Allir myndhöfundar* eiga réttindi að verja, svokölluð höfundaréttindi. Samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 á höfundur eignarrétt yfir verkum sínum. Í því felst að höfundur hefur einkarétt til að heimila eða banna not verka sinna, burtséð frá því hvort hann hefur selt myndverkið. Að auki á höfundur sæmdarrétt yfir verki sínu. Í því felst að hvorki megi afbaka verk höfundar eða skerða sæmd hans, og geta skal nafns höfundar við not. Höfundarétturinn varir alla ævi og gildir í 70 ár eftir andlát höfundar, þar sem höfundarétturinn erfist.

 

 

Hér má sjá ótæmandi upptalningu á þjónustu sem býðst öllum félagsmönnum Myndstefs og helstu verkefnum samtakanna í þágu höfunda:

  • Myndstef sér um að innheimta þær höfundaréttargreiðslur sem höfundi ber að fá, vegna endurbirtinga á verkum sínum, og koma þessum greiðslum til höfundar eða höfundarétthafa/erfingja.
  • Myndstef sér um að innheimta fylgiréttargreiðslur vegna endursölu listaverka í atvinnuskini og á listmunauppboðum, og koma þessum greiðslum til höfundar eða erfingja.
  • Samtökin veita höfundi aðgang að lögfræðilegri ráðgjöf varðandi höfundarétt og gerð samninga.
  • Einu sinni á ári veita samtökin verkefnastyrki sem og ferða- og menntunarstyrki til myndhöfunda.
  • Myndstef stendur fyrir fjölmörgum kynningum og fræðslu til höfunda og notenda hugverka.
  • Myndstef fylgist með og leitast við að hafa áhrif á þróun laga og reglna svo og viðskiptahátta á höfundaréttarsviði.
  • Myndstef annast samningagerð félagsmanna við opinbera aðila og einkaaðila um höfundaréttarleg hagsmunamál félagsmanna.

Félagsmenn Myndstefs greiða ekki félagsgjöld en heldur Myndstef eftir 20% af allri innheimtum reikningum, sem þóknun í umsýslukostnað og þjónustu.

 

* Myndhöfundur er sá sem skapar myndverk er nýtur verndar samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972. Sköpun er sérstök andleg iðja sem fullnægja verður vissum lágmarksskilyrðum varðandi frumleika og afrakstur sköpunarinnar er verk. Myndverk geta verið: myndlistarverk, málverk, gjörningar, tvívíð verk, þrívíð verk, skúlpturar, gjörningar, videó verk, hljóðverk, ljósmyndir, áhugamannaljósmyndir, fatahönnun, vöruhönnun, grafísk hönnun, margmiðlunarhönnun, búningahönnun, leikmunahönnun, skargripahönnun, húsgagnahönnun, arkitektúr, nytjalist, teikningar, uppdrættir, og önnur sjónlist.