Myndstef býður upp á heildarsamninga til hagsbóta bæði fyrir höfunda og notendur. Þá eru slíkir samningar hagstæðir og þægilegir í þeim tilvikum þar sem um mikinn fjölda verka er að ræða eða þar sem notkunin er til lengri tíma. Upphæðir á heildarsamningum byggjast á gjaldskrá samtakanna en í flestum tilvikum er þó veittur afsláttur.

Á árinu 2018 starfaði starfshópur sem kom að gerð heildarsamnings til safna, vegna birtinga safneignar með rafrænum hætti (t.d. á Sarpi). Fyrstu slíkir samningar voru undirritaðir við Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands í desember 2018 og í kjölfarið hafa fleiri söfn skrifað undir slíkan samning. Öðrum söfnum býðst að skrifa undir samning, og má nálgast drög þess hér.

Til þess að óska eftir heildarsamningi er hægt að hafa samband við skrifstofu Myndstefs.

Lagalegur grunnur heildarsamninga:

Heildarsamningar á grundvelli samningskvaðar, eða samningskvaðaleyfis, er norræn lausn í höfundarétti sem auðveldar aðgang að notkun verka og er byggt á sömu hugmyndum og kjarasamningar.

Með samningskvöð er átt við að ákveðið er með lögum að þeim notendum er hlotið hafa heildarleyfi skuli vera heimilt að nýta verk höfunda, einnig höfunda utan samtaka.

Ákvæði um samningskvaðir voru fyrst sett í norræn höfundalög í kringum 1960 en þó ekki í íslensk höfundalög fyrr en miklu seinna. Um myndverk og samningskvaðir gildir nú 2. mgr. 25. gr. höfundalaga nr. 73/1972, auk þess sem 15. gr. a. fjallar um ljósritun og skönnun myndverka við ákveðan starfsemi. Að auki liggur nú fyrir frumvarp á Alþingi  um breytingu á höfundalögum – endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir – og með þeim lögum verður almenn heimild til heildarleyfis á grundvelli samningskvaða lögfest.

Í gildi eru fjölmargir heildarsamningar, m.a. við:

Háskólaútgáfan

Hótel Holt

Listasafn Árnesinga

Listasafn Íslands

Listasafn Reykjavíkur

Menntamálastofnun

RÚV

Síldarminjasafnið

Sjónvarp símanns (áður Skjárinn)

Þjóðminjasafn Íslands

365 Miðlar

Fyrir frekari upplýsingar og fyrirspurnir er bent á að hafa samband við skrifstofu samtakanna.