Allir myndlistarmenn og konur eru myndhöfundar. Á Íslandi starfar fjölbreyttur hópur myndlistarmanna, og má þar nefna myndhöggvara, málara, ljósmyndara, textíllistamenn, grafíklistamenn, gjörningalistamenn, víjólistamenn osfrv.
Fylgiréttur er sérstakur réttur myndhöfunda er teljast til myndlistarmanna. Um fylgirétt er ítarlega fjallað hér.
Séreðli myndlistarverka er að oft er einungis til eitt (eða fáein merkt eintök) áþreifanlegt eintak verksins. Verðgildi hugverksins er því nátengt áþreifanlegu listaverkinu, sem gengur þá kaupum og sölum og lækkar/hækkar í verðgildi miðað við dreifingu þess og stöðu.
Það getur skipt máli varðandi höfundarétt hvort myndverkið sjálft, þ.e. áþreifanlega eintakið, hafi verið selt eða sé ekki lengur ”eign” höfundar/listamanns. Ef verk er selt gildir þó höfundarétturinn áfram og á höfundur jafnframt og ennþá svokallaðan aðgangsrétt að verkinu í vissum tilvikum, sbr. 25. gr. a. höfundalaga. Athugast skal að höfundaréttur nær ávallt til hugverksins sjálfs, þ.e. hugverkið á bak við áþreifanlegu útgáfuna, en áþreifanlega útgáfan lýtur oft einnig sérstökum reglum og vernd, sbr. eignarétti og fylgirétti.
Takmarkanir
Við ákveðin tilfelli er gerð takmörkun á höfundarétti myndlistarmanna, sbr. 25. gr. höfundalaga. Er þar talað um svokallaðan sýningarrétt sem heimilar opinberum listasöfnum sé sem almenningur hefur aðgang að sýningu listaverka í höfundavernd.
Myndhöfundar geta þó átt rétt á sýningargjaldi ef verk þeirra eru sýnt á öðrum þeim stöðum en tiltekur í ákvæðinu, svo sem í sendiráðum, opinberum stofnunum, bönkum og öðrum opinberum stöðum sem teljast ekki listasöfn.
Að auki gilda eftirfarandi takmarkanir á rétti myndlistarmanna í lögum:
– Þegar listaverk heyrir til listasafni, er heimilt að birta myndir af því í safnmunaskrá. Hér er átt við áþreifanlega safnmunaskrá innan veggja safnsins.
– Nú er listaverk boðið til sölu, og má þá birta myndir af því í tilkynningu um sölutilboð.
– Heimilt er eiganda myndlistarverks að taka eða leyfa töku mynda af því til sýningar í kvikmynd eða sjónvarpi, ef myndin er aðeins aukaatriði í efni kvikmyndar eða sjónvarpsdagskrár. Um notkun myndlsitarverka í kvikmyndum og sjónvarpi er einnig fjallað í 16. gr. höfundalaga.
Að lokum hefur útgáfa sýningarskrár, sem er dreift ókeypis samhliða tilfallandi sýningu og ef magn mynda og texta eru ekki veruleg, verið talin heimil án sérstaks leyfis eða greiðslna.