In Fróðleikur

Höfundaréttur er ekki bara lagabálkur heldur grunnstoð fyrir frelsi skapandi fólks til að lifa af listinni.

Í heimi þar sem myndir ferðast hraðar en nokkru sinni áður, á samfélagsmiðlum, í fréttamiðlum og auglýsingum þá er mikilvægt að staldra við og spyrja: Hver á myndina? Og hvað má og hvað má ekki gera við hana?

 

Hvað er höfundaréttur?

Höfundaréttur er lögbundin réttur þess sem skapar verk til að stjórna því hvernig verkið er notað, sýnt, afritað eða birt. Þetta á við um til dæmis myndverk, ljósmynd, hönnun eða aðra myndræna framsetningu.  

Þegar einstaklingur býr til listaverk, á viðkomandi sjálfkrafa höfundarrétt að því. Það þarf ekki að skrá það eða merkja það sérstaklega því verkið er verndað um leið og það verður til. Höfundaréttur tryggir að listafólk fái viðurkenningu, réttlæti og möguleika á að lifa af sköpun sinni. 

 

Hvað felst í höfundarétti?

Höfundaréttur skiptist í tvo meginflokka:

  • Eignarréttur: Höfundur getur stjórnað notkun verksins þ.e. hvort það megi afrita það, sýna það opinberlega, dreifa því eða nota það í öðrum verkum.
  • Persónulegur réttur: Höfundur á rétt á nafnbót og virðingu fyrir verkinu, þ.e. sæmdarréttur. Það má ekki breyta verki eða birta það í samhengi sem rýrir heiður höfundar.

Hvað má almenningur?

Það má ekki nota mynd – hvort sem hún er í bók, á netinu eða á sýningu – nema þú hafir leyfi frá höfundi (eða Myndstef fyrir hönd höfundar). Það á við um:

  • Notkun í kennslu eða verkefni
  • Notkun í markaðsefni
  • Endurbirtingu á samfélagsmiðlum
  • Prentun eða afritun
  • Útgáfu í rafrænu eða efnislegu formi

Undantekningar eru fáar og skýrt afmarkaðar í lögum – t.d. vegna fréttaflutnings eða tilvísana. En almenna reglan er: Alltaf leita leyfis.

Af hverju skiptir höfundaréttur máli?

  • Fyrir listafólk: Höfundaréttur gerir listafólki kleift að stjórna notkun eigin verka og tryggja sér tekjur af notkun þeirra.
  • Fyrir menningu: Höfundaréttur verndar fjölbreytni og frumleika í menningarlífi og hvetur til sköpunar.
  • Fyrir samfélagið: Hann tryggir sanngirni og að listafólk fái virðingu og umbun fyrir vinnu sína, rétt eins og aðrir starfshópar.

 

Hvað gerir Myndstef?

Myndstef er samtök sem gæta réttar myndhöfunda og veita leyfi fyrir notkun á myndverkum á vegum höfunda sem eru skráðir í samtökin.

Við:

  • Semjum um og úthluta greiðslum fyrir notkun verka
  • Veitum leiðbeiningar til listafólks og notenda um réttindi þeirra og skyldur
  • Sinnum fræðslu, samstarfi og umræðu um réttindamál

Hvað getur þú gert?

  • Ef þú ert myndhöfundur, skráðu þig hjá Myndstef til að fá aðstoð, réttindagæslu og úthlutanir.
  • Ef þú ert notandi myndverka, hvort sem þú ert kennari, hönnuður, útgefandi eða bara áhugasamur einstaklingur, leitaðu leyfis áður en þú notar mynd.
  • Ef þú ert í vafa, hafðu samband við okkur, við erum hér til að hjálpa.

 

Hafðu samband:

📧 myndstef@myndstef.is

🌐 myndstef.is

Recent Posts