Almennir skilmálar

Skilmálar um notkunarheimildir verndaðra myndverka


Höfundaréttur listamanns gildir í 70 ár eftir lát hans. Eftir það er heimilt að nota verk hans án endurgjalds. Þessi tímamörk eiga einungis við um hin fjárhagslegu réttindin höfunda ekki sæmdarétt (sbr. 4.gr. laga nr. 73/1972).

 


Hvað þarf til að fá leyfi

  1. Til þess að fá notkunarleyfi á vernduðum myndverkum þarf að senda beiðni þar um til skrifstofu Myndstefs þar sem tilgreint er til hvers á að nota myndverkið og upplagsstærð.
  2. Ef notuð eru verk eftir 10 höfunda eða fleiri, getur Myndstef annast samninga sem ná til allra höfundanna. Sjá undir „Heildarsamningar“
  3. Senda þarf inn erindi og við veitum síðan heimild til notkunar. Ef einhverjar spurningar vakna hafið þá samband við skrifstofu Myndstefs.

 

 
Almennir skilmálar

  1. Þóknun samkvæmt gjaldskrá tryggir rétt til að nota hið umsamda myndverk í samræmi við skilmála.
  2. Myndverk skal endurútgefa óbreytt þ.e. ekki er heimilt að rita á/yfir eða skrifa ofan í verkið, skera til eða breyta því á annan hátt.
  3. Nafn höfundar skal birt með eftirfarandi hætti: © Nafn höfundar/Myndstef
  4. Við notkun verndaðs myndverks á interneti má verkið ekki vera stærra en 600 pixlar á hæð eða breidd
  5. Notandi skal senda Myndstefi eintak af viðkomandi útgáfu/slóð að heimasíðu eigi síðar en á útgáfudegi/birtingardegi.
  6. Myndstef sendir reikning ásamt heimildarblaði sem skilgreinir leyfilega notkun.

 


Sérskilmálar:

Í sérstökum tilfellum gera höfundar viðbótakröfur vegna notkunar á vernduðum verkum þeirra t.d. sérstök skilyrði um birtingu ákveðins texta eða nafns og jafnframt kröfu um að fá litaprufur fyrir prentun til samþykktar. Skrifstofa Myndstef veitir upplýsingar um slíkar sérkröfur höfunda.

 


Sæmdaréttur höfunda

Ætíð er skylt að geta nafns höfundar þegar verndað myndverk er birt og jafnframt er óheimilt að breyta verkinu eða misfara með það á annan hátt. Um þetta gilda almennar reglur í höfundalögum sbr. 4.gr. laga nr. 73/1972. Vakin er athygli á að þessi réttindi höfunda eru óframseljanleg. Í einstaka tilfellum er þó heimilt að breyta verki höfundar þannig að það falli inn í sérstaka hönnun eða uppsetningu en í slíkum afmörkuðum tilfellum þarf ætíð að liggja fyrir leyfi höfundar. Myndstef hefur milligöngu um slík erindi.

 


Heildarsamningur

Myndstef getur annast um samningagerð sem nær einnig til réttinda höfunda sem ekki eru félagsmenn í Myndstefi. Þetta á meðal annars við þegar notuð eru mörg myndverk í útgáfu eða á interneti. Slíkur heildarsamningur gerir mögulegt að fá eitt allsherjarleyfi sem annars gæti reynst erfitt og tímafrekt ef þyrfti að semja við hvern og einn höfund. Ábyrgð á slíkum heildarsamningi hvílir á Myndstefi enda sjáum við til þess að allir höfundar fái sínar greiðslur. Höfundur getur þó alfarið bannað endurbirtingar verka sinna eða í sérstökum tilfellum. Slíkt bann þarf að berast Myndstefi skriflega.

 


Viðmiðunargjaldskrá

Gjaldskrá Myndstefs er viðmiðunargjaldskrá sem heimilt er að víkja frá bæði til hækkunar og lækkunar. Við not á myndverkum í markaðssetningu/auglýsingum semjum við sérstaklega um gjaldið sem miðast þá við umfang notkunnarinnar.

 


Eintakagerð án gjaldtöku

Í einstökum tilfellum er heimilt að nota verndað myndverk án þess að fá leyfi til þess eða greiða fyrir það. Slíkt á við þegar vernd samkvæmt höfundalögum er fallin niður eða þegar sérstakar undanþágur eru í höfundalögum um slíka gjaldfrjálsa notkun sbr. II. kafla höfundalaga nr. 73/1972


Óheimil notkun á vernduðum myndverkum

Þegar skilmálar samkvæmt gjaldskrá þessari eru ekki virtir getur Myndstef fyrir hönd viðkomandi höfundar krafist bóta í formi hækkunar á gjaldskrá allt að 100%. 

 

Ekki innifalið í gjaldi

Gjaldskrá Myndstefs tekur einungis til þóknunar vegna höfundaréttar eins og notkun hans er sérstaklega skilgreind í hverju tilfelli. Gjaldtaka vegna eintaks sem nota á vegna prentunar, útgáfu eða birtingar í hinu stafræna umhverfi fellur ekki undir þessa gjaldskrá og ber að greiða sérstaklega fyrir þá eintakagerð. Sá sem fær notkunarheimild samkvæmt þessari gjaldskrá getur ekki deilt útgáfuréttinum með öðrum, t.d. með því að hlaða niður vernduðu efni til að nota sem kennsluefni.

 


Notkun gjaldskrár

Þóknun samkvæmt gjaldskránni miðast við þann miðil sem myndverkið á að nota í t.d. birting í bókum, öðrum prentmiðlum, interneti o.s.frv. Ef ekki er unnt að fella notkun undir neinn miðil sem gefinn er upp í gjaldskránni hafið þá samband við skrifstofu Myndstefs.
Gjaldskráin er uppfærð 01/01 ár hvert og tengist breytingum á vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

 

 

Endurprentun

Þegar útgefið efni er endurprentað eða gerðar hliðstæðar útgáfur af sama efni t.d. á dvd, cd, kvikmyndir o.fl. er veittur afsláttur sem nemur allt að 50%. Ef verk er endurútgefið á öðru tungumáli en óbreytt að öðru leyti telst það endurprentun.

 

Not af vernduðu myndverki í mörgum miðlum

Þegar myndverk er notað í útgáfu á mörgum miðlum skal greiða fullt gjald fyrir dýrasta miðilinn. Fyrir aðra miðla er að jafnaði veittur 20% afsláttur af því gefnu að allar útgáfurnar séu notaðar samtímis.

 


Endurtekin not af sama myndverki

Ekki skal borga aukalega fyrir not af einni smámynd (thumbnail) sem vísar til stærra afrits í sömu útgáfu.

Sé sama myndverk birt oftar í einni útgáfu skal veittur 50% afsláttur af aukabirtingum.

 


 

Hafnarstræti 16, Pósthólf 1187, 121 Reykjavík - S. 562 7711 - myndstef@myndstef.is