallareinkenni í list Jóns í þessari mynd sem og hinum tveimur, sem mál þetta snýst um, bæði að því er varðar litræna endurtekningar eða tengingar og formmótun, sem tengist andstæðuríkri litanotkun Jóns. Allar væru myndirnar mjög á skjön við það sem væri rauður þráður í allri myndlist Jóns Stefánssonar og taldi vitnið að þegar litið væri til þeirra sterku höfundareinkenna gæti Jón ekki hafa málað þessar myndir eða tekist illa upp með eigin stíl. Þetta væri augljóst þegar litið væri á myndirnar. Í áliti Júlíönu kom meðal annars fram, að litameðferð sé um margt lík þeirri sem viðhöfð er í málverkinu „Uppstilling“ í kafla B. Viss sértæk einkenni tengdu einnig þessar myndir, til dæmis væri sami diskurinn augljóslega á báðum myndunum. Frávikin frá höfundareinkennum Jóns, sem hún lýsti nánar, væru hins vegar augljós og gerði það að verkum að málverkið standist engan veginn listrænan samanburð við verk hans. Framburður hennar fyrir dóminum um þetta verk var sem fyrr trúverðugur og greinargóður. Eins og fram er komið í umfjöllun verkanna í A og B kafla, útskýrði hún með sýningu litskyggna verk höfundarins til samanburðar þessu verki.

Vætti framangreindra vitna er í fullu samræmi við gögn og framburð vitnisins Claus Poulsen, sem renna sterkum stoðum undir það að málverk þetta sé eftir Wilhelm Wils og hafi verið selt á uppboðinu nr. 601 í Vejle 7. júní 1994, eins og nú verður rakið.

Lýsing og stærð málverkanna tveggja sem merktar eru nr. 32: „Nature morte með frugter og Nature morte með blomster“, eftir Wilhelm Wils, á skrá uppboðsins nr. 601 í Kaupmannahöfn, kemur heim og saman við málverkið „Páskaliljur“, sem merkt var nr. 89 á uppboðsskrá uppboðs Gallerís Borgar í Reykjavík 1. september 1994. Á málverkinu „Páskaliljur“, koma bæði fram blóm og ávextir. Vitnið Claus Poulsen, forstjóri hjá Bruun Rasmussen í Kaupamannahöfn, sagði að lýsingin í uppboðsskránni gæti átt við bæði málverkin, en hann myndi ekki hvor myndanna væri sú, sem hann staðhæfði að væri myndin „Páskaliljur“. Hann sagðist einnig hafa borið kennsl á verkið þegar hann sá ljósmynd af því hjá lögreglu, enda hafi hann verið á uppboðinu þegar það var selt. Í gögnum fyrirtækis síns hafi hann séð að seljandinn var erlent fyrirtæki. Á uppboðsskránni á þessu uppboði kemur fram að báðar myndirnar voru merktar með miða á blindramma. Sagði Claus að þótt ekki hafi staðið í skránni að málverkin væru árituð, kynni svo samt að hafa verið, þar sem myndirnar hafi verið mjög ódýrar, og ekki sé leitað svo grannt eftir því í þeim tilvikum. Þetta vitni staðfesti einnig að merkingin 32/601 með hring utan um, sem er á blindramma málverksins, væri áritun fyrirtækisins í Kaupmannahöfn. Þessi áritun sýndi að málverkið hafi verið selt á uppboði nr. 601 og hafi þar verið nr. 32.

Fram er komið að á þessu sama uppboði í Kaupmannahöfn var seld mynd nr. 178 eftir Jóhannes S. Kjarval: „Portræt“ árituð 1919, rauðkrít. Lýsing þeirrar myndar kemur heim og saman við mynd nr. 46, sögð eftir Jóhannes S. Kjarval, á uppboði Gallerí Borgar nr. 12, sem haldið var 1. september 1994. Eins og að framan getur var mynd nr. 178 á sama reikningi og sama afhendingarseðli og mynd nr. 32, sem stílaður var á ákærða.

Verður nú vikið að framburði ákærða um málverkið og þeirri staðhæfingu hans að honum hafi ekki verið um það kunnugt að málverkinu „Páskaliljur“ sé sama málverk og selt var var á uppboðinu í Kaupmannahöfn 7. júní 1994 og því hafi verið breytt með þeim hætti sem lýst er í ákæru.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu um málverk þetta 17. mars sl. kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því, en minnti þó að hann hafi keypt verkið um leið og myndina nr. 82 á uppboði nr. 12 „af einhverjum Dana“ sem svaraði auglýsingu hans í Kaupmannahöfn. Hann gat ekki lagt fram gögn þessu til staðfestingar. Við meðferð málsins sagði hann að fram kæmi í málsgögnum að Jónas Freydal hafi keypt myndina. Hann kvaðst engin gögn hafa um myndina „Páskaliljur “, sem seld var á fyrrnefndu uppboði Gallerís Borgar og kvaðst muna lítið eftir myndinni. Sagði ákærði er á hann var gengið að hann kynni sjálfur að hafa keypt myndina í Kaupmannahöfn en einnig væri hugsanlegt að Jónas Freydal hafi átt þessa mynd. Ákærði kvaðst heldur ekki kannast við rauðkrítarmyndina eftir Jóhannes S. Kjarval. Er honum var bent á það, að líkur væri á því að þetta væri sama myndin og seld var nr. 46 á sama uppboði Gallerís Borgar og myndin „Páskaliljur“, sagði hann að þetta gæti varla verið sama mynd, þar sem upplýsingar um ártal og hvar hún var sýnd áður vanti um verkið á uppboðsskrá gallerísins. Hins vegar væru þessar upplýsingar á uppboðsskránni frá uppboði nr. 601 í Kaupmannahöfn. Hann gat ekki lagt fram gögn um þessa mynd og taldi að hún hefði ekki selst. Í greinargerð Ragnars Björnssonar viðskiptafræðings, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum, kemur hins vegar fram að sala þessa verks var færð í bókhaldið á grundvelli sölureiknings. Sýna gögn, sem Ragnar lagði fram og staðfesti, að myndin var slegin á 86.000 krónur á þesu uppboði. Verkið var staðgreitt og sú greiðsla færð á bankareikning Gallerí Borgar daginn eftir uppboðið. Hins vegar var hvorki hægt að rekja til fylgiskjala bókhalds uppgjör við seljanda myndarinnar né hver hann var.

Ofangreindur framburður ákærða er sem fyrr óstöðugur og ótrúverðugur. Hann hefur borið úr og í um það hvort hann hafi sjálfur keypt myndina „Páskaliljur“ eða Jónas Freydal. Ekki er heldur traustvekjandi frásögn hans um ofangreinda krítarmynd eftir Kjarval, en gögn um þessa mynd, sem rakin hafa verið, leiða sterkar líkur að því, að mynd nr. 178, sem seld var á framangreindu uppboði nr. 601 og mynd nr. 46, sem seld var á sama uppboði og myndin „Páskaliljur“ sé ein og hin sama. Hann hefur ekki þvertekið fyrir að hann hafi keypt myndirnar nr. 32 sjálfur. Jónas Freydal hefur staðhæft að myndirnar nr. 32 og 178 hafi hann keypt á uppboðinu nr. 601 vegna rammanna, haldið annarri eftir, sem sé enn í hans fórum, en selt hina á uppboði hjá Köbenhavns Auktioner 25. september 1996. Lagði hann fram fylgiskjal við meðferð málsins, sem hann kvað staðfesta þennan framburð sinn. Á því stendur að hann hafi selt „1 parti billeder“. Þessi framburður hans stenst ekki í ljósi þess að fram er komið að myndin „Páskaliljur“ er sú sama og önnur myndanna sem seld var nr. 32 á margnefndu uppboði í Kaumannahöfn nr. 601.

Gögn um sölu myndarinnar á uppboðinu nr. 601 í Kaupmannahöfn gefa vísbendingu um að að Jónas Freydal hafi boðið símleiðis í myndina, enda hefur hann staðfest það. Hins vegar var myndin sett á reikning ákærða og nýr reikningur gefinn út, svo sem lýst er hér að framan. Framburður Jónasar Freydal um það hvers vegna hann hafi látið færa myndirnar á reikning ákærða er út í hött, enda er það skilyrði fyrir tollfrjálsum innflutningi og undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum D. 4.2.1. í dönskum reglum EU nr. 918/1983, að innflutningurinn hafi átt sér stað í síðasta lagi 12 mánuðum eftir búsetuflutninginn. Vitnið Claus Poulsen hefur einnig staðfest að enginn virðisaukaskattur hafi verið greiddur við söluna. Jónas Freydal kvaðst ekki muna hvort hann var á uppboðinu 1. september 1994, en samkvæmt bókhaldsgögnum Gallerís Borgar fékk hann greiddar í tilefni þess uppboðs 300.000 krónur. Engin gögn hafa verið lög fram af hálfu ákærða eða Jónasar Freydal um það fyrir hvað þessi greiðsla er, enda hefur Jónas borið að hann selji nokkrar myndir á ári í Gallerí Borg.

Afhendingarseðill sá sem getið er um hér að framan, sýnir að Jónas Freydal veitti málverkunum nr. 32 og 178 viðtöku 20. ágúst 1994, eða tveimur dögum eftir að ákærði var á uppboðinu í Vejle og degi áður en hann flaug heim heim til Íslands frá Kaupmannahöfn. Hann kvaðst hafa hitt ákærða eftir þetta uppboð í tilefni kaupa ákærða á þremur málverkum eftir Júlínu Sveinsdóttur, sem ákærði keypti á uppboðinu. Ákærði lagði fram gögn um það að hann hafi keypt þrjú málverk eftir þessa listakonu á uppboðinu í Vejle og hann hefur og staðfest að hann hafi farið heim til Íslands eftir uppboðið í Vejle frá Kaupmannahöfn 21. ágúst 1994, rúmri viku fyrir uppboðið. Bendir samkvæmt þessu margt til þess að ákærði og Jónas hafi hist í Kaupmannahöfn á þessum dögum.

Ákærði hefur í A og B kafla hér að framan verið sakfelldur fyrir að hafa keypt tvö málverk Wilhelm Wils, sem jafnframt málaði verkið „Páskaliljur“, og selt þau í auðgunar- og blekkingarskyni, eins og nánar er þar getið. Annað þessara málverka, myndin í B kafla, var seld á sama uppboði og myndin „Páskaliljur“. Því hefur verið lýst hér að framan að margt sé sameiginlegt í yfirmáluninni og árituninni „Jón Stefánsson“ í þessum tveimur málverkum, sem fjallað er um hér og í B kafla.

Ekki verður fullyrt hvort ákærði eða Jónas Freydal keypti umræddar myndir, þar á meðal myndina „Páskaliljur“, en þegar litið er til þess sem að framan er rakið, ekki síst ótrúverðugs framburðar þeirra og tengsla þeirra, sem eru meiri en þeir vilja vera láta, þykir sannað að ákærði hafi tekið þátt í kaupum þesssarar myndar.

Málverkið „Páskaliljur“ var keypt ásamt öðru málverki á 4.000 danskar krónur á uppboðinu í Kaupmannahöfn nr. 601 og seld rúmum tveimur mánuðum síðar á uppboði Gallerís Borgar í Reykjavík, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, á 430.000 íslenskar krónur, en auk þess greiddi kaupandi myndarinnar, 43.000 krónur, sem renna skyldu í starfslaunasjóð myndlistarmanna. Kaupandi hefur borið að forsenda kaupverðsins hafi verið sú, að hún var merkt Jóni Stefánssyni og seld sem mynd hans. Hann hefur ekki lagt fram skaðabótakröfu í málinu.

Það sama gildir um málverk þetta og málverkin, sem fjallað er um í kafla A og B, að ekki hafa verið lögð fram gögn því til sönnunar af hálfu ákæruvalds að ákærði hafi sjálfur afmáð höfundarmerkinguna af málverkinu og sett á það höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar, eins og honum er að sök gefið.

Þegar allt framangreint er virt þykir hins vegar fyllilega sannað að ákærða var ljóst að myndinni hafði verið breytt með framangreindum hætti og tók fullan þátt í sölu hennar í blekkingarskyni á umræddu uppboði, eins og nánar er lýst í ákæru. Ónákvæmni í málavaxtalýsingu í ákæru að því er þetta varðar kemur ekki að sök, enda var vörn ekki áfátt um þetta atriði, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991.

Ekki er vafi á því að málverkið var selt í auðgunarskyni, þar sem verkið var selt á margföldu því verði, sem hægt var að fá fyrir myndir Wilhelms Wils, og ranglega höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.

Sú háttsemi, sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir varðar við 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998 og 248. fyrrgreindra laga.

 

 

Stóra málverkafölsunarmálið – síðari hluti

Síðara dómsmálið, dómur Hæstaréttar frá 19. maí 2004 (Hrd. 325/2003), varðaði mun fleiri listaverk, en ákært var fyrir fölsun á rúmlega 100 listaverkum. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt í málinu og farið ítarlega yfir rannsóknir á listaverkunum sem lágu til grundvallar. Ýmist var um að ræða verk sem voru talin fölsuð frá grunni og verk þar sem rannsóknir leiddu í ljós að undirskrift myndhöfunda höfðu verið afmáðar og verkin eignuð íslenskum höfundum með nýrri undirskrift.

Lögregla hafði við rannsókn málsins leitað til kunnáttumanna um rannsóknir og álitsgerðir vegna þeirra olíumálverka sem málið varðaði. Á seinni stigum rannsóknarinnar var falast eftir því að Listasafn Íslands legði líka fram kæru um falsað verk sem safnið hafði keypt.  Þegar dómur var feldur þá kom fram að þær sérfræðilegu álitsgerðir sem lögregla hafði aflað hjá starfsmönnum safnsins, gætu ekki talist tækar fyrir dómi til sönnunar um atriði sem vörðuðu sök ákærðu. Féll málið af þeim sökum, og tók Hæstiréttur ekki efnislega fyrir fölsun verkanna sem slíka. Taldi dómurinn það gilda einu hvort um væri að ræða myndverk, sem listasafnið hafi lagt fram kæru um, eða verk sem því væru óviðkomandi.

Því var talið að önnur sönnunargögn málsins nægðu ekki til þess að ákæruvaldið gæti talist hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir og voru ákærðu því sýknir af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Dómurinn var klofinn, en af fimm dómurum fyrir Hæstarétti skiluðu tveir dómarar sératkvæði, þar sem fram kom að líta mætti til rannsóknanna við úrlausn málsins þrátt fyrir að Listasafn Íslands hefði verið meðal kæranda. Bæta hefði mátt úr sönnunarfærslu í héraði með því að leita eftir dómskvaðningu kunnáttumanna.

 

Tekið skal fram að Myndstef leggur ekki mat á það hvort þessi verk eða önnur séu fölsuð. Hér eru aðeins birtar upplýsingar úr umræddum dómum, þau listaverk sem þar var fjallað um og rannsóknir á þeim.

 

Ákæruliðir 1-34

 

 

Ákæruliður 35

 

Ákæruliðir 36-48

 

 

Hugleiðingar um málverkafalsanir

Í gegnum aldirnar hafa list og listaverk gegnt lykilhlutverki í menningu, sögu og sjálfsmynd samfélagsins. Þau eru ekki aðeins birtingarmynd skapandi hugsunar, heldur einnig spegilmynd mannlífs og menningar. Í þessu ljósi er fölsun listaverka ekki bara saklaus blekking, heldur djúpstæð ógn við heiðarleika listarinnar og menningarlegs trausts.

Út frá sjónarmiðum höfundarréttarins og höfundarlaga nr. 73/1972 getur fölsun listaverks falið í sér margþætt brot.

Í fyrsta lagi getur sá verknaður að eigna tilteknum listamanni verk með því að falsa höfundamerkingu talist vera brot á sæmdarrétti viðkomandi listamanns skv. 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, jafnframt því sem slíkur verknaður kann að varða við 155. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Í öðru lagi kann að vera að fölsun byggi á því að verki eins listamanns sé breytt og tileinkað öðrum, eða jafnvel að málað sé yfir verk eins listamanns til þess að verkið líti út fyrir að vera frá tilteknu tímabili. Í sumum tilvikum getur því verið um að ræða skemmdarverk á verkum eins listamanns, sem skaðar höfundaheiður hans og hugsanlega möguleika á höfundarréttartekjum vegna endurnota eða endursölu verks, um leið og brotið er á sæmdarrétti annars listamanns.

Fölsun listaverka er þó ekki aðeins skaðleg fyrir listamenn, heldur einnig fyrir neytendur, listaverkamarkaðinn og í raun samfélagið í heild. Segja má að traust sé hornsteinn listheimsins. Hvort sem um ræðir verk í höndum safnara, sýningastjóra, safns eða fræðimanns, þá byggja viðskipti með list og umræða um list á gagnkvæmu trausti. Fölsuð listaverk raska þessu jafnvægi. Þegar verk er ranglega eignað frægum listamanni, er ekki aðeins verið að villa um fyrir kaupanda, heldur einnig að spilla fyrir heiðri listamannsins og hugsanlega rýra trúverðugleika þeirra sem koma að málum, t.d. sýnendur eða seljendur.

Slík svik hafa keðjuverkandi áhrif, traust almennings á listheiminum minnkar og spurningar vakna um trúverðugleika aðila á listaverkamarkaði, og getur slík háttsemi verið eins og segir í dómi Hæstaréttar nr. 161/1999 “skaðleg fyrir viðskiptaöryggi á listaverkamarkaði”.

Markaðsvirði listaverka byggist að miklu leyti á uppruna, einstökum stíl og mikilvægi innan listasögunnar. Þegar fölsun kemst í hendur safnara sem telur sig vera að fjárfesta í verðmætu verki, þá verður hann fyrir fjárhagslegu tjóni,  sem getur numið háum fjárhæðum.

Listaverkafalsanir geta einnig falið í sér skaðleg áhrif á ýmsa aðra þætti, því list er mikilvæg heimild. Verk sem skapað er á ákveðnum tíma segir oft meira en skriflegar heimildir um samfélagið sem það spratt úr. Þegar falsað verk kemst í umferð og jafnvel í rannsóknir, sýningar eða fræðirit, getur það leitt til rangra ályktana um stíl, áhrif eða þróun viðkomandi listamanns eða listastefnu. Þannig getur fölsun haft áhrif á akademískar rannsóknir, menntun og sögu.

Listaverkafalsanir geta haft í för með sér ýmis konar tjón fyrir listamenn, listaverkasala, kaupendur og samfélagið í heild, með því að blekkja, rýra traust og eyðileggja tengsl okkar við menningarlega arfleifð.

Það er umhugsunarvert að málið hafi ekki verið rannsakað né sótt á grundvelli höfundalaga, þrátt fyrir að til staðar hefði verið skýr lagaheimild þess efnis. Velta má fyrir sér hvort að önnur staða væri nú uppi ef tekið hefði verið á málinu á þeim grundvelli, og tekin afstaða til þess hvort gera skyldi fölsuð verk upptæk, eða að minnsta kosti falsaðar höfundamerkingar yrðu fjarlægðar.

Þó hefur ýmislegt verið gert vegna þessara dómsmála, til þess að sporna við skaðlegum áhrifum af fölsuðum málverkum á íslenskum listaverkamarkaði. Sérstakur starfshópur var skipaður af menntamálaráðherra árið 2004 sem lagði fram ýmsar tillögur. Annar starfshópur var skipaður árið 2015, en lauk ekki störfum. Þá hafa verið gerðar ýmsar breytingar á höfundalögum í gegnum tíðina sem telja má að bætt hafi stöðuna að einhverju leyti.

Að mati Myndstefs mætti þó enn skoða hvernig megi betur vernda listamenn fyrir fölsunum, sem og neytendur og listaverkamarkaðinn í heild. Til að mynda mætti einnig styrkja regluverk  á þann veg að seljendum (listaverkagalleríum og uppboðshöldurum) sé gert skylt að skrásetja eigendasögu listaverka ef mögulegt er.

Þá telur Myndstef  mikilvægt að efla fræðslu um höfundarétt, bæði til neytenda og til myndhöfunda.

Loks er afar mikilvægt að hvetja starfandi listamenn til að halda skrár yfir verk sín og merkja þau með óyggjandi hætti. 

 

Tekið saman í apríl 2025, í tilefni af sýningu Listasafns Íslands, Ráðgátuna um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir. 

 

 

Ítarefni: 

Hrd. 325/2003 frá 19. maí 2004. 

Héraðsdómur í sakamáli nr. 1/2003. 

Hrd. 161/1999 frá 4. nóvember 1999. 

Þingsályktun um ráðstafanir gegn málverkafölsunum.   Tillöguna og greinargerð má lesa hér. 

Skýrsla starfshóps ráðherra frá 2004. 

Höfundalög nr. 73/1972. 

Almenn hegningarlög nr. 19/1940.